20.5.2008 kl. 16:53

Mér finnst öll umræða á Íslandi um landbúnaðarmál vera fyrirlitleg. Allt kjöt kostar astrónómískar upphæðir, en enginn virðist vilja gera það sem er klárlega skynsamlegt og nauðsynlegt: leggja af alla verndartolla og niðurgreiðslur til bænda, og gera landbúnað algjörlega frjálsan.

Fyndnast af öllu er þegar fólk byrjar að tala um hversu góðar íslenskar landbúnaðarvörur séu, og að þetta réttlæti reglugerðirnar og skattpínuna. Sumar vörur eru vissulega mjög fínar, en á Íslandi er ómögulegt að kaupa góða skinku eða góðan ost. Íslenskt kjöt þykir mér almennt ekkert betra en það sem ég fæ á 50% lægra verði hérna í Bretlandi. Meintir yfirburðir íslensks landbúnaðar eru kjaftæði -- sumar vörur eru góðar, aðrar vondar, flestar hvorki né. En jafnvel þótt íslenskar landbúnaðarafurðir væru með eindæmum góðar, þá er það í sjálfu sér engin réttlæting á núverandi fyrirkomulagi. Mönnum ætti að vera frjálst að kaupa ódýrt drasl ef þeim svo sýnist.

Þeir sem vilja vernda landbúnaðinn íslenska ættu að hætta að tala undir rós og viðurkenna að þeir vilja hann verndaðan af rómantískum hugsjónaástæðum -- eldgamla ísafold, Jón Sigurðsson, íslenska sauðkindin og Bólu-Hjálmar, "hlíðin er fögur" , m.ö.o. tötrum aumkunarverðrar 19du aldar þjóðernishreyfingar sem á enga samleið með nútímaíslendingnum -- en ekki af praktískum ástæðum á borð við að bæta gæði landbúnaðarafurða og færa landanum einungis fínasta matinn á borðið.

Ef menn láta stjórnmálahugmyndir sínar stjórnast af þjóðernisrembingi og rómantískri hugsjón um anakróníska og hverfandi atvinnugrein sem tilheyrir samfélagsgerð sem er (blessunarlega) dauð, -- gott og vel, þeir um það. En þeir geta þá að minnsta kosti verið hreinskilnir og sagt það sem þeir meina beint út í stað þess að fela sig á bak við orðræðu sem samanstendur af bulli og lygum.


15 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Aðalsteinn | 20.5.2008 kl. 17:47
Aðalsteinn

Það verður gaman ef það skellur á einhver alheims sóttfaraldur með tilheyrandi flutnigs- og farbönnum að hafa losað okkur við landbúnaðinn. Þá étum við söl og fjallagrös.

Er sem sagt til fólk sem vill halda í sauðfjárrækt vegna þess að Bólu-Hjálmar var sauðaþjófur?

Sveinbjörn | 21.5.2008 kl. 04:59
Sveinbjörn

Æji, þessi gamla lumma, Alli. Þetta eru alveg klénustu rök í heimi. Í fyrsta lagi, þá er absúrd að ætlast til þess að þjóðir byggi stefnu sína á ráðstöfunum fyrir ótrúlega ólíkleg tilfelli. Það er engin ástæða til þess að neins konar alheims sóttfaraldur sé að fara að brjótast út, og ef svo er, þá er engin ástæða til þess að ætla að íslenskur landbúnaður væri ónæmur fyrir honum. Og jafnvel þótt málum væri svo háttað, þá væri Ísland væntanlega ekki eitt á báti í þeim efnum, og við erum nú rík þjóð.

Í öðru lagi, þá myndi markaðsvæðing ekki drepa landbúnað á Íslandi. Sum framleiðsla myndi lifa góðu lífi, önnur deyja. Svo framleiða Íslendingar gígantískt magn af mati í formi sjávarafurða. Ef landinn gat haldið sér á lífi hérna gegnum myrku aldirnar með skóflum og plógum einum saman, þá væri það væntanlega lítið mál að lifa af einn svona alheimsfarald með nútímaiðntækni í matvælaframleiðslu. Þar að auki, þá væri bæði ódýrara og einfaldara að undirbúa sig undir slíkan farald með því að afnema landbúnað og eyða nokkrum milljörðum í dósamat erlendis frá. ;)

En eins og ég segi, að byggja landbúnaðarstefnu á hugmyndum um dómsdaginn í nánd er grátlega absúrd pæling.

