Ég er alveg öskureiður. Ég fór skelþunnur í (bresku) bankann minn fyrr í dag til þess að greiða skólagjöld og lenti í óskilvirkustu, lélegustu, mestu skítahallærisdraslþjónustu sem ég hef nokkru sinni upplifað. Ég vildi flytja 3166 pund yfir á reikning Edinborgarháskóla og var með allar upplýsingar vandlega skrifaðar niður á blað. Ég bjóst ekki við að þetta yrði neitt vandamál. Eftir að hafa beðið í langri biðröð í bankanum fékk ég loksins afgreiðslu. Ég útskýrði fyrir afgreiðsludömunni að ég vildi millifæra þessa upphæð, og rétti henni blað með öllum hugsanlegum upplýsingum. Hún sagði mér að "money transfers for the day are over" (klukkan var 14:30) og að greiðslan færi í gegn daginn eftir. "OK, that's fine." Síðan sagði hún mér að millifærsla myndi kosta 22 pund, eða um 3800 krónur á núverandi gengi. Þetta þótti mér alveg með ólíkindum blóðugt. Ég spurði hvort það væri nú ekki einhver ódýrari leið. Hún sagði mér að ég gæti bara tekið út upphæðina í reiðufé og gengið yfir í Bank of Scotland skammt frá og borgað inn á reikninginn beint. Mér þótti þetta afskaplega asnalegt -- 21sta öldin, og menn eru að ganga á milli með háar upphæðir í reiðufé?

Ég lét mig þó hafa það, tók þessa miklu upphæð og fór yfir í Royal Bank of Scotland. Þar beið ég í annari biðröð. Þegar ég fékk afgreiðslu og sagðist vilja leggja inn þennan pening þá var mér sagt að þetta væri "low cash" útibú sem gæti bara tekið við upphæðum að 1200 pundum og fékk stuttan fyrirlestur um bjúrókrasíu Royal Bank of Scotland, og hvernig útibú skiptust í "high cash" og "low cash" útibú. Ég varð hundfúll og spurðist fyrir um hvar ég gæti þá fundið "high cash" útibú. Ég gekk síðan yfir í "high cash" útibúið, frekar taugaveiklaður yfir því að vera með svona mikinn pening á mér. Þar beið ég í annari langri röð. Þegar ég fékk loksins afgreiðslu þá sagði ég að það þyrfti að "quote the student reference number in the deposit" eins og stóð í fyrirmælum frá skólanum. Afgreiðsludaman útskýrði fyrir mér að það væri ekki hægt að quote-a reference númer í beinum reiðufésinnborgunum. Nú var ég orðinn mjög pirraður.

Ég fór bálreiður aftur yfir í bankann minn, NatWest, og sagði að ég vildi bara borga þessi andskotans 22 pund og framkvæma millifærslu sem færi í gegn daginn eftir. Afgreiðsludaman bað mig þá um alls konar furðuleg númer sem ég hafði aldrei heyrt um og fór að útskýra fyrir mér hvernig hin og þessi númer virkuðu í innanhúsgagnagrunni bankans. Ég sagði henni "Lady, I don't know anything about banking or banks, and I'd like to keep it that way." Þá var ég beðinn um vegabréf, því það er vist þannig að þeir þurfa að ljósrita vegabréfið manns þegar upphæð yfir 3000 pund er færð á milli. Ég hafði auðvitað ekki vegabréfið á mér.

Á þessu stigi málsins þá tapaði ég mér alveg og útskýrði fyrir dömunni að þetta væri nú ekki kjarnorkuvísindi -- að ég vildi nú bara flytja pening af reikningi A yfir á reikning B, og hvernig í andskotanum þetta gæti verið svona dýrt og flókið allt saman? "Please remain calm, sir. I don't make the rules."

Jahá. Tvær klukkustundir af frústrerandi bjúrókrasíu og kjaftæði, og mér tókst ekki einu sinni að framkvæma eina skitna millifærslu. Þessir bresku bankar eiga það fyllilega skilið að fara beinustu leiðina á hausinn. Þeir bjóða upp á síðustu sort af skítaþjónustu, pappírsvinnu, formsatriðum og óendanlegri frústrasjón. Það má margt illt um íslenska banka segja, en miðað við upplifanir mínar í Bretlandi eru þeir æðislegir.

Þetta er ekki fyrsta martröðin sem ég lendi í með breska banka.

Á svipuðum nótum, þá er það alveg með ólíkindum hversu mikil pappírsvinna og bjúrókrasía fylgir einföldustu hlutunum hérna í Bretlandi. Ég eyddi 45 mínútum í að tala við British Telecom og fékk ekki einu sinni símalínu. Það er endalaus straumur af pappírum og eyðublöðum fyrir allt milli himins og jarðar. Við Íslendingar höfum það býsna gott heima, held ég...


6 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Dan | 25.9.2008 kl. 15:58
Unknown User

The amazing thing is that the bank could have triggered a run if someone had seen you carrying that cash. If other people in the bank saw you walking out with 3,000 pounds, they would have assumed the bank was defaulting and rushed to grab their money, which would have triggered an ACTUAL default. Too bad no one saw you - you could have gotten your sweet revenge.

Logi | 26.9.2008 kl. 09:14
Logi

Ég væri til í að sjá mynd af þér hálf taugaveikluðum á gangi út á á götu með fulla vasa fjár ;) Geturðu ekki reenactment-að þetta ;)

Arnaldur | 26.9.2008 kl. 10:20
Arnaldur

Þokkalega. Party like it's 1929!

Very good point Dan.

Einar Örn | 29.9.2008 kl. 13:22
Einar Örn

Ég stofnaði mér nýlega reikning í HSBC, og það gekk alveg með ólíkindum vel. Öll samskipti í kjölfarið (uppsetning netbanka, millifærslur, bæði innlendar og erlendar ofl) hafa verið mjög áreynslulítil...

Ég veit ekki hvort ég hef bara verið svona heppinn, þú svona óheppinn eða bæði, en mín reynsla so far hefur verið betri en af mínum banka á Íslandi (SPRON) ef eitthvað er.*

En talandi um bank run.. Er ekki hægt að gera einhver góð pun tengd Glitnis maraþoninu núna um daginn? Biggest Icelandic bank-run ever, sponsored by Glitnir.

*þessi athugasemd er nota bene ekki sponsoruð af HSBC ;)

Sveinbjörn | 29.9.2008 kl. 15:56
Sveinbjörn

Hm....ég hef heyrt góða hluti um HSBC, félagi minn Timur var viðskiptavinur þar og lét vel af. Kannski hef ég síðan bara verið óheppinn.

Helgi Briem | 30.9.2008 kl. 14:15
Unknown User

Ég bjó í Bretlandi í 4 ár og verð að segja að öll mín viðskipti við bankakerfi þeirra einkenndust af viðlíka fíflagangi. Í eitt skipti ákvað ég með stuttum fyrirvara að skreppa í vikufrí til Íslands og stökk í bankaútibúið mitt til að taka út 300 pund. Nei kallinn minn, það var sko ekki hægt. Allar "risafærslur" sem þessar varð að panta með minnst 2 sólarhringa fyrirvara. Þar sem flugið mitt var eftir eitthvað 6 tíma gat ég ekki beðið eftir því. Ég gerði stólpagrín að þessari polisíu og sagðist geta tekið þessa smáaura út í minnsta banka á Íslandi með 2 mínútna fyrirvara. Og sennilega á flestum bensínstöðvum ef ég sýndi skilríki. Eftir að fylla út stafla af eyðublöðum og sýna vegabréf og stúdentaskilríki fékk ég féð.