13.1.2010 kl. 17:11

Sumir talsmenn frjálshyggjunnar hafa undanfarið haldið því fram annað slagið að ekkert hafi brugðist í hugmyndafræðinni blessuðu, að vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna sé ekki afleiðing óheftrar og eftirlitslausrar bankastarfsemi heldur sé það ríkisábyrgð að kenna. Bankarnir hefðu hreinlega átt að fá að fara á hausinn án afskipta ríkisins, o.s.fv.

Ég spyr: Hver myndi vilja geyma peningana sína í banka, vitandi að bankinn gæti farið á hausinn og allt fé þeirra tapast?

Ekki myndi ég treysta nokkrum banka sem ekki hefði ríkisábyrgð, enda lítið spenntur fyrir því að leyfa öðrum að spila fjárhættuspil með sparifé mitt.

Þar sem menn munu að öðru jöfnu frekar setja peningana sína í banka með ríkisábyrgð heldur en banka án hennar, er óljóst hvort alþjóðlegt fjármálakerfi með bönkum án ríkisábyrgðar sé yfirhöfuð mögulegt. Bankar með slíka ábyrgð að baki myndu sennilega snögglega bola hinum út af markaðinum.

Það þyrfti væntanlega einhvers konar alþjóðlegan sáttmála um að afnema ríkisábyrgð alls staðar til þess að ýta svona löguðu í gegn, og jafnvel þá erum við með Prisoner's Dilemma: hver einasta þjóð myndi sjá sér hag í að svíkjast undan samkomulaginu, bjóða upp á ríkisábyrgð til þess að laða til sín fjármagn.

Síðan er spurning hvort alþjóðlegt bankakerfi án ríkisábyrgðar myndi ekki leiða til mikils samdráttar í því fjármagni sem bankar hefðu aðgang að, þar sem margir myndu eflaust geyma fé sitt á öruggari hátt.

Hérna er viðtal við Gunnlaug Jónsson frjálshyggjumann í Silfri Egils frá því í mars í fyrra, en þar heldur hann því einmitt fram að ríkisábyrgðin sé sökudólgurinn í þessu öllu saman.
1 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Steinn | 15.1.2010 kl. 09:29
Steinn

Það er gott að muna afhverju ríkisábyrgð á innistæðum var komið á í fyrsta lagi, það var til að stöðva endalaus áhlaup á alla banka í Ameríku á millistríðsárunum.