4.10.2010 kl. 21:43

Ég var á þeirri skoðun að þessi landsdómur væri ekkert góð hugmynd þar til ég fékk eftirfarandi tölvupóst um daginn:

Í framhaldi af samræðum okkar í gær um ákæruna (afsakaðu hvað þetta er langt):

Ég hafði reyndar bara lesið niðurstöðuna úr skýrslu nefndarinnar. Niðurstaðan ein er margar blaðsíður, sjálf skýrslan er endalaus. Ég velti því fyrir mér hvort að allir þessir þingmenn hafi nokkuð nennt að lesa þetta allt. Tékkaðu á þessu, þetta er hellað langt:

http://www.althingi.is/altext/138/s/1501.html

Ég áttaði mig samt á að ég hafði aldrei lesið lögin sjálf um þetta, bara vísanirnar í lögin í skýrslunni.

---

Lögin eru mjög skýr með þetta.

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1963004.html

-Upprunalegu lögin eru frá 1963. Þau voru síðast endurskoðuð árið 1998. Því er mjög undarlegt að fulltrúar löggjafarvaldsins tali um að þetta séu einhver úreld lög. Þar fyrir utan, fór síðast fram umræða um Landsdóm árið 2001, (sem Jóhanna Sigurðardóttir lagði til, skemmtileg tilviljun,) og þar var ekki fundið neitt að forminu, eða að ákæruvaldið lægi í höndum Alþingis (aktúalt mælt með því). Kannski mest írónískt að tillögu Jóhönnu um endurbætur á fyrirkomulaginu var skotið til Allsherjarnefndar og málið sofnaði þar.

-Lögin eru sérstaklega skýr varðandi Geir Haarde, sérstaklega með hliðsjón af 16. og 17. grein stjórnarskránnar. Kannski meira álitamál með hina, sérstaklega Björgvin G. þar sem honum var haldið algerlega 'in the dark'.

-Svipuð mál hafa farið fyrir ríkisrétt/landsdóm í DK, og þar hafa mannréttindadómstólar komist að niðurstöðu að þetta standist algerlega með tilliti til mannréttinda.

---

Í grófum dráttum var ég lengst af sömu skoðunar og þú í þessu máli. En það var reyndar af öðrum ástæðum. Mér finnst það ekki rök í sjálfu sér að ekkert sé unnið með þessum ásökunum, eða að þetta gagnist engum og séu bara einhver leiðindi.

Mín afstaða var sú, að það þyrfti almenna yfirhalningu á kerfinu. Eftir hrun, vildi ég að menn settust niður. Og í stað þess að trúa í blindni á lög og reglur um hitt og þetta, gætu menn talað saman um hvað þyrfti að laga í samfélaginu á skynsaman hátt, (kvótamál, umhverfismál, fjármál, skuldir ofl.,) án þess að vera bundnir af einhverju gamaldags fyrirkomulagi.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta getur verið hættulegur hugsanaháttur, (hvar byjar maður og hættir að virða lögin?) En skoðun mín var alltaf sú að breytingin sem hefði átt sér stað í samfélaginu væri svo gríðarleg, að þáverandi kerfi gæti aldrei brugðist við á nógu sveigjanlegan eða praktískan hátt. Sjálfum hefur mér þótt þetta koma bersýnilega í ljós, en jæja, menn ákváðu að fara þá leið að fylgja lagabókstafnum eftir í einu og öllu, í öllum málum. Þá finnst mér skrýtið að staldra við hérna, og ákveða að lögin eigi allt í einu ekki við.

Það er ekki af því að mér finnist svo mikilvægt að refsa þessu fólki að mér finnst að það eigi að ákæra.

Á sama tíma finnst mér það mjög mikilvægt að það komi skýrt fram að það sé ekki í boði að vanrækja opinber störf á svona grófan hátt eins og þau öll gerðu. Það er náttúrulega ólíðandi að fólk sé ekki að taka þessi embætti sín alvarlega, og að menn séu að breyta út af almennum reglum um lýðræðislegt stjórnarfar með leynipukri og að halda aftur upplýsingum og jafnvel að breyta gegn betri vitund eins og kemur fram í gögnum nefndarinnar.

Allavega. Those are my two cents. Mér finnst þessi gaur kannski einna helst vera með svarið (Nema að mér finnst einhvernvegin borðliggjandi að Ingibjörg og Árni Matthiesen eigi að vera þarna líka.

Ég er ennþá að reyna að skilja afhverju þér finnst þetta vera svona léttvægt mál, og finnst það sanngjarnt að sleppa öllu þessu fólki með ákæru, þegar það hefur klárlega farið gegn lögum um ráðherraábyrgð.