19.5.2008 kl. 16:56

Ég hef orðið var við það að mikil umræða er í gangi þessa dagana um Ísland og ESB. Ég er sjálfur mótfallinn inngöngu, af ýmsum ástæðum. Ég nenni ekki að greina frá þeim öllum sem stendur. Hins vegar verður mér hugsað aftur til árs míns í LSE 2006-2007.

EU svaedi

Það vill svo til að ég á núna tvo vini sem starfa fyrir Evrópubandalagið í Brussel sem júrókratar, annar þeirra Belgi en hinn Austurríkismaður. Báðum kynntist ég við LSE, en þar lögðu þeir stund á mastersgráðu í svokölluðum European Studies. Í gegnum kunningskap minn við þessa menn fékk ég tækifæri til þess að kynnast námsefni evrópufræðinnar, ræða við prospektíva júrókrata um ESB og umgangast mikið af "evrópuklíkunni" svokölluðu við skólann, en LSE dælir út heilum helling af Brussels-mannafla á ári hverju. Reynsla mín af þessu var ekki mjög hughreystandi.

Það má margt slæmt segja um lókal skriffinskubatterí einstakra þjóðríkja -- að þau skipi að miklu leyti bæði vinir ráðamanna og undanrenna vinnuaflsins sem frjálsi markaðurinn hafnar. Evrópubatteríið er eilítið öðruvísi -- þar nær elítisminn nýjum hápunkti úrkynjunar. Franskir, þýskir og belgískir sérskólar nær einungis opnir þeim auðugu eða sértengdu þjálfa fjöldan allan af fólki sem skipar ráðastöður í Brussel. Slíkt gengur gjarnan í ættir, en mikið af evrópufræðinemum eru einmitt synir júrókrata. Feður þeirra tryggja þeim inngöngu í rétt nám, og síðan inn í réttar stöður hjá ESB.

Eitt og sér er þetta e.t.v. ekki svo alvarlegt, en svipað viðgengst í flestum ríkjum. Það sem hræddi mig þó var agalegi forræðishyggjuhugsunarhátturinn hjá þessu fólki. Ríkjandi viðhorfið virtist vera að skítugur, ómenntaður almúginn vissi ekki hvað væri honum fyrir bestu. Einungis sérmenntuð ESB-elíta væri fær um ákvarðanatökur í efnahags- og stjórnmálum. Og þegar ég gagnrýndi ESB harðlega fyrir að vera ólýðræðislegt, þá fékk ég yfirleitt svör þess efnis að lýðræði væri ofmetið. Mér var síðan margoft sagt að það væri bara "tímaspursmál" þar til Ísland væri knúið til þess að ganga í ESB. Menn virtust halda að ESB væri eins og marxíski heimssósíalisminn -- sögulega óhjákvæmilegur, hví streitast á móti hinu óumflýjanlega?. Á þeim tíma hugsaði ég með mér að það væri þó heldur skárra að lúta boðum vanfærra, láglaunaðra og geðvondra ríkisstarfsmanna heima á Skerinu heldur en þessari Evrópuelítu, með sín forræðisgildi og pan-evrópsku stórveldisdraumsýn.

Þetta er auðvitað bara anekdóta. Það má vel vera að reynsla mín sé anómalía og að hlutum sé ekki svona háttað alls staðar. Eflaust er til mikið af góðu, færu og sanngjörnu fólki sem starfar á vegum ESB. En þessi elítumenning vakti mikinn óhug hjá mér, og er ein af ástæðunum af hverju ég er mótfallinn inngöngu Íslands í ESB.


8 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Magnus | 19.5.2008 kl. 19:37
Magnus

Gefðu mér fríverslunarsamning við eithvað land sem framleiðir bíla og ég verð sáttur.

Halldór Eldjárn | 19.5.2008 kl. 19:45
Halldór Eldjárn

Verst að nú er þjóðin að „taka við sér“. Fleiri fylgjandi inngöngu í ESB núna en fyrir nokkrum árum. Það er samt ekki að fara að breyta heimsmarkaðinum eins og það fólk heldur, „hey eigum við ekki að skella okkur aðeins í ESB til að laga þetta dæmi með peningana“.

Doddi | 19.5.2008 kl. 21:20
Doddi

Sögulega óhjákvæmilegt, það lýsir orðræðunni mjög vel hjá ESB-sinnum. Þrátt fyrir að Ísland hafi tekið upp stóran hluta ESB-löggjafar þá sé ég ekki hvernig við erum betur sett með að láta hóp manna, sem enginn kýs, taka ennþá ákvarðanir fyrir okkur.

Það eina sem ESB á eftir að gera til að jafnast á við Bandaríkin væri að lýsa yfir „federal status" eða einhverju slíku.

Hins vegar er munurinn á Bandaríkjunum og ESB sá, að fylkin í Bandaríkjunum veita alríkinu sitt vald, á meðan ESB er miðstýrt batterí sem veitir aðildarríkjum ákveðið svigrúm til að haga málum eftir eigin höfði.

Doddi | 19.5.2008 kl. 21:21
Doddi

ennþá = enn fleiri

Einar Örn | 20.5.2008 kl. 14:27
Einar Örn

djöfull er "júrókratar" gott orð

Sveinbjörn | 20.5.2008 kl. 15:38
Sveinbjörn

Já, það er það. En þetta eru engin nýyrðasmíð hjá mér, einungis íslenskun á "Eurocrat", sem hefur náð góðri fótfestu a.m.k. hérna í bresku hræðsluáróðurspressunni. Sjá t.a.m. hvert http://en.wikipedia.org/wiki/Eurocrat tekur þig...

Dagga | 21.5.2008 kl. 22:47
Dagga

Djöfull þurfið þið að fara að vinna í ráðuneyti. Ég hélt að ástandið væri vont, en oh boy!

Doddi. Við erum í EES og það veitir okkur mikil og góð réttindi, en setur okkur líka skyldur.

Lýðræðishallinn á Íslandi er svo mikill að það er beinlínis sárt. Fleiri hundruðir reglugerða koma eldheitar frá Strassborg á hverju ári, og við megum ekki breyta einum staf. Jú, við megum kannski þýða þær. Punktur. Þá væru nú gott að hafa eitthvað fólk með atkvæðarétt á þinginu.

Þannig að, já - feisum það. Þessir elítistar sem þú minnist á Sveinbjörn eru búnir að stjórna þér, mér og okkur öllum mun lengur en þú gerir þér grein fyrir.

Síðan vil ég ekki einusinni byrja á að ræða gjaldeyrismálin....

Hugi | 23.5.2008 kl. 18:04
Hugi

Já, segðu. Má ég þá frekar biðja um staðfasta og örugga hagstjórn íslenskra pólitíkusa á heimsmælikvarða, sem tryggir íslenskum almenningi farsæld um alla eilífð, amen.

http://hugi.karlmenn.is/id/1000001&detail=1000621