Ég kíkti á Bakkus í gær í kringum miðnætti og fékk mér öllara. Þar lenti ég á spjalli við tvær stúlkur. Á einhverju stigi málsins þróaðist samræðan út í pólitík. Ég minntist eitthvað á tölfræði sem ég las nýlega, nefnilega að ef þú eignast barn í Súdan, þá er líklegra að það sé dautt við 7 ára aldur heldur en að það kunni að lesa. Í kjölfarið af þessu sagði ég eitthvað í þá átt að þessar þjóðir þyrftu friðsemi, menntun og kunnáttu til þess að byggja sig upp úr fátæktinni. Þetta kveikti eitthvað í þeim. Kom í ljós að þær voru eco-rómantískar and-kapítalískar vinstritýpur. Þetta þróaðist mjög hratt út í heiftarlegt debat milli mín og þeirra, sem stóð þar til staðurinn lokaði. Ég var hins vegar drukkinn, fann fyrir því að ég færði e.t.v. ekki nógu sterk rök fyrir minni pólitísku sýn og mínum skoðunum um þau málefni sem við ræddum. Ég hyggst því gera það núna sem einhvers konar uppgjör við þá miklu og hatrömmu gagnrýni sem ég þurfti að sæta.


1. "Sérhæfing er af hinu slæma, kjarni kapítalismans, rótin að öllu úrkynjaða neyslusamfélaginu. Við kunnum ekki lengur að bjarga okkur sjálf."

Út mannkynssöguna hefur þorri fólks lifað í eymd, fátækt og volæði, þurft að þola hungursneyð, barnadauða, hamfarir. Lítil stjórnarelíta, ásamt klerkum og hermönnum, sat á toppnum og naut góðs af umframframleiðslu ótæknivæddra sjálfsþurftarbúskapsamfélaga. Þetta á jafnmikið við um Evrópu, um Ameríku, um Asíu.

Í byrjun nýaldar kemst margt á skrið í Evrópu. Verslun og vísindi dafna, lénsskipulagið leggst hægt og bítandi af, kjör almennings batna eilítið. Til verður svokölluð millistétt, nokkuð fjölmennur hópur fólks sem er hvorki hluti af valdaelítunni á toppnum né hluti af fátæka almenningnum í grunnframleiðslugreinum eins og landbúnaði. Þessi hópur samanstendur af "sérfræðingum": lögfræðingum, læknum, verslunareigendum, handverksfólki, kennurum og öðru fólki með sérkunnáttu. Þetta fólk gerir markaðssamfélagið að veruleika, flókið og margslungið tæknisamfélag þar sem einstaklingar sérhæfa sig sífellt meira, fást við afmarkaðri hluti og eru framleiðnari fyrir vikið. Þetta fólk myndar síðan bakbein frjálslynds lýðræðiskerfis sem menntar ykkur, gerir ykkur það fært að sitja hér og gagnrýna kerfið og samfélagið sem þið búið við.

Vissulega glatast ákveðnir hlutir: tenging mannsins við þær vörir sem hann neytir, við landið, við jörðina. En það kemur ýmislegt í staðinn, þ.á.m. frelsi undan vosbúð og fátækt fyrri alda. Þetta eru almennt séð mjög góð skipti. Og frjálslynda markaðslýðræðið gefur fólki valkosti í krafti auðs. Þið, stúlkur, getið farið og búið á samyrkjubúi ef ykkur langar til, þið getið framleitt eigin mat ef ykkur svo lystir.

Sjálfur hef ég afskaplega takmarkaðan áhuga á að framleiða flestallan þann varning sem ég neyti. Ég væri ekki jafn góður í því og þeir sem fást við ekkert annað. Ég myndi drekka verri bjór, reykja verri sígarettur, borða verri mat og ganga í verri fötum.


2. "Þú ert rasisti. Þú heldur því fram að fólkið í Súdan þurfi menntun, en þú vilt pína vestræn gildi og vestrænan hugsanagang upp á þetta fólk."

Það er engin rökleg tenging á milli þessara tveggja staðhæfinga. Rasistar eru þeir sem álíta aðra kynþætti óæðri sökum litarhafts eða annara innbyggðra eiginlega kynstofnsins. Það sem þið eruð að tala um er "menningarremba", að álíta ákveðnar siðmenningar betri eða æðri en aðrar.

