4.8.2011 kl. 01:44

Það hefur átt sér stað ákveðin bylting á Íslandi síðan ég var unglingur, 15-16 ára gamall. Á þeim tíma voru bara tvær verslanir opnar eftir miðnætti á höfuðborgarsvæðinu. Önnur þeirra var BSÍ og hin var einhver sjoppa í Kópavogi. Ef manni vantaði tóbak eða aðrar nauðsynjavörur þegar líða tók nóttu hafði maður engra kosta völ en að leggja út í hríðina og ganga út á BSÍ, sem stundaði að sjálfsögðu grimmilegt okur í krafti sérstöðu sinnar.

Í dag er Reykjavík hins vegar morandi í verslunum sem opnar eru allan sólarhringinn: Select bensínstöðvarnar allar, 10/11, 11/11, Nóatún. Þær eru ófáar í þægilegri göngufjarlægð frá heimahúsum mínum. Þar leita nátthrafnar eins og ég jafnan skyndifæðis, tóbaks og kaffíndrykkja út nóttina.

Um daginn var ég vakandi fram eftir nóttu eins og mér er tamt. Þegar líða fór á nóttina fékk ég fékk höfuðverk, sem er blessunarlega sjaldgæft. Hins vegar var þessi afskaplega slæmur, hélt fyrir mér svefni, og ég átti engin verkjalyf heima. Eftir smá gúglun komst ég að því að ekkert apótek í Reykjavík er opið allan sólarhringinn. Ég rölti út í 10/11 og spurði um aspírín og parasetamól, en var sagt að verslanirnar seldu það ekki.

Í gamla daga var alltaf apótek opið allan sólarhringinn. Það er eina þjónustan sem er algjörlega bráðnauðsynleg svona að nóttu til, en það hefur verið stigið skref aftur á bak í þeim efnum samhliða almennri þróun til hins gagnstæða. Og svo segir Aðalsteinn mér að Office 1 Superstore sé opið allan sólarhringinn núna. Hvað er eiginlega í gangi?


3 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Grímur | 4.8.2011 kl. 10:01
Grímur

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=799925

"Geta þessir aumingjar ekki hunskast til að koma á eðlilegum afgreiðslutíma?"

Sveinbjörn | 4.8.2011 kl. 13:32
Sveinbjörn

"Stúlkur sem höfðu gleymt pillunni komu um miðjar nætur og óskuðu eftir að fá pilluna, þannig að það sýndi sig að það var nánast aldrei um bráðatilvik að ræða," segir Ingólfur.

WTF? Hljómar eins og bráðatilvik fyrir mér...

Sindri | 4.8.2011 kl. 15:16
Sindri

Þú hefðir kannski átt að spyrja um eitt spjald af Contalgin. Það hefði líklegast gengið eftir.