23.11.2011 kl. 15:33

Ég vil vekja athygli á eftirfarandi færslu hans Arnaldar á vefsíðu sinni um að Ísland toppi OECD listann í "félagslegu réttlæti".

Það er absúrd að stofnanir á borð við OECD séu að þykjast mæla "réttlæti" -- hvort sem það er félagslegt eður ei. Eins manns réttlæti er annars manns ranglæti. Réttlæti er siðferðislega þrungið og afskaplega abstrakt hugtak. Það samanstendur ekki af einhverri einfaldri körfu af samfélagslegum mælivísum. Það er hjákátlegt þegar menn ætla að sýna einhver súlurit yfir réttlæti í mismunandi löndum.

Eitt af ógeðfelldari einkennum okkar tíma er hvernig menn taka flókin, siðferðisleg hugtök um heimspekilegar afstöður gagnvart heiminum og sjóða þau niður í "vísindalegar" teknókratískar rannsóknir byggðar á einhverjum samfélagsvísum á borð við "aðgengi að menntun" eða "fátæktarmörk".

Öll ríki í heiminum einkennast að mínu mati af stórfelldu ranglæti, kúgun og valdníðslu. Það er mín siðferðislega afstaða. Hún byggir á heimspekilegum hugmyndum mínum um valdbeitingu og óbeit minni á ríku valdaelítunum sem alls staðar ráða. Hún byggir svo sannarlega ekki á Gini stuðlinum.

Hins vegar tek ég heils hugar undir með Arnaldi að Íslendingar hljóti að toppa síðarnefnda listann hans. Í raun er erfitt að finna fólk sem hefur það eins svakalega gott og Íslendingar en vælir jafn átakanlega mikið yfir sínum hlutskiptum.


12 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Eiki | 23.11.2011 kl. 20:01
Eiki

Þarf ekki bara að gera fleiri stuðla? Einn fyrir Rawls-ískt réttlæti, einn fyrir Aristótelískt, einn fyrir Steven Seagalian Urban Justice osfrv.

Ceterum censeo að við breytum nafni landsins í JustIceland.

Sveinbjörn | 23.11.2011 kl. 20:10
Sveinbjörn

Megalæk

Arnaldur | 23.11.2011 kl. 21:29
Arnaldur

Vá, hvað þetta er gott!

Þórdís | 23.11.2011 kl. 20:20
Þórdís

Æ ég veit það ekki, mér verður nú ekkert flökurt af því að einhver sé að dunda sér við að búa til svona lista.

Já vissulega er þetta flókið efni en allir sem eru klárari en egg geta séð það í hendi sér að svona listi er bara slump og forsendurnar umdeilanlegar og taka honum sem slíkum. Það þýðir ekki að það geti ekki verið heilmikið gagn í að búa listann til og marktækt hvort land lendir í topp 20, 20 neðstu eða alveg í miðjunni.

Svona eins og Philosophical Gourmet Report.

Sveinbjörn | 23.11.2011 kl. 20:27
Sveinbjörn

Æi, þetta er bara angi af hugmynd að langri bloggfærslu sem hefur verið að myndast í hausnum á mér undanfarið, um barnalega trú samtímans á tekrókrasíu, scientific politics, scientific management.

Reifst einu sinni við Nancy Cartwright um þetta þegar ég var við LSE í kúrs hjá henni. Hugtakið sem hún vildi nota þá var "meritocracy". Álíka stupid.

Eiki | 23.11.2011 kl. 22:09
Eiki

Samkvæmt Wikipediu var hún leiðbeinandi Saif "better Saif than sorry" Gaddafísonar.

Sveinbjörn | 23.11.2011 kl. 22:11
Sveinbjörn

Já. Meiriháttar skandall, sérstaklega þar sem hún var aðalleiðbeinandi hans og það kom síðan í ljós að doktorsritgerð sonar Gadaffi var að hlusta stolin, að hluta ghost-written fyrir hann af einhverjum breskum think-thank.

Arnaldur | 24.11.2011 kl. 21:01
Arnaldur

Ég skrifaði þetta í gær, en netið datt út meðan ég var að því, þannig að ég gat ekki póstað því. Anywho, here goes:

Já, ég skal ekki segja. Auðvitað er erfitt að tala um eitthvað jafn loðið og "réttlæti" í þessu samhengi. Ef til vill hefði farið betur á því að kalla þetta eitthvað annað.

