12.3.2009 kl. 20:43

Ég var að heyra það fyrst núna að það sé verið að gera heimildamyndina Draumalandið eftir samnefndri bók Andra Snæs, og varð hugsað aftur til ársins 2006 þegar þjóðfélagsdeilan um Kárahnjúka stóð sem hæst.

Það er mér sérstaklega minnisstætt hversu ómálefnaleg og blinkered umræðan var í raun og veru, þá sérstaklega af hálfu þeirra sem fylgjandi voru virkjuninni. Iðulega komu upp ásakanirnar um "tilfinningarök" -- eins og það séu, þegar á botninn er hvolft, einhvers konar öðruvísi rök til?

Endanlega hvíla öll siðferðisleg rök á grunnforsendum sem fela í sér órökstudd og órökstyðjanleg gildi af einhverri gerð. Þetta á jafnt við um siðferðisleg rök þeirra sem mótfallnir eru virkjunum og þeirra sem eru þeim fylgjandi. Ef þú spyrð einhvern af hverju hann vill virkjanir, þá segir hann eflaust að hann vilji hagsæld í landinu. Ef þú spyrð hann af hverju hann vilji hagsæld, þá segir hann væntanlega eitthvað í þá áttina að hagsæld auki lífsgæði fólks. Ef þú spyrð hann af hverju aukin lífsgæði séu eftirsóknarverð kemstu e.t.v. að rót málsins -- einhvers konar kenningu um grunnmarkmið mannlegra athafna. Svör kunna mögulega að vera eitthvað á borð við "hamingju" eða "gleði" eða eitthvert annað af þessum toga. Lengra er ekki hægt að fara. Viðkomandi gefur sér að þetta endanlega markmið sé sjálfsagt og augljóst.

Nú, að sama skapi geta náttúruverndarsinnar og virkjanaandstæðingar sagt að ósnortin náttúra veiti þeim þessa gleði eða hamingju, líkt og aukin efnisleg lífsgæði gleðja virkjanasinnann. Það er því hreinn og tær útúrsnúningur að tala um tilfinningarök. Það sem virkjanasinnar kalla tilfinningarök eru ekkert annað heldur en gildi sem þeir eru ósammála. Þjóðfélagsumræðan snérist því að miklu leyti um ósamræmanleg grundvallargildi, en þannig deböt eru eðli málsins samkvæmt óútkljáanleg.


Á svipuðum nótum, þá hugsa ég stundum um þessa endalausu leit eftir auknum lífsgæðum, sem er pólitísk og hugmyndafræðileg orþódoxía jafnt hjá vinstri sem hægrimönnum. Það er heresía af verstu gerð að leggjast gegn varanlega hagsældardraumnum, og þeir sem gera það eru álitnir sérvitringar og rugludallar. Þvert yfir pólítíska spektrúmið fallast menn á að þjóðin eigi sífellt að leitast eftir auknum hagvexti, aukinni framleiðslu, auknum tekjum og aukinni neyslu. Deilan snýst um hvernig best sé að ná þessum markmiði, en markmiðið sjálft gefa menn sér. Í raun og veru er þessi þráhyggja alls ekki auðskilin frá heimspekilegu sjónarmiði. Hún hefur svo sannarlega ekki verið orþódoxía gegnum mannkynssöguna. Það er þannig nú orðið að nægjusemi er bannorð, þrátt fyrir að fátækur Íslendingur í dag lifi að mörgu leyti betra lífi heldur en ríkur maður fyrir 40 árum -- hefur ríkari aðgang að fræðslu- og skemmtiefni, getur ferðast meira og borðað betri mat.

Með öðrum orðum, verðum við einhvern tímann sátt með efnisleg lífsskilyrði okkar? Er til einhver punktur þar sem við látum þetta gott heita og reynum að bæta okkur siðferðislega og andlega frekar en að einblína á efnisleg kjör?

Ég man að pabbi minn sagði mér einu sinni eftirfarandi sögu: hann var í matarboði í Kaliforníu hjá einhverjum akademíkurum og umræðan barst að ríku amerísku milljónamæringunum, sem þræla allan sólarhringinn við að auka fjárveldi sitt þrátt fyrir gríðarleg auðæfi. Pabbi sagðist ekki skilja af hverju þeir lögðust ekki bara í helgan stein og nutu lífsins. Þá svaraði ein dama við matarborðið: "Thordur, you clearly don't understand the true nature of greed."


15 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Arnaldur | 12.3.2009 kl. 21:36
Arnaldur

Frekar gott stuff hjá þér.

Steinn | 13.3.2009 kl. 00:54
Steinn

Góð grein og frábært svar hjá dömunni.

Eiki | 13.3.2009 kl. 05:52
Eiki

Í Ameríku ætla auðmenn núna í verkfall til að mótmæla því að letingjar steli peningunum þeirra. Úr varð frasinn "going Galt" sem er víst tilvísun í Ayn Rand.

Maður fær hausverk af því að reyna að hugsa svona, Orwell myndi svima.
Recap:
Duglegt fólk (=sem þrælar við að eyða arðgreiðslum) er rænt (=tekur þátt í samfélaginu) af letingjum (=daglaunafólki/frumframleiðendum).

Þetta verður svo væntanlega kallað að markaðurinn sé að leiðrétta sig sjálfkrafa.

Við Íslendingar eigum okkar klikkhausa en sem betur fer er langt í svona geðveiki enn. Þó er Sigurður Kári byrjaður á Ayn Rand (http://wufnik.livejournal.com/48188.html)">http://wufnik.livejournal.com/48188.html)

Sveinbjörn | 13.3.2009 kl. 22:36
Sveinbjörn

Las The Fountainhead haustið 2004 -- bölvað runk.