Þið getið svosem sakað mig um menningarrembu. Ég hef óbeit á þessari menningarlegu afstæðishyggju sem er fastmótuð kredda hjá ákveðnum hópum á vinstrivængnum. Hinar ýmsu siðmenningar standa ekki jöfnum fæti í mínu augum. Og það er af einföldum siðferðislegum ástæðum.

Frumstæð samfélög eru nefnilega ekkert eins og þið ímyndið ykkur, ekkert eins og í Avatar. Þau eru upp til hópa brútal og viðbjóðsleg, í sífelldum hernaði hvort við annað, morð- og nauðgunartíðni er há og deilur milli fólks iðulega leystar með ofbeldi. Hungusneyð er sífelld hætta skyldi uppskera brestur eða vistkerfið breytast. Misskipting er siðan upp til hópa ekkert minni en á vesturlöndum og oft töluvert meiri, en auður samfélagsins er miklu minni. Konur eru varningur og fá engu ráðið um sitt líf eða sinn hag, tilheyra eiginmönnum sínum, kynfæri þeirra afskræmd. Það er engin uppbygging, engin framþróun, lítið breytist. Fólkið er hjátrúarfullt, fávíst og guðhrætt, lifir í sífelldum ótta við reiði guða sinna. Og svo er oft ekkert lifað í sátt og samlyndi við náttúruna. Mörg frumstæð samfélög, t.a.m. á Páskaeyjunni, hafa dáið út sökum þess að þau tortímdu vistkerfi sínu með því að ganga of mikið á dýra- og plöntustofna.

Ég hika ekki við að tefla fram frjálslynda vestræna ríkinu gegn þessu, hika ekki við að segja að okkar samfélagsgerð og okkar gildi séu betri. Auðvitað hafa frjálslynd vestræn markaðsríki sínar ljótu hliðar. Það er langur listi út af fyrir sig. En betri eru þau heldur en þetta.

Ef það að leggja til að fólk í fátækum og vanþróuðum ríkjum hljóti menntun er menningarremba, þá er ég menningarremba. Síðan sé ég svosem ekki hvað er svo einstaklega "vestrænt" við að lesa og skrifa, nota stærðfræði, læra um hvernig náttúran og efnisheimurinn virkar. Þekking er þekking, og uppspretta hennar ætti ekki að skipta svo miklu máli. Mikið af þekkingu mannkyns hefur vissulega verið aflað á vesturlöndum, en það geta allir notið góðs af henni. Uppspretta hennar skiptir ekki máli. Fáviska er engin dyggð. Það er ekkert göfugt við hana. Eitt af ástæðunum af hverju vesturlöndum tókst að kúga hinar ýmsu siðmenningar eins og þau gerðu var sökum þess að þau bjuggu við þekkingu sem frumstæðari samfélögin skorti.


3. "Fólk í samfélögum sem þú kallar vanþróuð býr yfir fullt af [ekki "vestrænni"] kunnáttu og þekkingu sem er aðdáunarverð."

Án efa. Ekki kann ég að veiða mér til matar, eða byggja hús, eða kveikja eld með spýtum. En ég hef svosem enga sérstaka þörf á þessari þekkingu. Ég bý hins vegar yfir alls konar annari þekkingu, og get gert alls konar aðra hluti í krafti minnar menntunar og reynslu. Þessi sérhæfing markaðssamfélagsins sem þið hafið svo mikla óbeit á gerir mér kleyft að fást við aðra hluti sem ég er betri í og hef meiri áhuga á.

Svo eru auðvitað til menn í þróuðum markaðssamfélögum sem geta gert alla hluti sem þessi frumstæðu samfélög gera, og gert þá betur. Smíðað betri hús, búið til betri og hollari mat, o.s.fv. Þeir geta það í krafti vísindalegrar þekkingar.


4. "Þeirra [frumstæða] líf á alveg jafn mikinn rétt á sér og okkar."

