27.6.2011 kl. 19:19

Kæru vinir, ég hef slæmar fregnir. Hann Axel, vinur minn og lífsförunautur til 16 ára eða svo, er látinn.

Í allri minni tíð hef ég aldrei kynnst jafn tignarlegum, greindum og frábærum ketti. Orð fá því ekki lýst hversu vænt mér þótti um hann og hversu mikið dauði hans hryggir mig. Hann var mikilli skynsemi og stórfenglegum persónuleika gæddur. Honum þótti vænt um mig sem og aðra sem önnuðust hann, og unni alveg sérstaklega þeim sem gáfu honum gott og mikið að borða. Hans mun vera mikið saknað. Hann var fasti í mínu lífi, hluti af heimili mínu og fjölskyldu. Lífið er fátækara án hans.

Tár mín geta ekki fært hann aftur til lífs, en hann lifði góðu lífi þessi 16 ár, át í miklu magni rækjur og tælenskan mat og fisk og hrísgrjón og pasta og nokkurn veginn allt sem hann komst í tæri við. Megi hann hvíla í friði. Ég vildi óska þess að ég hefði fengið tækifæri til að segja bless.

Greyið karlinn, svo stórkostlegur norskur skógarköttur þegar hann var upp á sitt besta, hafði heldur horast á seinni árum og var orðinn skuggi af sjálfum sér fyrir rest. Hérna er mynd af honum frá árinu 2004, þegar hann var u.þ.b. 10 ára gamall og rúmlega það í kílóum, hefðarköttur sem átti sér engan líkan í hverfinu og viðurkenndi engan sem sinn betrung.


axel flottur

Síðasta skiptið sem ég sá Axel á lífi var tveimur dögum áður en hann fannst látinn. Klukkan var þrjú um nóttu og ég var á leiðinni í háttinn þegar ég heyrði einkennilegt þrusk frammi í eldhúsi.

Þegar ég fór fram blasti við mér heldur furðuleg sjón: hann Axel hafði komið sér inn um gluggann eins og honum var tamt. Hann hafði síðan ýtt fram af eldhúsborðinu stórum poka af papríkuskrúfum sem ég hafði verið að gæða mér á fyrr um kvöldið og troðið hausnum djúpt ofan í til að komast í ljúffengar flögurnar á botninum. Hann var hins vegar að lenda í þónokkrum vandræðum með að koma snakkpokanum af hausnum á sér.

Þetta þótti mér svo skoplegt að ég smellti af tveimur myndum með símanum mínum áður en ég hjálpaði honum að ná pokanum af. Eftir því sem ég best veit þá eru þetta seinustu myndirnar sem voru teknar af honum áður en hann lést.


axel snakk1

axel snakk2


Lengi lifi Axel, þú ógleymandi konungur katta! Þú varst minn trausti félagsskapur mörg einmanaleg kvöld í kjallaranum á Öldugötu. Þú munt lifa ávallt í minningu þeirra sem elskuðu þig.


In memoriam Axel (1995-2011)

axel grave11 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Nanna | 27.6.2011 kl. 20:06
Nanna

Mér þykir þetta svo leitt Sveinbjörn minn. Hann Axel var alltaf mikill gleðigjafi.

Arnaldur | 27.6.2011 kl. 20:20
Arnaldur

Já. Þetta eru svo skelfilegar fréttir. Lengi lifi minning Ægisgötutröllsins.

Þórir Hrafn | 27.6.2011 kl. 21:01
Þórir Hrafn

Þetta eru hræðilegar fréttir. Konungur gamla vesturbæjarins fallinn frá.

Svanur | 27.6.2011 kl. 22:25
Svanur

Þetta er virkilega leitt að heyra. Tignarlegri kött man ég ekki eftir.

Magnús Davíð | 28.6.2011 kl. 00:07
Magnús Davíð

Ég samhryggist þér innilega félagi. Axel var stórfenglegur karakter.

dolli | 28.6.2011 kl. 17:02
dolli

Þetta er mjög leitt að heyra. Hann var í miklu uppáldi hjá mér. Ég man vel eftir því hvernig hann átti hverfið. Ég sendi samúðuarkveðjur.

Brynjar | 28.6.2011 kl. 22:39
Brynjar

Deyr fé, deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Sindri | 29.6.2011 kl. 02:29
Sindri

Æi, greyið. Hann var sannkallaður "aristocat". Megi hann hvíla í friði. Ég votta þér samúð mína.

Steinn | 30.6.2011 kl. 13:30
Steinn

Innilegar samúðarkveðjur frá okkur Áróru. Axel var sannarlega einstakur köttur og persónuleiki.

Dagga | 30.6.2011 kl. 16:15
Dagga

Ég votta þér innilegustu samúð mína Sveinbjörn, og samhryggist mjög.

Freyr | 4.7.2011 kl. 14:14
Freyr

Já, hann Axel var svona Íslendingasagna-köttur. Svona "Kattarhilmissaga Öldugötu-Axels Sveinbjarnarfóstra" eða "Kattatorrek".

Magnaður köttur. :)