3.12.2011 kl. 23:59

Ég kenndi í tvö ár við Edinborgarháskóla á meðan ég bjó úti í Skotlandi. Í heildina fannst mér afskaplega gefandi og skemmtilegt að kenna. Ég kenndi átján ára gömlum fyrsta árs nemum yfirlitskúrs í evrópusögu 1500-1989 bæði árin. Ég hafði brennandi áhuga á efninu, sem var víðfeðmt og afskaplega áhugavert, og fannst gaman að fá krakkana til þess að nálgast stóru spurningar sagnfræðinnnar á gagnrýninn hátt, með heimspekilegum vinklum þegar það átti við.

Nemendurnir voru misgóðir og misáhugasamir, en ég var vinsæll kennari, fékk mjög góða umsögn í kennslukönnunum bæði árin. Ég fékk það á tilfinninguna að ég væri góður kennari, fær í að miðla þekkingu á áhugaverðan og spennandi hátt, og ætti að mörgu leyti heima í svona starfi. Ég gæti alveg hugsað mér að gerast kennari, þótt ég hafi minnkandi áhuga á starfsferli í akademíu.

Vandinn er hins vegar sá að ég gæti engan veginn hugsað mér vera kennari í íslensku samfélagi. Kennarar hér fá hlægilega lág laun og eru fyrirlitin undirmálsstétt í samfélaginu. Stór hluti kennara er fólk sem hefur aðra "fyrirvinnu", maka sem þéna alvöru laun, eða vinnur aðra vinnu á sumrin, enda með öllu ómögulegt að framfleyta sér á þessum smápeningum sem ríkið greiðir þessari þörfu stétt.

Að gerast kennari á Íslandi í dag krefst mikillar fórnfýsni og hugsjóna, eða hreinlega skorts á öðrum tækifærum. Ekki hjálpar að nú er auk BA gráðu krafist tveggja ára meistaragráðu í "kennslufræði" -- einhverri djöfulsins þvælu, eftir því sem ég fæ best séð af kennsluskránni -- áður en maður er gjaldgengur til kennslu í menntakerfinu. Þetta er mikið nám til þess að þéna helminginn af því sem maður getur þénað í venjulegu skrifstofustarfi. Það væri kannski ekki jafn óboðlegt ef það væri borin einhver virðing fyrir kennarastéttinni, en svo er ekki.


TLDR; Ég væri til í að gerast kennari, en samfélagsstaða og starfskjör kennara á Íslandi eru svo ömurleg að ég get engan veginn hugsað mér að starfa við það hér á landi.


8 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Sigurgeir Þór | 4.12.2011 kl. 17:38
Sigurgeir Þór

Mér skilst að laun framhaldsskólakennara séu á bilinu 280-350 þúsund á mánuði, sem er nú ekki til að hrópa húrra fyrir. Mér skilst samt að margir kennarar taki það sem kallast "fimmta fagið" og hækki við það um 100 þúsund kall á mánuði í launum. Er það svo slæmt?

Sveinbjörn | 4.12.2011 kl. 18:04
Sveinbjörn

Já, þetta er skárra í framhaldsskólum heldur en grunnskólum, enda fleiri karlar þar.

En mér þykir 280 þúsund í grunnlaun eftir a.m.k. fimm ára nám afskaplega slakt. Professional laun á almennum vinnumarkaði eru á bilinu 400-500 þús. Það að kennarar á menntaskólastigi þurfi að taka á sig aukakennslu bara til þess að vera með mannsæmandi laun er ekki eðlilegt.

Steinn | 4.12.2011 kl. 21:22
Steinn

Íslendingar hafa nú ekki mikið álit á menntafólki, kennurum og störfum þeirra, enda held ég að hvergi í Evrópu þyki það í lagi að koma fram og tala um menntafólk í níðrandi tón. „Svokallaðir fræðimenn" er notað sem níð á Íslandi.

Sindri | 5.12.2011 kl. 13:28
Sindri

Mig langaði einu sinni til að prófa að vinna við kennslu, t.d. kenna eðlisfræði í menntaskóla eða eitthvað slíkt. En þetta er svo satt það sem þú ert að segja. Það er litið niður á kennara og launin eru hrikaleg. Ég mun líklegast aldrei fá að kynnast þessu, ekki nema maður sé í öðru fullu starfi og með sveigjanlegan vinnutíma.

Freyr | 6.12.2011 kl. 17:30
Freyr

Allt satt og rétt sem þú segir Sveinbjörn. Reynsla mín af kennslu var allt í senn hrikalega skemmtileg og gefandi, en um leið hrikalega ömurleg.

Að hluta til held ég að ástæðan að baki landlægri vanvirðingu við skóla og menntun sé sú að skólakerfið er næturtröll sem dagaði uppi fyrir nokkrum áratugum síðan.
Hið sjálfstæða og tiltölulega praktíska hugarfar landans sér einfaldlega í gegnum kerfið.

Sveinbjörn | 6.12.2011 kl. 17:45
Sveinbjörn

"skólakerfið er næturtröll sem dagaði uppi fyrir nokkrum áratugum síðan."

Gætirðu útlistað nánar hvað þú átt við með "næturtröll"?

Freyr | 6.12.2011 kl. 22:31
Freyr

Í þeim skilningi að það er fátt sem er ekki úrelt í skólakerfinu, t.a.m. er það einn af fáum stöðum eftir þar sem finna má orginal ljósvarpa, videótæki og kassettuspilara. Svei mér þá, það hlýtur að vera hægt að finna floppy-drif þarna einhversstaðar líka.

Kennsluefni, og það sem verra er, hugarfar er því miður líka staðnað og úrelt. Í stað þess að mótivera krakka er áherslan á "að kenna aga", "að læra að læra" et.c., e-ð Victorian-Charles Dickens-ethos sem virkar því miður ekki vel í byrjun 21.aldarinnar.

Í stað þess að undirstrika fascinerandi hliðar sögu, heimspeki, vísinda, stærðfræði et.c.; tengja námsefnið við samtímann, miðla og kynda undir áhuga krakkanna og hvetja þá til að kynna sér efnið á eigin forsendum, er námsefnið og heimanám dull drudgery sem er gert eiginlega bara til að gera það.

Ég tala reyndar útfrá reynslu minni við að kenna unglingastigi, 8.-10.bekk, en það eymir nú líka eftir af þessari stemmingu í menntó.

Ég gæti haldið áfram á þessum nótum en læt gott heita í bili. ;)

Sveinbjörn | 10.12.2011 kl. 15:26
Sveinbjörn

Takk fyrir góða greinargerð á þessu, og hana frá manni sem hefur starfað í kerfinu! Þetta er s.s. eins og ég hélt, eins og ég man eftir þessu úr grunnskóla...