Það hefur verið svolítið í umræðunni undanfarna daga að hún Þórunn Sveinbjarnardóttir sé að hætta á þingi og á leiðinni í nám í siðfræði, en fái hins vegar full laun í 6 mánuði eftir að hún lætur af störfum.

Ég verð að segja að mér finnst þetta helvíti ómerkilegt, bæði að hún lýsi þessu yfir núna en ekki þegar ákvörðun hennar var tekin (í Apríl, þegar HÍ hætti að taka við skráningu) og að hún þiggi 6 mánuða laun eftir að hafa *sagt upp* starfi sínu.

Það er ekkert athugavert við að þingmenn fái 520 þús kall á mánuði, það eru þokkaleg millistéttarlaun og engin ástæða til þess að þeir fái minna eða meira en það. Hins vegar er löngu kominn tími til þess að klippa á öll sérréttindi pólitísku stéttarinnar á Íslandi. Ég held að það sé mjög sterkur hljómgrunnur fyrir því í íslensku samfélagi í dag, þá sérstaklega í ljósi þess hve átákanlega illa þessi stétt hefur brugðist fólkinu í landinu þrátt fyrir óvenjugóð kjör og alls konar fríðindi gegnum árin.

Laun þingmanna ættu hreinlega að vera tengd almennum kjarasamningum ríkisstarfsmanna.

Venjulegt launafólk hjá ríkinu þarf að vinna út uppsagnarfrestinn, og á bara rétt á þremur mánuðum sé því sagt upp. Ég sé enga ástæðu af hverju stjórnmálamenn ættu að fá einhver fríðindi umfram það. Ef við hugsum um starf þeirra eins og hvert annað launastarf, þá er augljóst að eftirspurn eftir þingsetu er mjög mikil og þ.a.l. framboðið á þingmönnum mikið. Laun og réttindi ættu að vera í samræmi við það.

Síðan er það auðvitað til háborinnar skammar að ekki sé löngu búið að retróaktívt afnema eftirlaunafrumvarpið fræga, sem enn tryggir afdönkuðum pólitíkusum tvöföld laun eftir langa þingsetu á þeim hlægilega og gróteska grundvelli að starf þeirra sé svo "krefjandi".

Á tímum aðhalds í ríkisfjármálum ætti öxin fyrst að falla á bitlinga æðstu stjórnar ríkisins, og síðast á heilbrigðis- og félagstryggingakerfið sem *allir* landsmenn reiða sig á.

Það ætti síðan sem fyrst að taka upp kerfi þar sem þingmenn missa stjórn á eignum sínum á meðan á þingsetu stendur -- þeim sé óheimilt að stunda fjárfestingar, verðbréfakaup eða fasteignakaup á meðan þeir sitji á þingi, að bókhald eigna þeirra og maka sé opið almenningi. Slík lög gilda um embætti forseta Bandaríkjanna, og ættu klárlega að gilda um alla þá sem fara með pólitískt vald á litla Íslandi, þar sem allir tengjast öllum. Ef menn eru ekki með hreinan skjöld (og tilbúnir að sýna það í verki) eiga þeir hvort eð er ekkert erindi á þing.

En maður getur svosem bara látið sig dreyma. Það er ekki eins og neitt af þessu sé að fara að gerast. Það virðist auðveldara fyrir bæði vinstri- og hægrimenn að loka deildum á Landsspítalanum en að klippa á eigin fríðindi. Mannseðlið er bara eins og það er...


11 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Arnaldur | 8.9.2011 kl. 12:31
Arnaldur

Þetta er allt gott og gilt, en...

1) Það að sækja um nám í háskóla jafngildir ekki ákvörðun um að hefja nám. Þetta ættir þú að vita manna best Sveinbjörn.

2) Það er bannað að setja lög afturvirkt á Íslandi, enda gætu slík fordæmi virkað fullkomnlega lamandi. (T.d. værum við félagarnir í frekar djúpum skít ef það yrðu sett lög sem bönnuðu reykingar, gegn sektum, afturvirkt.)

Við sitjum því uppi með kynslóð þingmanna sem mega skammast sín fyrir sjálftökuna (DO í heiðurssæti þar), en við því er lítið að gera.

Hitt er annað að lífeyrisréttinda-sékjörin hafa nú verið afnumin, og enginn nýr þingmaður nýtur þeirra. Sem er sennilega eins gott og hægt var að gera í stöðunni.

3) Er ekki frekar bilað að ætlast til þess að fólk, þótt það sinni trúnaðarstörfum fyrir þjóðina, missi í raun réttinn á að ráðstafa eignum sínum? Klárlega mætti gera þetta á smekklegri hátt með því að vera með strangt aðhaldskerfi sem check-aði af allt innherja brask og sjálftöku, og opið bókhald eins og þú leggur til. En ég get ekki séð afhverju fólk ætti ekki að fá t.d. að flytja sig í annað húsnæði bara af því að það situr á þingi.

En ég verð að segja að ég er sammála þér. Mér finnst 6 mánaða laun frekar ríflegt. Hljómar eins og ferkar fínn starfslokasamningur ef þú spyrð mig.

Sveinbjörn | 8.9.2011 kl. 13:30
Sveinbjörn

1) OK, en hún vissi það kannski ekki strax í Apríl, en HÍ er ekkert lengi að láta mann vita, innheimtuseðillinn fyrir skráningargjöldum berst í júlí, minnir mig. Og það er svosem ekki beinlínis líklegt að fyrrum ráðherra sé neitað um nám við Háskóla Íslands.

