26.11.2009 kl. 18:37

Eitt af höfuðeinkennum mannkynssögunnar er að litli maðurinn borgar alltaf brúsann fyrir allt. Það er ávallt litli maðurinn, hinn almenni meðalþegn ríkisins, sem ber allar byrðirnar: borgar alla skattana, deyr í öllum styrjöldunum og sveltir í öllum hungursneyðunum.

we eat for you

Siðmenntuðum samfélögum hefur ávallt verið stjórnað af fámennum elítum. Örfáir einstaklingar -- í mesta lagi nokkrir tugir manna -- hafa iðulega haft öll eða nær öll völd í sínum höndum. Þetta á alveg jafn mikið við í lýðræðisríkjum samtímans eins og í ancien régime-um 18. aldar, lénsskipulagi miðalda eða ráðstjórnarríkjunum. Yfirleitt hefur lítil elíta stjórnað fjölmennum almúganum, skattpínda litla fólkinu sem sveltir og deyr á meðan ráðamenn drekka kampavín og lesa dagblöðin.

Ég var að velta því fyrir mér um daginn af hverju hlutirnir hafa alltaf verið svona, og hvort þeir muni nokkurn tímann breytast. Ég held að það séu a.m.k. tvær ástæður til þess að halda að það þetta muni aldrei breytast neitt að ráði.

Í fyrsta lagi, þá hefur litli maðurinn almennt hvorki tíma né áhuga á stjórnmálum. Flest fólk vill mjög skiljanlega bara fá að lifa sínu lífi í friði: vinna, eignast börn, eiga góðar stundir með vinum, lifa öruggu lífi laust við stress og áhyggjur opinberar valdabaráttu. Blessunarlega eru ekki svo margir haldnir þeim sjúklega metnaði og valdafíkn sem einkennt hefur þá sem risið hafa til pólitískra metorða gegnum aldirnar. Þetta hefur hins vegar í för með sér að tiltölulega lítill hópur manna kemst upp með að móta umræðuna eða regluverkið sem stjórnmál eiga sér stað innan. Í raun er hér á ferðinni sama ástæðan og bjúrókratísk batterí (eins og t.d. skrifræðið við háskóla, sjúkrahús og í almennri stjórnsýslu) stækka og stækka, og verða sífellt valdameiri miðað við aðra hópa innan stofnunarinnar. Bjúrókratarnir geta varið öllum sínum tíma í að öðlast meiri völd, en "gagnlegri" starfsmenn (kennarar, læknar o.s.fv.) hafa öðrum skyldum að gegna og geta þar með ekki eytt samsvarandi tíma í að hasla sér völl innan valdakeðjunnar. Á sama hátt er það þannig að þeir sem verja öllum sínum tíma í stjórnmál enda uppi með meiri völd en þeir sem geta bara varið litlum hluta af tíma sínum í þau.

Í öðru lagi sitjum við uppi með "the problem of collective action." Það er mun auðveldara fyrir fáa valdamikla einstaklinga að samræma athafnir sínar og ákvarðanir heldur en fyrir mikið af "litlu" fólki að koma saman og krefjast umbóta eða breytinga. Svokölluð "co-ordination" verður hlutfallslega erfiðari eftir því sem fleiri taka þátt í einhverri aðgerð. Það verður erfiðara að eiga skilvirk samskipti og jafnframt að ná einhvers konar sátt um hvað skuli gera yfirhöfuð. Lítill hópur manna getur aftur á móti tekið ákvarðanir hratt, brugðist snögglega við nýjungum og breytingum eftir því sem þær spretta upp og náð sátt um ýmislegt á skömmum tíma. Litlir hópar geta líka "plottað," haldið leyndarmálum -- verðmætt pólitískt tól -- en slíkt er auðvitað ómögulegt fyrir stóra hópa. Fyrir vikið mun lítill, vel skipulagður og agaður hópur ávallt vera í sterkari stöðu heldur en fjölmennur hópur þegar það kemur að því að grípa valdataumana. Það er engin tilviljun að Lenín hirti völdin af stjórn Kerenskys...

Ég er ansi hræddur um að þorri mannkyns muni sitja uppi með elítur að segja sér fyrir verkum til eilífðarnóns.


4 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Þórdís | 27.11.2009 kl. 13:41
Þórdís

Ertu ekki líka (í þriðja lagi) að gera ráð fyrir frekar neikvæðum mannskilningi?

Jafnvel þótt við samþykkjum báðar tilgáturnar hefurðu ekki sýnt fram á að það geti ekki verið velviljaður og réttvís lítill hópur á toppnum.

Kannski eru einverjar óhjákvæmilegar hömlur gegn því að svoleiðis fólk komist undir nokkrum kringumstæðum til valda en það er þá þitt að sýna fram á frekar en gera ráð fyrir.

Sveinbjörn | 27.11.2009 kl. 13:46
Sveinbjörn

Jú, vissulega, well spotted ma'am!

Ég sagði nú hvergi að elíturnar væru ávallt *illar*, en það er vissulega gefið í skyn. Reyndar tel ég ekki að allar eða flestar elítur séu nauðsynlega hrikalega siðferðislega illar, oft bara blinkered og self-deluded, self-serving og með afbakaðar hugmyndir um réttlæti. "White man's burden" er fullkomið dæmi...

Síðan var ég nú eiginlega að gefa mér allar klisjurnar varðandi völd ....

1. Lord Action, Power corrupts, etc.
2. Valdastrúktúrar eru þess eðlis að mest ruthless fólkið kemst áfram
...

o.s.fv.

Þórdís | 27.11.2009 kl. 15:37
Þórdís

Einmitt.

Ég las þig reyndar þannig að þú værir að færa rök fyrir því að litli maðurinn myndi alltaf hafa það skítt: skattpínast, svelta o.s.fr.

Þetta leiðir ekki endilega af því að fáir hafi öll völd, nema að gefnum aukaforsendum.

En ef punkturinn var að almenningur myndi alltaf vera valdalítill, þá held ég að þú sért með ágætis keis.

Sveinbjörn | 27.11.2009 kl. 17:47
Sveinbjörn

Já.

Það er e.t.v. ekki óhjákvæmilegt að litli maðurinn sé ávallt skattpíndur, en empírískt séð þá er það þannig meira að segja í þeim ríkjum sem ég álít vera skást -- norrænu velferðarríkjunum. Ríku elíturnar bera hlutfallslega minni skattbyrði heldur en hinn almenni vinnandi maður. Síðan eru það svo sannarlega ekki elíturnar sem líða fyrir það þegar hagkerfið dregst saman (eins og t.d. núna).