Á Íslandi er tölvunoktun og tölvueign mikil. Það er ef til vill ekki svo skrítið. Í dimmu og óveðursælu landi leitar fólk frekar til afþreyinga innan heimilisins. Hér er blómleg Linux notkun og íslenska frjálsa hugbúnaðarhreyfingin hefur sína talsmenn. Tölvu- og græjuáhugi er almennt mikill meðal almennings, netnotkun gríðarleg, snjallsímanotkun útbreidd og allt morandi í lifandi íslenskum spjallsamfélögum á netinu um vélbúnað, græjur og stýrikerfi.

Ég hef starfað um árabil í tölvugeiranum á Íslandi, fyrst sem kerfisstjóri hjá Vefsýn, síðan sem forritari hjá FRISK, síðan í kontrakt vinnu fyrir íslenska leikjafyrirtækið Gogogic og svo loksins núna í fullu starfi sem hugbúnaðarsmiður hjá Clara á Laugarveginum. Ég man að í denn voru menn fljótir að átta sig á að tölvugeirinn hérna á Íslandi væri óvenjuöflugur. Ég fékk þess utan oft að heyra yfirlýsingar þess efnis að hann hefði blómstrað þrátt fyrir algert áhugaleysi stjórnvalda -- því var meira að segja einu sinni haldið fram við mig að hefði ríkið verið að styrkja eða grufla í tölvubransanum væru hlutirnir ekki eins blómlegir og raun bar vitni.

Ég trúði þessu þegar þetta var sagt við mig á sínum tíma. En eftir langan hiatus er ég núna að starfa aftur í bransanum og hef orðið var við ýmislegt sem gefur til kynna að þetta sé ekki beinlínis rétt mynd af ástandi mála.

Fyrirtækið sem ég starfa fyrir í dag, Clara, hefur fengið þónokkra styrki, fyrst á vegum Innovít og síðan frá bæði Rannís og Nýsköpunarsjóði. Mjög svala PageKite verkefnið hans Bjarna fékk styrk. Þegar ég starfaði hjá FRISK á sínum tíma þá kostaði íslenska ríkið einhverja starfsmenn sem unnu að ættfræðihugbúnaðinum Espólín, og hafði styrkt þróun Púkans. Íslensku hugbúnaðarfyrirtækin njóta öllu jöfnu góðs af margvíslegum ríkisstyrkjum gegnum ýmsa nýsköpunar- og rannsóknarsjóði.

Beint eða óbeint vinna margir vinir mínir í tölvubransanum fyrir íslenska ríkið. Stjórnsýsluapparatið allt hefur ógrynni forritara í vinnu við að þróa og viðhalda upplýsingakerfunum sem nauðsynleg eru í þróuðum nútímaríkjum. Þess utan njóta mörg hugbúnaðar- og veffyrirtæki þess góðs at ríkið eða stofnanir fjármaganaðar af ríkinu ráða þau í stök verkefni.

Með öðrum orðum, engir blekkingar: tölvubransinn hérna er eins og hver annar bransi á Íslandi. Hann reiðir sig á bitlinga frá ríkinu samhliða venjulegum markaðsviðskiptum. Í landi þar sem ríkið er vel rúmlega 40% af hagkerfinu kemur það svosem ekki á óvart.