Aðalsteinn | 21.5.2008 kl. 19:13
Aðalsteinn

Nei, ég skaut þessu nú bara svona inn til að heyra viðbrögð þín.

Ég er nokkurn veginn sammála þér. Held einmitt að einhver sauðfjárrækt yrði alltaf til.

Held að mönnum ætti nú að vera orðið ljóst að Ísland er of norðarlega og með of viðkvæman gróður til að halda uppi massífri búfjárrækt. Fyndið að Ísland er selt túristum sem ósnortið land og sett þannig í samhengi við Evrópu þar sem mest allt land er nýtt. Staðreyndin er auðvitað sú að Íslendingar eru löngu búnir að skemma stærstan hluta af landinu og breyta í "ósnortna" eyðimörk.

Sveinbjörn | 26.5.2008 kl. 13:38
Sveinbjörn

Merkilega nokk, þá beitir hann Ögmundur einmitt nákvæmlega þessum rökum sem ég var að gagnrýna, sjá http://ogmundur.is/annad/nr/3925/

Logi Helgu | 20.5.2008 kl. 22:15
Logi Helgu

Íslenskt kjöt og íslensk tunga...bara að henda þessu ;)

Sveinbjörn | 21.5.2008 kl. 04:51
Sveinbjörn

Ég er ekkert óopinn fyrir hinum ýmsu þjóðernis- og sentimentsrökum. Vil bara að menn séu skýrir þegar þeir eru með slíkt í huga.

En annars finnst mér landbúnaðurinn ekki vera svo mikilvægur hluti af íslenskri menningu að það sé þess virði að niðurgreiða hann um 8 milljarða á ári, og auk þess óbeint skattpína landann með verndartollum á erlendar vörur.

Þess utan, ef út í það er farið, þá er svína- og kjúklingarækt tæpast "rammíslensk" heldur 20. aldar nýjung.

Siggi Árni | 20.5.2008 kl. 22:36
Siggi Árni

Er þetta ekki ástæðan fyrir því að kjúklingabringur er svona dýrar? Vegna þess að fólk á frekar að kaupa lambakjöt?

Hvað kostar einn pakki af bringum í UK?

Sveinbjörn | 21.5.2008 kl. 04:52
Sveinbjörn

Pakki af góðum kjúklingabringum heima kostar 1600 krónur -- allavega síðast þegar ég fór að versla um jólin.

Hérna kostar pakkinn 3-4 pund (500-600 kr). Ég veit af eigin reynslu að sá íslenski er ekki 1000 krónum betri.

Sindri | 21.5.2008 kl. 01:28
Sindri

Þú og íslenskur landbúnaður hafa aldrei átt samleið...

Það ætti að senda þig í sveit og gera þig að manni. Leyfa þér að moka flórinn og anda að þér hressandi lofti til að styrkja rykfallin lungun!

Sveinbjörn | 21.5.2008 kl. 04:53
Sveinbjörn

Þótt það kunni að virka ótrúlegt, þá var ég í sveit í tvö sumur, 10 og 11 ára, sendur þangað af foreldrum mínum með einmitt slíkt í huga. Þótt það mjög gaman á sínum tíma.

Sindri | 22.5.2008 kl. 14:45
Sindri

Hehe ;)

Doddi | 21.5.2008 kl. 11:06
Doddi

Ég las einhvers staðar að um 100 manns hefðu atvinnu af kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu á Íslandi.

Það er sjálfsagt að standa vörð um hagsmuni þessa hóps og halda himinháum tollum á erlendan kjúkling sem er af miklu minni gæðum. Sést það glögglega á öllum þeim dauðsföllum erlendis sem eru rakin til sýkts kjúlla.

Ehh...

Sveinbjörn | 21.5.2008 kl. 19:59
Sveinbjörn

Eru það *virkilega* ekki fleiri?

Btw, Doddi hagstofugrúskari, geturðu grafið upp tölurnar yfir svona lagað? Það væri afar forvitnilegt að vita hversu margir einstaklingar eru núverandi fyrirkomulagi undir komnir.

Gunni | 21.5.2008 kl. 13:55
Gunni

Hitler niðurgreiddi landbúnað. Viljum við vera eins og Hitler?

Sveinbjörn | 21.5.2008 kl. 19:50
Sveinbjörn

Tek undir þetta. Quod erat demonstrandum via argumentum ad hitlerum.