23.11.2011 kl. 23:19

Gamli skólinn minn, London School of Economics, er heldur betur búinn að skíta upp á bak undanfarin ár. Hann varð eins konar armur í utanríkisstefnu New Labour og í kjölfarið mynduðust náin tengsl milli skólans og Gadaffi-stjórnarinnar í Líbíu.

Saif, sonur Gadaffi, stundaði nám við skólann og útskrifaðist þaðan doktor árið 2008. Stofnun á vegum Gadaffi-feðganna færði skólanum 1.5 milljón pund að gjöf. Fræðimenn skólans ferðuðust margir hverjir til Líbíu gegn rausnarlegum greiðslum í því skyni að þjálfa starfsmenn líbíska ríkisins.

Allt þetta var gert, að mér skilst, fyrir tilstilli ríkisstjórnar Blairs og Browns. Þrátt fyrir Lockerbie vildu þeir bæta samskipti við landið, m.a. til þess að verða breskum fyrirtækjum úti um stóra vopnasamninga og breska olíurisanum British Petroleum úti um líbíska olíu. Saga skólans fléttist margvíslega saman við sögu breska verkamannaflokksins, en hann var m.a. stofnaður af frægu frjálslyndu sósíalistunum George Bernard Shaw og Webb-hjónunum frægu, vinafólki Bertrands Russell. Margir pólitísku hugmyndafræðingar blairismans eiga rætur að rekja til LSE og skólinn hefur lengi stært sig af tengslum sínum við atvinnulífið. Ingibjörg Sólrun fór þarna á sínum tíma til að læra hin merku blair-fræði. Þetta ósmekklega samstarf skólans við New Labour og auðugu Gadaffi-fjölskylduna hefur smellpassað.

Doktorsritgerð Saifs Gadaffi ber eftirfarandi titil (reynið að lesa þetta allt án þess að anda):

The Role of Civil Society in the Democratisation of Global Governance Institutions:
From 'Soft Power' to Collective Decision-Making?
[PDF 1.9 MB]

Nú hefur komið í ljós að hún var að hluta til stolin (6% beint), og afgangurinn skrifaður af starfsfólki breskrar hugveitu á vegum Gadaffi-feðganna. Leiðbeinandi Saifs ku hafa verið Nancy Cartwright, vísindaheimspekingur, sem kenndi mér þarna stuttlega, eða þar til ég hætti í kúrsinum hjá henni.

Hagfræðingurinn Howard Davies, rektor LSE síðastliðin 8 ár, hefur sagt af sér ásamt nokkrum öðrum fræðimönnum sem tengdust líbíubatteríinu innan skólans. Hann hefur síðan lofað að skila þeim peningum sem skólinn er ekki þegar búinn að eyða í "rannsóknir á lýðræðisvæðingu Líbíuríkis". Yfirstjórn skólans tókst þó að brenna sig í gegnum 300 þúsund pund áður en hún sá villu síns vegar, og það þrátt fyrir mótmæli nemenda skólans. Þetta er mikil skömm, og bresku fjölmiðlarnir hafa undanfarna mánuði talað um The Libyan School of Economics.

Þetta kemur mér svo sem ekki á óvart. Mér fannst LSE alltaf vera frekar ómerkilegur skóli, bæði akademískt og menningarlega. Margir fræðimenn skólans voru að mínu mati á poppaðri væng akademíunnar, þótt ég sé í sjálfu sér ekki dómbær á það, þar sem ég var þarna í bara eitt ár. Nemendurnir voru síðan flestir ladder-climbing wannabe apparatchiks, uppar, eða júrókratar sem vildu fá ódýra breska meistaragráðu í skrifræði á ferilskrána, en slíkt er farið að þykja voða fínt á meginlandi Evrópu. Þegar ég segi "ódýra" þá á ég vitaskuld við gríðarlega vinsælu eins árs MSc gráður skólans, með lágar inngangs- og námskröfur. Að sjálfsögðu eru þær feikidýrar í krónum talið, og lítið um styrki. Það er góður peningur í menntun, ef maður er að kenna rétta fólkinu.