Já, ég er alveg hjartanlega sammála því. Það er ekki okkar að segja öðru fólki hvernig það á að lifa. Og auðvitað er sagan af samskiptum vesturlanda við afganginn af heiminum einstaklega ljót. Við kúguðum þessi ríki, gerðum fólkið þar að þrælum okkar, tókum auðlindir þeirra og enn í dag erum við kerfisbundið að arðræna þau. Þetta er hið versta mál. En skaðinn er skeður. Það er ekki hægt að snúa aftur tímans rás. Það eina sem við getum gert er að veita þeim alla þá hjálp sem við getum. Besta leiðin til þess að hjálpa fólki í fátækum ríkjum er að deila þekkingu okkar með þeim.


5. "Þú berst ekki fyrir neinum breytingum, við erum að reyna að gera heiminn betri stað. Þú ert hluti af vandanum."

Hvað eruð þið að gera til þess að breyta heiminum? Sitjandi í lopapeysum á kaffihúsi að tala um Slavoj Zizek? Það breytir engu. Skrifandi radikal pistla á netinu? Breytir engu. Hittast og tala illa um auðstéttirnar sem öllu ráða? Breytir engu.

Þið getið annað hvort reynt að breiða út boðskapinn, sem mun engu afkasta, eða beitt ofbeldi, eins og Bader Meinhof gengið. Hvorugt af þessu hefur nein áhrif til langs tíma á valdakerfi vestrænna samfélaga, sem mótast og verða til í krafti flókinna félagslegra afla sem eru handan stjórnar einstakra manna.

Einstaklingar eru almennt mjög valdalitlir, og þeir eru enn valdaminni utan kerfisins en innan þess. Ég tek þátt í markaðssamfélaginu, starfa þar, kaupi vörur og þjónustu, horfi í kringum mig með gagnrýnum augum, læt vanþóknun mína í ljós þegar ljótu hliðar kerfisins líta dagsins ljós. Það gerið þið líka. Ég fæ ekki séð að þið hafið neitt "moral high ground" hérna.

Og "hluti af vandanum?" Mjög málefnalegt. Allir sem eru ekki 100% sammála ykkur, deila ekki ykkar gildismati og ykkar sýn á heiminn, eru "hluti af vandanum"? Og þegar byltingin ykkar kemur, hvað þá? Hvað á að gera við okkur?


6. "Pólitískar hugsjónir geta breytt heiminum, þvert á við það sem þú heldur fram."

Þær geta e.t.v. breytt heiminum eilítið til skamms tíma. Reyndar held ég að tækniframfarir á borð við prentvélina hafi haft mun meiri áhrif á gang mála en pólitískar hugsjónir sem slíkar. En raunveruleikinn er sá að litlar elítur hafa ávallt stjórnað öllum samfélögum og fengið hlutfallslega stærsta hlutann af kökunni. Það er kannski hægt að sporna gegn því og reyna að koma í veg fyrir það allra versta. En allar byltingar hafa skipt út einum hópi af kúgurum og arðræningjum fyrir annan hóp sem er ekkert skárri og oft verri. Stóru loforðin verða að engu, hugsjónafólkið og byltingarleiðtogarnir verða valdafíkn og drambi að bráð. Stærsta tilraunin í hugsjónapolitík -- kommúnisminn -- reyndist ólýsanleg hörmung, tortímdi náttúrunni, varð milljónum manns að bana í hungursneyð og vinnubúðum.

Metnaðarfullar pólitískar hugsjónir eru hreinlega hættulegar. Hugsjónir á borð við að snúa aftur til frumstæðrar samfélagsgerðar í anda Rousseau, eins og þið virðist leggja til, eru hreinlega hlægilegar og absúrd. Það væri í fyrsta lagi bara hægt að pína svona lagað upp á fólk með valdi, því flestir vilja ekkert lifa svona, hafa engan áhuga á þessari prívat útópíu ykkar. Þetta er eintómt bull að vera aktívt að stefna að einhverju svona. "Pick your battles!" Það er betra að gera eins og ég geri, reyna bara að lifa í sátt við eigin samvisku innan markaðssamfélagsins, reyna að gera sem minnstan skaða, reyna að vera góð manneskja innan kerfis sem er vissulega af hinu illa, en sem er samt sem áður óumflýjanlegt. Það er mun vænlegra til vinnings að láta gott af sér leiða þannig heldur en með stórum hugmyndum.