Eftir því sem ég best veit þá hefur Rand aldrei haft nein áhrif af viti utan USA, en af einhverri ástæðu þá elska amerískir frjálshyggjumenn hana.

Grímur | 13.3.2009 kl. 10:03
Grímur

Vel mælt

Doddi | 13.3.2009 kl. 10:49
Doddi

Góð færsla.

Annars er ég nú ekki sammála því að nægjusemi sé bannorð. Nægjusemi er dyggð. Er hins vegar ekki æskilegast að fólk hafi val um að lifa „nægjusömu" lífi, eða gera eins og amerísku skrilljónerarnir, þræla alla daga til að auka auð sinn?

Ég held að hin raunverulega hamingja felist í að geta valið. Er ekki frá því að þetta séu tilfinningarök.

Sveinbjörn | 13.3.2009 kl. 22:22
Sveinbjörn

Ég var ekki að segja að nægusæmi væri bannorð, heldur að það væri viðhorfið í dag.

Varðandi "valið", þá vil ég nú ekki demba á þig reiðifyrirlestrinum sem braust út í hausnum á mér þegar ég las þetta -- gamla frjálshyggjuvillan um manninn sem einhvers konar sjálfstætt atóm í tómarúmi sem tekur ákvarðanir af frjálsum vilja. Það er nú bara þannig að manneskjur eru ekki alfrjálsir ákvarðanatakandi agentar heldur mótast þær af félagslegum öflum, pressu frá umhverfi sínu og menningu samfélagsins sem þær búa í. Allir þessir þættir kunna að ýta fólki út í að eltast við hluti sem er e.t.v. lítið vit í að eltast við. Það sem ég er að gagnrýna hér eru einmitt þessir þættir.

Ofan á það, þá er samfélagið skipulagt á ákveðin hátt sem lokar fyrir ýmsa valkosti. T.d. þá er vinnutími og sérstaklega vinnuhlutfall yfirleitt ekki mjög sveigjanlegir þættir á vinnumarkaði af einföldum ökónómískum ástæðum. Markaðurinn býður upp á ýmislegt, og mun meira heldur en önnur kerfi sem við þekkjum. Platónski markaður hagfræðinganna er hins vegar ekki til -- þeir valkostir sem hann býður upp á eru mótaðir af menningarlegum þáttum líkt og annað. Það er hins vegar hægt að hafa áhrif á þessa þætti með löggjöf og öðrum framtökum.

Fuck Hollywood. Púrítönsk vinnuárátta og græðgi í efnislega hluti eru stærsta menningarlega útflutningsvara vesturlanda.

Sveinbjörn | 13.3.2009 kl. 22:39
Sveinbjörn

Það er annars vel þess virði að minnast á að Robert Nozick, frægasti heimspekilegi forsvarsmaður frjálshyggjuspekinnar, álítur einmitt á hið frjálsa val sem grundvallargildi eða "intrinsic good."

Árni | 14.3.2009 kl. 05:35
Árni

Mjög vel mælt. Power-færsla.

Sigurgeir Þór | 15.3.2009 kl. 03:15
Sigurgeir Þór

"Endanlega hvíla öll siðferðisleg rök á grunnforsendum sem fela í sér órökstudd og órökstyðjanleg gildi af einhverri gerð."

Geta þá engin gildi verið rétt og engin röng?

Það hlýtur að vera eitthvað rétt og eitthvað rangt. Annars fengjum við ekki sektakennd.

Við verðum líka að gefa okkur einhverskonar forsendur fyrir öllum hlutum. T.d. að heimurinn sé til. Annars væri ekki hægt að fullyrða neitt um neinn einasta hlut.

Sveinbjörn | 16.3.2009 kl. 00:46
Sveinbjörn

Ég er siðferðislegur afstæðishyggjumaður. Rétt og rangt eru mannleg hugtök sem endurspegla samfélagseðli mannskepnunnar en eiga sér enga fótfestu í heiminum sem slíkum. Þegar á botninn er hvolft er engin leið til þess að sýna fram á að eitt sett af siðferðisgildum sé betra en annað sett.

Það er hægt að þjálfa fólk þannig að það fái sektarkennd við ýmsar aðstæður sem við myndum tæpast álíta að fælu í sér siðferðisbrot. Síðan er hvort eð er engin leið til þess að draga siðferðislegar ályktanir af faktúal staðreyndum -- sú villa kallast "the naturalistic fallacy" og mönnum hefur verið þetta ljóst alveg frá því að Hume skrifaði Treatise of Human Nature.

Allar röksemdafærslur byggja auðvitað á ósönnuðum grunnforsendum, líkt og evklíðsk rúmfræði byggur á ósönnuðum frumsetningum. Hverjar þessar frumsetningar skulu vera, og hverjar afleiðingarnar af þeim eru, er einmitt það sem heimspeki fæst við.

Sigurgeir Þór | 16.3.2009 kl. 16:15
Unknown User

Ég er reyndar siðferðislegur afstæðishyggjumaður líka. Sem er líka ástæðan fyrir því að ég ætla að stela öllu sem þú átt og lemja þig við fyrsta tækifæri.

Ekki reyna að halda því fram að ég megi það ekki....

Sigurgeir Þór | 16.3.2009 kl. 16:22
Sigurgeir Þór

P.s. Heimspeki er tímasóun. Allt er skilgreiningaratriði. Rétt, rangt, réttlæti, u name it.

Arnaldur | 18.3.2009 kl. 16:39
Arnaldur

Do not feed the Troll!!!

Sveinbjorn | 19.3.2009 kl. 15:43
Sveinbjorn

No, starve the bastard!