Reyndar fór ég í að skoða þessi gögn betur. Þá komst ég að því að:

a) Þessi skýrsla er ekki frá OECD, heldur frá þýskum mannræktarsamtökum; 'Bertelsmann Stiftung'. (Samkvæmt heimasíðunni þeirra, eru þetta philanthropista-samtök sem vilja stuðla að jafnrétti og sjálfbærni á alþjólega vísu.) Samtökin vísa í mælingar frá OECD, máli sínu til stuðnings.

b) Í skýrslunni er settur stór fyrirvari á hugtakið "félagslegt réttlæti" og tiltekið að það sé varhugavert að skilgreina það á einn hátt frekar en annan. (Reyndar vitna þau einmitt í Rawls og fleiri þarna í þessu samhengi, skemmtilega nokk.)

c) Skýrsluhöfundar gera svo ágætlega grein fyrir því hvað það er sem þau vilja skoða, í hvaða tilgangi, og afhverju þau telja að þessir indikatorar sé vel til þess fallnir að gefa góða mynd af viðfangsefninu.

Sjá skýrsluna í heild:
http://www.sgi-network.org/pdf/SGI11_Social_Justice_OECD.pdf

Þannig held ég að það sé allt í lagi að taka einhver svona atriði fyrir og skoða þau og bera saman eins og gert er í skýrslunni. Svo lengi sem menn gera heiðarlega grein fyrir afstöðu sinni og tilætlan. Þá sjáum við vonandi einhver mynstur sem hægt er að taka afstöðu til um hvort séu í áttina að því sem við viljum eða ekki.

Ef að þetta snýst um orðanotkunina, "réttlæti" þá get ég svo sem alveg verið sammála þér með að það er kannski ekki heppilegt.

Ef ég skil þig rétt, þá vilt þú finna að því að menn gefi sig út fyrir að vera að nálgast siðferðileg álitaefni á vísindalegan hátt, eða eitthvað í þá áttina. Ég spyr aftur á móti, er það eitthvað verri nálgun (með hóflegum fyrirvörum) að reyna að skoða þessi mál með vísan í einhver talnagögn, heldur en að teorísera um sömu mál með vísan í mis-praktískar nálganir eftir tilfallandi heimspekistefnum?

Þórir Hrafn | 25.11.2011 kl. 10:41
Þórir Hrafn

Félagslegt réttlæti er vissulega órætt hugtak en skýrsluhöfundar setja ýmsa fyrirvara við nálgun sína og taka út ákveðna þætti (sem flestir eru sammála um að hafa áhrif á félagslegt réttlæti) sem hægt er að mæla í hverju ríki. Þessi atriði eru tiltölulega auðmælanleg en auðvitað ekki óumdeilanlega einu atriðin sem snerta félagslegt réttlæti í hverju ríki.

Svona mælingar eru vissulega gallaðar en þær eru eitt af því fáa sem við höfum til þess meta árangur einstakra ríkja og stjórnmálastefna á t.d. þessu sviði.

Auðvitað er ekki hægt að mæla hversu réttlátt þjóðfélag er á einhvern fullkominn hátt í kúrfu. En mér þykir hálf kjánalegt að þar sem ekki ert hægt að gera þetta á fullkominn hátt þá eigi ekki einu sinni að mæla þá hluti sem við náum yfir. Þó ekki væri nema til þess auðvelda okkur að stefna frá hinu verra til hins skárra.

Þórir Hrafn | 25.11.2011 kl. 10:43
Þórir Hrafn

Ég bendi á að það er hægt að gera ýmislegt skemmtilegt með tölfræði, t.d. ranta um það hvað landið manns sé ömurlegt með vísan til hennar:

http://www.youtube.com/watch?v=T8UqdPKbpWM

Sveinbjörn | 25.11.2011 kl. 12:31
Sveinbjörn

Málið er að þau eru ekki bara "ekki óumdeilanleg" heldur eru þau radically ólík.

Hvað þætti þér ef félagsvísindamenn gerðu rannsókn á því hversu "góð" hin ýmsu samfélög væru? Þeir gætu þá t.d. mælt hversu margar grænmetisætur væru í samfélaginu, hversu margar tilkynningar um heimilsofbeldi bærust til lögreglu, og hversu mörg stríð viðkomandi þjóð hefði barist í.

Extreme dæmi, en í grófum dráttum sama pælingin. Málið er að eins manns "árángur" er annars manns afturför.