Frumvarpið sem lagt verður fyrir Alþingi í dag felur í sér að íslenska fjármálakerfið fari undir stjórn ríkisvaldsins. Seðlabanka og Fjármálaeftirlitinu verða veittar mjög ítarlegar heimildir til að grípa inn í stjórn og starfsemi fjármálastofnana. Hægt verður að yfirtaka fjármálafyrritæki eða stofna ný, boða til hluthafafunda og takmarka heimildir stjórna fjármálafyrirtækjanna.

Ég var rétt í þessu að horfa á Geir lýsa nýja fjármálafrumvarpinu í beinni gegnum netið. Svona endar nýfrjálshyggjusvallveislan á Íslandi -- á því að ríkið eykur vald sitt gríðarlega á fjármálamörkuðum til þess að koma í veg fyrir að hagkerfið hrynji, og það eftir að lítil elíta af bankastjórum og fjárglæframönnum hafa hagnast um hundruði milljóna við kaup og sölu fyrirtækja sín á milli. Í stefnubreytingu sem er klárlega afturkippur til 8. áratugsins fær fjármálaráðherra nú varanlegt og umfangsmikið vald til þess að taka yfir og skipta sér af rekstri íslenskra fyrirtækja.

Þetta er ekki beinlínis stoltur dagur fyrir Davíð Oddsson og fylgismenn hans. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í raun drastísk afneitun á laissez-faire stefnunni heittrúuðu sem dunið hefur yfir landann undanfarin áratug. Hönd markaðarins reyndist í þetta skipti ekki bara með öllu ósýnileg heldur einnig óáþreifanleg -- eintóm hughverfing markaðspostula og frjálshyggjumanna sem byggðu hugmyndir sínar um skynsemi ökónómískra agenta á vansköpuðum og ófrægðum tilgátum um mannlegt eðli.


4 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Steinn | 9.10.2008 kl. 11:16
Steinn

Verst að Arthur Miller sé látinn, hann hefði kannski getað skrifað sitt loka leikrit "Death of a currency" eða "Death of capitalism".

Hugi | 10.10.2008 kl. 00:38
Hugi

Hafið þið kíkt á Vefþjóðviljann nýlega? Samkvæmt þeim, þá er hrun fjármálakerfisins Íbúðalánasjóði að kenna.

Steinn | 10.10.2008 kl. 15:31
Steinn

Ekki bara íbúðarlánasjóði, heldur líka seðlabönkum, stýrivöxtum, ríkistryggingu og gráðugum almenningi. Frábær afneitun, hef ekki séð hana betri síðan ég hlustaði síðast á alka útskýra afhverju hann drekki.

Þórir Hrafn | 10.10.2008 kl. 15:59
Þórir Hrafn

Steinn, hér er smá afneitun í viðbót handa þér. Ályktun Heimdallar sem fór út í gær:

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík,
hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, harmar þær harkalegu
aðgerðir sem neyðarástandið á fjármálamörkuðum heimsins hefur knúið íslensk
stjórnvöld að grípa til, og lýsir enn fremur þungum áhyggjum af
langtímaafleiðingum hinna stórtæku aðgerðaheimilda sem stjórnvöld áskildu sér
með lagasetningu mánudagsins.

Fjármálakerfi heimsins riðar nú til falls, og margir hrópa að fjörbrot
frjálshyggjunnar sé runnið upp; að framtíðarlausn á vanda fjármálakerfisins
verði einungis fólgin í kæfandi ríkisafskiptum - jafnvel beinum
ríkisrekstri.

Heimdallur minnir á að þetta sama fjármálakerfi hefur fært Íslendingum miklar
lífskjarabætur og velmegunaraukningu. Ef við Íslendingar viljum halda áfram á
braut frelsis og framfara að þessari kreppu lokinni væri því illa ráðið að kasta
á glæ þeim gríðarlegu möguleikum til verðmætasköpunar sem felast í frjálsu,
einkareknu fjármálakerfi. Okkur er á hinn bóginn nauðsynlegt að endurskoða
lagaumhverfi fjármálastofnanna, auka gagnsæi í rekstri þeirra og stórbæta
eftirlit með þeim til að koma í veg fyrir nýjar fjármálakreppur á
Íslandi.

Ungir sjálfstæðismenn leggja jafnframt áherslu á að ríkisvaldið noti þessar
gríðarlegu inngripsheimildir sínar í hófi, fari varlega með vald sitt og vonar
að þær verði umsvifalaust felldar úr gildi þegar neyðarástandið er
yfirstaðið.
F.h. stjórnar

Fanney Birna Jónsdóttir
Formaður