2) Þetta er léleg hliðstæða hjá þér. Að svipta menn retróaktívt ákveðnum lífeyrisréttindum er EKKI sambærilegt við að gera e-ð ólöglegt retróaktívt og sækja menn til saka fyrir glæp. Hið fyrrnefnda er tæpast stórtæk aðför að réttarríkinu, eftir því sem ég fæ best séð.

3) Kannski, en kannski ekki. Mikilvægast er þó að bókhaldið hjá öllum á þingi sé öllum aðgengilegt.

Og já, 6 mánuðir er allt of ríflegt fyrir þingmann sem *segir upp* störfum.

Arnaldur | 8.9.2011 kl. 16:21
Arnaldur

1) Ég á ekki við að hún hafi verið í óvissu um að komast inn. Ég er eingöngu að benda á að það er eðlilegt að þreifa fyrir sér með umsóknum, hvort sem er í nám, eða aðra vinnu, án þess að maður sé nauðbeygður til að fylgja því eftir alla leið. M.ö.o. fólk má sækja um nám án þess að því fylgi einhver afgerandi skuldbinding.

2) Þarna var ég eingöngu að benda á að það *er* ólöglegt að setja lög afturvirkt, og ég held að almennt sé það heillavænlegt. Fólk verður að geta gengið að því vísu að hlutirnir virki eins og þeir eigi að gera. Ég er heldur ekki sammála því að það að svipta menn réttindum afturvirkt sé eitthvað öðruvísi þegar allt kemur til alls.

3) Ég hugsa að við séum á svipaðri blaðsíðu þarna. Það er bara spurning um útfærslu atriði. Ég held að markmiðið sé alltaf að koma í veg fyrir spillingu. Ég vil meina að þetta sé hægt án þess að ganga á borgaraleg réttindi fólks.

Sveinbjörn | 8.9.2011 kl. 16:35
Sveinbjörn

1) Fair enough. En þegar fólk gegnir pólitískum störfum á borð við þingstörf, þar sem það er kosið í embætti, þá ætti það að vera heiðarlegt og með allt uppi á borðinu from day 1. Ekki að yfirgefa embætti á miðju kjörtímabili bara sísvona. Mér finnst þetta ekki drengilegt (og ekki siðferðislega commendable) hjá Þórunni, þótt þetta sé auðvitað ekki ólöglegt.

2) Já, en hversu "afturvirkt" er þetta? Þarna er verið að ræða um greiðslur í framtíðinni. Það er enginn að tala um að taka greiddan lífeyri af þessu fólki, heldur að klippa á lífeyrinn framvegis.

3) Sammála. En mér finnst alveg eðlilegt að þingmenn þurfi að færa fórnir hvað varðar friðhelgi fjármálalífs síns. Þetta er fólk sem er í stöðu til þess að hagnast gríðarlega á óheiðarlegan hátt í starfi.

Arnaldur | 8.9.2011 kl. 16:26
Arnaldur

Ég er reyndar sammála þér með að lífeyrismálið er nokkuð sérstakt. Það varðar skuldbindingu af hálfu ríkisins langt inn í framtíðina.

Rökin sem ég hef heyrt eru á þá leið að það megi ekki setja lög afturvirkt (sem er almennt gott).

En hvað ef málið snýst um að afnema *ólög* sem hafa virkni langt inn í framtíðina?

Þetta er athyglisverð spurning sem lagadeild HÍ ætti að vera að velta fyrir sér ef það væri alvöru lagadeild.

Sveinbjörn | 8.9.2011 kl. 16:30
Sveinbjörn

Það er nákvæmlega það sem ég hugsaði. Ef þeir geta pullað galdrana í kringum endurreisn bankana (gegnum þjóðvæðingu og eignaupptöku, tilfærslu eigna eftir hentisemi osfv.) þá geta þeir andskotinn hafið það afnumið þessi andskotans lífeyrisréttindi.

Arnaldur | 8.9.2011 kl. 16:34
Arnaldur

Þetta er reyndar alveg rétt hjá þér.

Menn slá sig hérna til riddara og tala um hvað réttarríkið er heilagt. En þegar allt kemur til alls, þá virðist sumt vera heilagra en annað í þessum efnum.

Arnaldur | 8.9.2011 kl. 12:37
Arnaldur

Það sem er svo undarlegast í þessu, er að á venjulegum vinnumarkaði, má vinnuveitandi halda þér í vinnu upp uppsagnarfrest, 3 mán, ellgar draga af þér laun.

Í þessu tilviki þarf vinnuveitandinn aftur á móti að greiða laun í 6 mánuði, án þess að nokkuð starf sé innt af hendi.

Fylgir þá ekki að þingmenn sem ekki ná endurkjöri ættu að vinna einhver störf fyrir þingið í 6 mánuði eftir að þingsetu lýkur. Svona til að gæta samræmis?

Sveinbjörn | 8.9.2011 kl. 13:31
Sveinbjörn

Klárlega.

Sveinbjörn | 8.9.2011 kl. 16:38
Sveinbjörn

Reyndar, þá er alveg skiljanlegt að fráfarandi þingmenn fái smá breathing space til þess að koma sér fyrir annars staðar. En 6 mánuðir á fullum launum finnst mér fullmikið af hinu góða.