<nöldur>

Ég hef ávallt haft blendnar tilfinningar gagnvart málverndarstefnu. Ísland er auðvitað lítið málsamfélag, og það má færa rök fyrir því að það þurfi virka þátttöku ríkis og menntakerfis til þess að standa vörð um það. Hins vegar er íslenskurembingurinn hreinlega óþolandi á köflum; menn eru að bölva yfir því að málnotkun sé sífellt að breytast (sem er að mínu mati eðlilegur gangur mála) og vilja halda málinu "hreinu", hvað sem það nú þýðir.

En hvað sem mönnum kann að finnast um málverndarstefnu, þá er hún við lýði, og ef eitthvað er þess virði að gera á annað borð, þá er þess virði að gera það vel. Því spyr ég:

Af hverju í andskotanum er engin íslensk orðabók á netinu?

Það dynur sífellt yfir mann þessi áróður um mikilvægi þess að vernda hina fögru íslensku tungu, o.s.frv., en hafi menn áhuga á að beita henni rétt, þá búa þeir við býsna fátækan kost. Það er engin íslensk-íslensk orðabók á netinu -- hvað þá orðsifjabók. Hvernig í andskotanum er hægt að ætlast til þess að maður beiti þessu annars ágæta tungumáli þegar það er ómögulegt að fletta upp orðum án þess að fjárfesta í dýrum bókum sem tekur heila eilífð að nota í nokkurn skapaðan hlut?

Ef ég skrifa greinar á ensku þá get ég flett upp hvaða orði sem mér sýnist á innan við sekúndu, en vilji ég skrifa á íslensku neyðist ég annað hvort til þess að treysta eigin orðnotkun, stafsetningu o.s.frv. eða fara að djöflast með einhvern doðrant. Þetta er algjört hneyksli.

Ef Íslendingar vilja í raun og veru halda úti málverndarstefnu, þá liggur það berlega í augum uppi að það verður að bjóða upp á íslenska orðabók á netinu. Kostnaðurinn er nær enginn -- það eina sem þarf er eignarhald á höfundarétti á íslenskri orðabók, einfalt netforrit og vefþjón með gagnagrunni. Ég myndi hæglega treysta mér til að afgreiða slíkt verkefni á örfáum dögum ef ég fengi íslenska orðabók afhenta sem textaskjal.

Ætli það sé til einhver sæmileg gömul íslensk orðabók sem er fallin úr höfundarrétti? E.t.v. gæti maður gert eitthvað með hana...

Á svipuðum nótum, þá er það auðvitað líka hneyksli að það sé engin íslensk-ensk/ensk-íslensk orðabók ókeypis í boði á netinu -- bara ordabok.is, sem kostar þúsundir króna. Við Íslendingar erum svo djarfir að krefjast þess að erlent fólk sem hingað flytur þurfi að kunna íslensku, en bjóðum þeim síðan ekki einu sinni upp grundvallartól til þess að læra.

Ef ráðamönnum er virkilega svona annt um að efla íslenska tungu, þá ættu þeir að setja upp ókeypis netorðabækur fyrir helvítis málið. Kostnaður væri nær enginn, og gagnið af því mikið. Því segi ég: Orðabók Menningarsjóðs á netið!

</nöldur>

6 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Grímur | 11.7.2007 kl. 08:47
Grímur

http://www.ismal.hi.is/indexny.html">http://www.ismal.hi.is/indexny.htmler ekki orðabók, en er ágætis staðgengill.

Annars er ég hjartanlega sammála þér. Hins vegar efast ég um að þetta muni nokkurn tíman gerast - ég held að Edda eigi útgáfuréttinn á Orðabók Menningarsjóðs og þar sem þetta er ein af þessum klassísku stúdents/útskriftargjöfum - og þar með drjúg tekjulind - þykir mér ólíklegt að þau gefi hana svo glatt eftir.

Sveinbjörn | 11.7.2007 kl. 17:30
Sveinbjörn

Þótt Orðabók Menningarsjóðs sé drjúg tekjulind, þá hefur hún e-ð ákveðið fínit fjárhagslegt virði. Bara spurning um að kaupa réttinn að orðabókinni af Eddu fyrir einhverja summu. Fjárlögin eru upp á 300 milljarða -- þar af fara 8 milljarðar í beinar niðurgreiðslur á þessum hlægilega landbúnaði okkar. Það hlýtur að vera hægt að forka út einhverjum milljónum í töluvert verðugra verkefni. Bara spurning um að viljinn sé fyrir hendi...

Steinn | 11.7.2007 kl. 10:27
Steinn

Heyr heyr, Sveinbjörn. Ég þoli ekki að ordabok.is hafi áttað sig á þessari gloppu, get ekki notað hana ókeypis lengur.

Sveinbjörn | 11.7.2007 kl. 16:57
Sveinbjörn

Það er rétt -- mjög pirrandi. Hins vegar geturðu gert eins og ég, og búið til bógus gmail addressur og skráð þig í 15 daga reynsluaðgang ad infinitum.

Halldór Eldjárn | 11.7.2007 kl. 11:06
Halldór Eldjárn

Mikið rétt Sveinbjörn. Mikið rétt.

Sveinbjörn | 11.7.2007 kl. 17:26
Sveinbjörn

Það sem ég er farinn að gera til þess að athuga hvort ég hafi gert stafsetningavillur er að nota http://vefur.puki.is">http://vefur.puki.istil yfirlestrar. Smíðaði meira að segja Mentat Module sem bæti við yfirlestrarhnappi.

Ég man að þegar ég vann hjá FRISK þá hafði einn samstarfsfélagi minn, Stefán, útfært Púkann sem Apple SpellChecker module fyrir Mac OS X -- frekar sniðugt.