Þegar ég segi fólki þessa dagana að ég sé í mastersnámi í sagnfræði, þá verður fólk stundum hissa og spyr mig hvort það sé ekkert vandamál að vera bara með bakgrunn í rökgreiningarheimspeki. Svarið, í stuttu máli, er já og nei.

Sú sagnfræði sem ég legg stund á hér í Edinborg er bæði almenn og mjög sérhæfð. Rannsóknarsvið mitt og helsta áhugamál er hugmyndasaga 18du aldarinnar, og þá sérstaklega stjórnspeki og siðspeki Upplýsingarheimspekinganna svokölluðu: Hume, Shaftesbury, Locke, Montesquieu, Pufendorf, La Mettrie, d'Holbach, Diderot, d'Alembert, Hutcheson, Voltaire o.fl. Ég rannsaka hvaða áhrif þessir menn höfðu á hugmyndaheim átjándu aldar, og hvaða hugsuðir höfðu áhrif á þá. Í þessum skilningi fæst ég í raun við heimspekisögu. Aftur á móti, þá er hugmyndasögudeildin hér í Edinborg undir miklum áhrifum frá hinum svokallaða Cambridge-skóla í hugmyndasögu, sem á rætur sínar að rekja til sagnfræðingsins Quentin Skinner. Cambridge-skólinn leggur áherslu á að rannsaka ekki heimspekilegar hugmyndir in vacuo, heldur rannsaka gaumgæfilega það sögulega umhverfi og tíðaranda sem höfundar þeirra bjuggu við. Í þessum skilningi, þá er öll evrópsk 17du og 18du aldar saga tengd rannsóknarefni mínu, en þó mismikið.

Menntun mín í rökgreiningarheimspeki kemur sér afskaplega vel í þessu námi. Við fyrstu sýn kann nútíma rökgreiningarheimspeki að virðast afskaplega fjarlæg heimspekisögunni, og það er e.t.v. satt. Hins vegar veitti menntun í rökgreiningarheimspeki mér mikilvæga þjálfun í að greina, vega og meta röksemdafærslur -- greina hvað er áróður og hvað eru rök, sjá hvernig skrefin í röksemdafærslum liggja -- m.ö.o. sjá beinagrindina bak við þau heimspekikerfi sem ég rannsaka. Þetta er afskaplega mikilvægur og gagnlegur hæfileiki, og ég verð var við að sumir samnemendur mínir, margir einungis menntaðir í sagnfræði, líða fyrir það að hafa ekki sömu þjálfun.

Hvað varðar skort á bakgrunni í sagnfræði -- um það get ég einungis sagt að áhugi minn á sögu og tómstundalestur á sagnfræðiverkum gegnum árin hefur reynst afar hjálpsamur, og ég tel mig ekki líða mikið fyrir það. Ég gæti þó trúað að námið sem ég er í gæti reynst erfitt þeim sem ekkert hafa kynnt sér mannkynssöguna utan menntaskólamenntunar.


6 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Gunni | 21.1.2008 kl. 23:41
Gunni

Ég er einmitt að spá hvaða master ég eigi að taka. Er að hallast að sögu eða sálfræði, væri ég ekki flottur sálfræðingur?

Patient: "Doctor, I feel like..."
G: "Fuck you, we all have problems. Drink vodka."

Sveinbjörn | 22.1.2008 kl. 12:57
Sveinbjörn

Reyndir er það víst þannig að margir sem fara í sálarfræði eru með hina ýmsu geðkvilla.

Sindri | 22.1.2008 kl. 14:23
Sindri

Eru þeir ekki flestir léttklikkaðir þarna í sálfræðinni? Þangað komnir til að sálgreina sjálfa sig ;)

Sveinbjörn | 22.1.2008 kl. 14:37
Sveinbjörn

Þetta meikar alveg sens á sinn twisted hátt: þú ert bilaður, og vilt vita hvað er í gangi.

Doddi | 24.1.2008 kl. 00:58
Doddi

Ég hallaðist einmitt eilítið til vinstri in my early teens en vissi að það var eitthvað ekki að ganga.

Síðan fór ég í hagfræði til að lækna mig.

Sveinbjörn | 24.1.2008 kl. 12:37
Sveinbjörn

?