10.10.2011 kl. 17:47

Úr þessari bloggfærslu á DV:

Úr "Rányrkjubúið" eftir Stefán Jón Hafstein (Tímarit M&M, 72. árg. 3. hefti, 9/2011, nú til sölu í bókabúðum):

"Völd þeirra teygðu sig inn í alla kima samfélagsins. Þeir kusu síður að stjórna eftir skráðum reglum, stjórnarskrá eða föstum skorðum í regluverki stofnana, heldur með því að byggja upp stórt úthlutunarkerfi (patronage) sem skóp þeim veitingavald og hollustu. Þingin voru fyllt af stuðningsmönnum sem höfðu sannað sig með hlýðni. Verkalýðsfélög og bændasamtök (hér vantar atvinnurekendafélag fyrir íslenska samhengið) voru sveigð undir hið pólitíska valdakerfi. Pólitísk umræða fór fram með slagorðum og lofsöngvum sem enginn tók alvarlega. Tækifærið til að sölsa undir sig auð og veitingarvaldið yfir honum bjó til það „sement“ sem nægði til að festa völd í sessi. Til ráðstöfunar voru ekki bara störf í ráðuneytum, á þingum, og í stjórnsýslu, heldur í ríkisfyrirtækjum þar sem ríkið var einn stærsti atvinnurekandinn og handhafi hlunninda. Verktakar og fyrirtæki fengu aðgang í gegnum kerfið, ákvarðanir voru iðulega teknar í gegnum persónuleg tengsl með viðeigandi skuldbindingu á báða bóga. Veitingarvaldið teygði sig frá æðstu ráðamönnum út í héruð og sveitir. Á hverju stigi voru „stóru mennirnir“ sem kunnu á kerfið, sköffuðu stuðningsmönnum vinnu og verkefni gegn pólitískum stuðningi. Til að viðhalda stuðningi þurfti að tryggja meiri úthlutun. Valdi voru settar fáar skorður, það safnaðist á fárra hendur, ákvarðanir teknar eftir geðþótta en ekki með samráði við þá sem gerst vita og kunna."

Lýsing á Sjálfgræðis- og Framsóknarflokki? Íslenska Fjórflokknum? Það virðist vera svo, en nei, þetta er kafli úr "The State of Africa" eftir sagnfræðinginn Martin Meredith þar sem hann lýsir þessum þriðja-heims ný"frjálsu" ríkjum.

Maður hugsar með sér að það sé hreinilega ekki hægt að bjóða framtíðarbörnum sínum upp á að lifa í svona svakalega spilltu þjóðríki. En síðan rennur það upp fyrir manni að það er eins hér um bil alls staðar í heiminum.


9 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Þórir Hrafn | 11.10.2011 kl. 13:37
Þórir Hrafn

Þetta er alveg hræðileg grein hjá honum SJH.

Hann er mjög augljóslega að skrifa sig inn í íslensk stjórnmál á nýjan leik og hann hefur bókstaflega ekkert fram að færa, nema annan flokks poppúlisma og hugmyndafræðilega gjaldþrota hægri"krata" stjórnmálkenningar.

Greinin segir, í löngu máli, það sama og Hannes Hólmsteinn er nú þegar búinn að láta frá sér: Kapitalisminn var ekki vandamálið, kapitalistarnir klikkuðu. Frjálshyggjan brást ekki, heldur voru menn bara of spilltir hér á landi.

Það er bókstaflega ekkert athyglisvert við þessa grein.

kv. ÞHG

Sveinbjörn | 11.10.2011 kl. 13:39
Sveinbjörn

Ég er ekki sammála þessu. Ég reyndir nennti ekki að lesa greinina alla hjá honum, og mér er svosem sama hver hans "angle" er. En þessi samanburður milli stjórnskipunar Íslands -- klíkusamfélagsins -- og afríkuríkja, er samanburður sem á fullan rétt á sér. Það er ekki eins og maður hafi ekki séð þetta í aksjón hérna heima, aftur og aftur.

Þórir Hrafn | 11.10.2011 kl. 14:04
Þórir Hrafn

Það er eiginlega ekki hægt að ræða um þessa grein nema að menn hafi lesið hana alla (hún er nú ekkert mjög löng, get lánað þér TMM).

Inntak greinarinnar er einfaldlega það að hrunið á Íslandi sé ekki út af hugmyndafræði (frjálshyggju) heldur því að landið hafi verið einstaklega spillt.

Hér á Íslandi var/er að sjálfsögðu spilling, en að halda því fram að landið sé einstaklega spillt er einfaldlega þvæla. Menn þurfa ekki að fylgjast mikið með erlendri þjóðmálaumræðu til að sjá það.

Ég hef a.m.k. ekki mikla þolinmæði fyrir stjórnmálamönnum sem vilja fá annan séns til að frjálshyggjuvæða samfélagið, bara gera það rétt í þetta skiptið.

Aðalsteinn Hákonarson | 11.10.2011 kl. 15:23
Aðalsteinn Hákonarson

Ekki var þetta mitt impressjón eftir að hafa lesið grein SJH.

