10.1.2007 kl. 16:31

Mér var fyrir skömmu bent á grein eftir Friðbjörn Orra Ketilsson þar sem hann spyr hneykslaður hvort "fólk geti lent í fíkn" og skammast út í þá í fjölmiðlum sem nota slíka frasa. Fíkn, samkvæmt Friðbirni, er "annað nafn yfir skort á sjálfsstjórn". Þetta er ekki alveg rétt hjá honum. Eins og venjulega þá er umrætt vandamál flóknara heldur en Friðbjörn gerir sér grein fyrir. Einhvers konar möguleiki á stjórn verður að vera til staðar til þess að við getum á annað borð talað um sjálfsstjórn. Friðbjörn getur ekki stýrt hjartslætti sínum, eða þeirri staðreynd að hann blikki ómeðvitað á u.þ.b. 4 sekúndna fresti. Hann getur heldur ekki stjórnað því að fótur hans kippist upp þegar ákveðinn staður á hnénu er sleginn lauslega með læknishamri. Líkamar okkar og hugar eru þannig saman settir að þeir bregðast við vissu áreiti á vissan hátt undir vissum kringumstæðum, og vilji mannsins og skynsemi eiga ekki alltaf virkan eða fyllilega virkan þátt í þessu ferli.

Jafnvel öfgamaður eins og Friðbjörn Orri hlýtur að fallast á að það séu stundir þar sem menn ráða sér ekki sjálfir -- t.a.m. þegar þeir eru ofurölvi eða sjúkir á geði. Í slíkum tilfellum teljast menn ekki ábyrgir gerða sinna, og lögin taka tillit til þess. Með spilakassa er málum svo háttað að vissir menn eru haldnir þeirri áráttu að geta hreinlega ekki hætt að spila -- vélarnar kalla fram í þeim stundarbrjálæði þar sem þörfin til þess að spila yfirbugar rökhugsun og skynsemi. Sama gildir um þá sem háðir eru harðari fíkniefnum.

Við erum auðvitað að fást hér við aldagamla vandamálið um frelsi viljans. Án frelsis er ekki hægt á álíta menn siðferðislega ábyrga fyrir gjörðum sínum. En undir hvaða kringumstæðum er vilji mannsins frjáls? Ég tel ekki grundvöll fyrir því að álíta fíkilinn ábyrgan gerða sinna til fulls sökum þess að hæfni hans til ákvörðunartöku er afvegaleidd af sjúklegri áráttu. Það er gömul tugga að menn fæðast misvel gefnir inn í þennan heim -- sumir eru viljasterkir en aðrir ekki. Það er ýmislegt sem bendir til þess að fíkilseðlið sé bundið í genum manna -- en þeir bera ekki ábyrgð á genum sínum fremur en aðrir. Auðvitað eru mörk sjálfsábyrgðar óskýr, eins og í svo mörgum öðrum málum af heimspekilegum toga, en það þýðir ekki að þau sé ekki til staðar og skipti ekki máli um hvernig samfélaginu er stjórnað.

Það er síðan annað mál hvort takmörkun á aðgangi manna að spilakössum sé svo slæm að hana megi ómögulega réttlæta með því að vísa í neikvæð áhrif á þá sem haldnir eru spilafíkn. Það er spurning sem ég tel mig ekki geta svarað, þar sem ég bý ekki yfir viðkomandi gögnum. Meta verður að hverju sinni hvort takmörkun á frelsi manna sé réttlætanleg. En nytjarök af þessum toga falla tæpast í kramið hjá mönnum eins og Friðbirni -- þar snýst allt um réttindi, hversu óskýrt og vafasamt sem réttindahugtakið reynist enn til dagsins í dag -- "þvæla á stultum" í orðum Benthams.

Friðbjörn segir það vera "kjarninn í uppeldi barna að kenna þeim að hafa stjórn á sér", og það er satt og rétt. Hins vegar held ég að jafnvel uppeldisfræðingur á borð við Friðbjörn geti tæpast alið upp barn sem "einfaldlega hættir" á heróini.


4 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Árni | 10.1.2007 kl. 18:32
Árni

Indeed, sir. Sannmæli hér á ferð.

Lætur mig minnast þegar Hannes Hólmstein kom í stjórnmálafræðitíma í MH, minning sem fer mér seint úr minni. Hann var að tala um að velferðarkerfið væri að skapa aumingja á sama tíma og hann var að gútera löglega sölu heróíns á Íslandi. Þegar ég spurði hvort það að leyfa heróín myndi ekki skapa fleiri aumingja sem myndu stela fyrir næsta skammti þá svaraði hann með að segja að þar sem að heróín á frjálsum markaði væri orðið svo ódýrt þá þyrfti hinn meðal-heróínneytandi ekki að vinna nema fjóra tíma á dag til að eiga nóg til að halda uppi fíkninni. Nokkuð mögnuð niðurstaða.

Grímur | 11.1.2007 kl. 16:51
Grímur

Í þessu samhengi þykir mér við hæfi að benda á eftirfarandi grein William S. Burroughs sem birtist í tímaritinu British Jounal of Addiction (sem er n.b. ekki tímarit fyrir fíkla, á sama hátt og Samtök áhugafólks um áfengisvandann eru ekki samtök þeirra sem eiga við áfengisvandamál að stríða - mér hefur alltaf fundist þetta mjög spaugilegt nafn...)

http://www.cs.cmu.edu/afs/cs.cmu.edu/user/ehn/Web/release/BurroughsLetter.html

Og til hvers að vinna í fjóra tíma fyrir næsta skammti þegar maður getur stolið sér fyrir honum á þrem mínútum? Ég er ekki viss um að fólk í heróínvímu sé endilega í sem bestu ástandi til að svara þessari spurningu...

Sveinbjörn | 11.1.2007 kl. 17:01
Sveinbjörn

Grímur, þetta bréf Burroughs er hilarious! Takk fyrir hlekkinn!

Guðmundur D. Haraldsson | 11.1.2007 kl. 19:17
Guðmundur D. Haraldsson

Merkilegt hvað menn halda fast í þá trú að rökhugsun komist alltaf að - og það þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir fíkn, alvarlegum sjúkdómum og hvaðeina. Magnað!

Í hvaða heimi lifir þetta fólk?