Heimspekingurinn Alfred Ayer skrifaði pistil um heimspeki og pólitík sem ég hef nokkuð miklar mætur á. Hann lýkur pistli sínum með eftirfarandi orðum, sem gætu verið beint frá mínu hjarta:

In this matter I am like the rest; I have nothing new to offer. Only the old familiar liberal principles; old, but not so firmly established that we can afford to take them for granted. Representative government, universal suffrage, freedom of speech, freedom of the press, the right of collective bargaining, equality before the law, and all that goes with the so-called welfare state. It is not a heady brew. Such principles nowadays are a ground for excitement, a source of enthusiasm, only when they appear to be violated. For most of us participation in politics takes the form of protest; protest against the retention of the atom bomb, against the war in Vietnam, against some example of witch-hunting, against censorship, against capital or corporal punishment, against the persecution of homosexuals, against racial discrimination; there is still quite a lot to be against. It would be more romantic to be marching forward shoulder to shoulder under some bright new banner towards a brave new world. But I don't know: perhaps it is the effect of age. I do not really feel the need for anything to replace this mainly utilitarian, mainly tolerant, undramatic type of radicalism. For me the problem is not to devise a new set of political principles but rather to find a more effective means of putting into operation the principles that most of us already profess to have.


7. "Það sem þú fæst við [smíða hugbúnað] er tilgangslaust kjaftæði sem gagnast engum.."

Þetta er nú bara gildismat. Ég er allavega ekki að fást við hluti sem eru aktívt illir eða valda öðru fólki mein. Væntanlega hefur eitthvað fólk einhvers staðar úti í heimi eitthvað gagn af því sem ég geri, svona til langs tíma litið. Þú ert hjúkka -- gott og vel, þú hjálpar veiku fólki -- og þú þarna, hvað gerir þú aftur? Í einhvers konar félagsvísindanámi? Án efa munið þið báðar gera heiminn að mun betri stað…


8. "Slavoj Zizek …. blablabla …. Slavoj Zizek hitt ….. Slavoj Zizek þetta …."

Slavoj Zizek er óþolandi hálfviti sem slær um sig stórum orðum og frösum. Jájá, hann kemur með eldgamla, þreytta og sanna marxíska gagnrýni á kapítalisma, en hann er ekki með neinar bitastæðar hugmyndir um aðra raunhæfa kosti. Það er auðvelt að gagnrýna, erfitt að koma með tillögur um hvað á að taka við. Kíkið þetta viðtal við hann á BBC Hardtalk, hann stendur sig hlægilega illa.


8 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Doddi | 23.2.2011 kl. 17:52
Doddi

Þú hljómar nú ekki eins og frjálslyndur jafnaðarmaður, meira eins og maður markaðshyggju.

Freyr | 23.2.2011 kl. 19:43
Freyr

Hægri krati.

Eru ekki allir klassískir íhaldsmenn í dag hægri kratar?

Eiki | 23.2.2011 kl. 23:13
Eiki

Muna forgangsröðina:

Fyrst: Gera grein fyrir skoðunum sínum á prenti. Koma fyrir í jakkavasa.

Svo: drekka hundrað bjóra og rífast við lopapysjur.

Steinn | 24.2.2011 kl. 22:14
Steinn

Nei, einhvers staðar á milli borgaralegs sósíalista og keynesískan líberal.

Arnaldur | 25.2.2011 kl. 16:54
Arnaldur

Þú hljómar eins og þú sért geðveikt sætur.

Arnaldur | 28.2.2011 kl. 14:42
Arnaldur

Ég var bara að muna eftir þessu:

"While we're at it, there are systems for a reason in this world, economic stability, interest rates, growth. It's not all a conspiracy to keep you in little boxes, alright? It's only the miracle of consumer capitalism that means you're not lying in your own shit, dying at 43 with rotten teeth and a little pill with a chicken on it is not going to change that. Now come on, fuck off."

Sindri | 4.3.2011 kl. 13:21
Sindri

Haha, Peep Show, brilliant. :)

Halldór Eldjárn | 5.3.2011 kl. 14:10
Halldór Eldjárn

Ég veit ekki betur en að heilbrigðiskerfið noti gífurlega mikinn og fjölbreyttan hugbúnað (hjúkka). Ekki hefur hann skrifað sig sjálfur.

Ég veit ekki betur en að fólk í félagsvísindanámi noti gífurlega mikið ákveðinn hugbúnað (facebook). Ekki hefur það skrifað sig sjálft.