Ég hef lítið sem ekkert skrifað hérna á síðunni um ástandið heima á Íslandi þrátt fyrir að hafa fylgst grannt með þróun mála. Þetta er af yfirsettu ráði. Hins vegar get ég ekki staðist að kasta fram eftirfarandi spurningu:

Af hverju er ekki enn búið að setja neinn í gæsluvarðhald/farbann/frysta eignir?

Þetta er ósköp einfalt. Ef allt er í hers höndum og fólkið í landinu fúlt, þá þarf krossfestingar. Menn þurfa að sjá einhverja fá sín maklegu málagjöld, eða í það minnsta vera líklega til þess að fá þau í bráð. Þrátt fyrir 3-4 mánuði undir nýrri stjórn hefur enginn enn verið handtekinn, engar eignir verið frystar, engir af þessum bankamönnum settir í farbann.

Sérstakur saksóknari var spurður svipaðri spurningu um daginn. Hann ummaði og ahaði og svaraði síðan að enginn rökstuddur grunur um brot væri við hendina til þess að réttlæta það að setja svona aðgerðir í framkvæmd.

En ef svo er, spyr ég nú bara, hvaða tilgangi þjónar embætti hans þá? Var það ekki einmitt sett á laggirnar út af því að það var rökstuddur grunur fyrir því að brot hefðu verið framin?

Þetta er alveg léleg pólitík. Ef ég væri ofarlega í valdastiganum á Íslandi væri ég löngu búinn að fá í gegn eitthvað sem gæfi til kynna að það væri verið að vinna að því að hreppa þrjótana í fjötra, ef þá bara sýndarmennskunnar vegna.


3 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Einar Örn | 20.6.2009 kl. 22:02
Einar Örn

Ertu að grínast? Finnst þér það vera til marks um "góða pólitík" að krossfesta menn bara for the sake of it?

Nú er ég ekki að segja að ég haldi ekki að einhverjir verðskuldi dóma, er raunar viss um að það sé raunin. Er líka á því að þetta hafi gengið skammarlega hægt allt saman, en ef að eina krítíkin er sú að þetta sé "léleg pólitík", þá finnst mér það frekar þunnt.

Sveinbjörn | 22.6.2009 kl. 17:10
Sveinbjörn

Auðvitað má út af fyrir sig færa afar sterk siðferðisleg rök fyrir því að refsa þessu liði og það hratt. Hins vegar þá var ég einfaldlega að reyna að hugsa þetta frá sjónarmiði stjórnmálamanna: allt siðferði til hliðar, þá finnst mér það bara léleg pólitík að gera ekkert í þessu -- léleg í þessu tilfelli ekki í siðferðislegum skilningi, heldur í þeim skilningi að ná fram því markmiði sem stjórnmálamenn stefna yfirleitt að: að halda völdum og vinsældum.

Einar Jón | 21.6.2009 kl. 13:05
Einar Jón

Þegar fólk er búið að heimta blóð svona lengi þarf a.m.k. að sýna vígtennurnar svo að fólk fari ekki að taka málin í eigin hendur.

Kannski verður það ekki bara snjóbolti sem útrásarvíkingur fær í hausinn næst þegar hann gengur niður Laugaveginn.