Mér finnst ekki galið eða þvæla að halda því fram að það sé mikil spilling.

SJH heldur því fram að ákveðin tegund spillingar hafi haft ákveðin áhrif. Hann segir m.a. að smæð landsins hafi að nokkru leyti magnað áhrif spillingarinnar.

Grein SJH er auðvitað ekki mjög ítarleg og margt af því sem þar kemur fram er kannski ekki alveg stutt algjörum staðreyndum heldur frekar rökstuddum grun.

En það breytir því ekki að það eru ekki rök gegn máli hans að halda því fram að spilling geti ekki hafa haft þau áhrif sem hann telur vegna þess að það sé verri spilling í öðrum löndum.

Þórir Hrafn | 11.10.2011 kl. 16:33
Þórir Hrafn

Ég efast ekkert um að spillingin hafi ekki haft áhrif á þetta. En eins og ég sagði áðan inntak greinarinnar er það að hrunið á Íslandi sé ekki út af hugmyndafræði (frjálshyggju) heldur því að landið hafi verið einstaklega spillt.

Í fyrsta lagi þá held ég að hugmyndafræðin hafi haft mun meira með bankahrunið að gera heldur en spillingin. Það þarf ekki annað en að lesa bókina (er bara búinn að lesa valda kafla) hans Guðna Th. um Gunnar Th. til að sjá að hér á landi hefur lengi viðgengist fjölskyldu og vina spilling, samt var ekki mikið um bankahrun á þessum tíma. Það sem hefur breyst er að það kom ný hugmyndafræði sem gerði jók á græðgina og með því að koma fjármagninu til einkaaðila sem voru í þokkabót eftirlitslausir/litlir þá var veruleikinn orðinn miklu hættulegri.

Í öðru lagi þá eru það rök að benda á að það sé líka (stundum meiri, stundum minni) spilling í öðrum löndum þegar að þungamiðja greinarinnar gengur út á það að þetta sé í raun eina ástæðan (kúplað með fámenninu). Ef það er rétt þá hlýtur spillingin að hafa verði á miklu massífari skala en tíðkast erlendis og það stenst einfaldlega ekki skoðun.

Arnaldur Grétarsson | 13.10.2011 kl. 11:12
Unknown User

Ég hef nú hvergi heyrt SJH mæla frjálshyggjunni einhverja sérstaka bót. Reyndar hef ég ekki lesið umrædda grein, en ég hlustaði á langt viðtal við hann á Rás 1 þar sem hann lagði útaf greininni. Þar virtist hann nú ekki vera sérlega upprifinn yfir einhverri frjálshyggju. Þvert á móti.

Aftur á móti skildi ég SJH sem svo að honum þætti mun meira aðkallandi vandamál, sú flokkstengda hagsmuna pólitík (eða beinlínis spilling) sem hefur verið rekin hérna áratugum saman.

M.ö.o. það er lítið gagn af því að einblína hér á einhverja misheppnaða frjálshyggjuvæðingu þegar gegnumgangandi vandinn er spilling.

Þetta er líka bara alveg rétt hjá honum. Og mér finnst það nú ofsögum sagt hjá þér Þórir, að spilling hafi ekki verið efnahagslegur dragbítur á Íslandi alla tíð. Nægilegt ætti að vera að líta til gengisþróunar íslensku krónunnar frá því hún var aftengd þeirri dönsku.

Ef menn vilja svo ræða bankahrun af völdum spillingar má náttúrulega hæglega telja til hrun Útvegsbankans 1987, sem var tæmdur að innan af SÍS á sínum tíma. Þar á undan var Íslandsbanki tæmdur af sjávarútveginum á árunum 1928-30.

Það virðist sem svo að hér sé ekki hægt að reka fjármálastofnanir - sama hvaða hvaða hugmyndafræðilegu forsendur menn gefa sér. Hér ræður spilling í formi frændhygli alltaf ferðinni. Bankarnir eru alltaf étnir innan frá af góðvinum þeirra sem ráða.

Er það ekki bara það sem hann er að benda á?

Arnaldur | 14.10.2011 kl. 10:39
Arnaldur

Ég legg það nú ekki í vana minn að hlekkja á mbl, en mér fannst þessi pistill relevant í umræðunni:
http://mbl.is/frettir/innlent/2011/10/13/umraeda_um_hrunid_a_villigotum/

Þórir Hrafn | 11.10.2011 kl. 16:34
Þórir Hrafn

Það er "ekki" ofaukið í fyrstu setningunni hjá mér.

kv. ÞHG

Sindri | 12.10.2011 kl. 10:52
Sindri

Þetta er ósköp einfalt. Þetta er blanda af hvoru tveggja. Spillingin varð til þess að menn fengu að gera ýmislegt óáreittir en ekki endilega vegna einhverrar gríðarlegrar frjálshyggju sem hér á að hafa tröllriðið öllu. Menn þekktust bara of vel og regluverkið var slappt, eða því var að minnsta kosti ekki framfylgt.