3.10.2010 kl. 21:20

Ég gæti ekki verið meira sammála honum Einari Steingrímssyni. Þetta hittir alveg naglann á höfuðið.

...Það er reyndar sérútgáfa af þessu sem hefur gert íslensku háskólana HÍ og HR jafn vonda og þeir eru, þótt tækifæri þeirra hafi verið stórkostleg á árunum 2005-2008. Ekki svo að skilja að gífuryrði þessara skóla um sjálfa sig hafi ekki verið botnlausar ýkjur, en það sorglega er að þeir hefðu getað komist miklu nær yfirlýstum markmiðum sínum en raun ber vitni ef þeir hefðu einungis hagað sér eins og þeir góðu skólar sem þeir þóttust vilja líkjast.

Saga þessara skóla síðustu árin lýsir í hnotskurn vanda íslenskrar stjórnunar: Þeim sem hafa burðina til að gera háskólana sómasamlega hefur verið vandlega haldið frá öllum áhrifum, því burðir þeirra einir og sér eru óþolandi ógn við undirmálsfólkið sem ræður lögum og lofum. Þetta er sérlega auðvelt í háskólakerfinu, því á meðan góða fólkið var að þroska með sér þessa burði, að sjálfsögðu á erlendum vettvangi, flýtti undirmálsfólkið sér heim aftur (eða fór aldrei til útlanda) til að tryggja völd sín yfir starfseminni.

Umræðan um háskólamál á Íslandi er glórulaus, því hún kemst aldrei upp úr því að „rökræða“ um hluti sem eru algerlega sjálfsagðir í góðu umhverfi erlendis, og eru því grundvöllur slíkrar umræðu en ekki álitamál. Eitt dæmi um þetta eru hin sífelldu átök um hvort meta eigi vísindastarf í alþjóðlegum samanburði, eða hvort „séríslenskt“ háskólastarf sé svo „sérstakt“ að það sé ekki hægt. Það kaldhæðnislega við þessa afstöðu er að það vísindafólk sem fæst við sérlega íslensk viðfangsefni (t.d. íslenskar miðaldabókmenntir eða íslenska jarðfræði) stendur allt föstum fótum í alþjóðasamfélagi vísindanna og vill ekki sjá annan samanburð en alþjóðlegan, á meðan þeir sem helst veifa þessum staðhæfingum eru gjarnan á sviðum sem eru alþjóðleg í eðli sínu, en viðkomandi einfaldlega undirmálsfólk á þeim vettvangi.


4 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Freyr | 4.10.2010 kl. 13:11
Freyr

Já, þetta er rétt og satt hjá honum. Ég var að enda við að sjá hann í Silfrinu talandi um undirmálssamfélagið Ísland. Hann var ekkert að skafa utan af því og hitti naglann beint á höfuðið

Einar Örn | 4.10.2010 kl. 13:49
Einar Örn

Þetta má því miður heimfæra nánast orðrétt upp á íslensk stjórnmál líka.

Sveinbjörn | 4.10.2010 kl. 21:26
Sveinbjörn

Þetta viðtal við Einar Steingríms í Silfri Egils er hérna:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4544830/2010/10/03/

Maður segir hlutina bara eins og þeir eru. Kominn tími til...

Grétar Amazeen | 10.10.2010 kl. 01:28
Grétar Amazeen

Einar hittir naglann algerlega á höfuðið þarna, enda mikið séní.