Úff...

Var að enda við að vinna mér leið í gegnum 4 greinar um strúktúralisma og póststrúktúralisma, og það er hreint út sagt sláandi hvernig bandaríska Lit-Crit / Anthropology heimspekin / aðferðafræðiumræðan sækir í meginlandshefðina, þá sérstaklega þá frönsku (e.g. Levi-Strauss, Foucault, Derrida). Það virðist lítið sem *ekkert* sameiginlegt með þessu efni og rökgreiningarheimspekinni sem við skynsama fólkið stundum. Ég greini eftirfarandi einkenni:

  • Tilhneiging til þess að vitna í einhvern í hverri einustu málsgrein
  • Tilhneiging til þess að leggja mjög mikla áherslu á *sögu* hugmyndarinnar/vandamálsins sem verið er að ræða um, en ekki einungis röklegt form
  • Notkun á flóknum orðum eða jafnvel grísk-ættuðum nýyrðum, sem ekki eru skýrð (þ.e.a.s. gert er ráð fyrir að lesandinn sé kunnugur öllum verkum höfundar)
  • Tilvísanir í vafasamar sálfræðihefðir, t.d. Freud og Jung
  • Gríðarleg notkun á metafórum

Hugarheimur þeirra fræðimanna og heimspekinga sem vinna í þessari hefð hlýtur að vera *allt annar* heldur en minn eigin -- því ég á mjög bágt með að kreista út skýra merkingu. Akademíska menntunin sem liggur að baki hlýtur að vera allt önnur -- því þessi diskúrs er svo gersamlega snauður almennri skynsemi. En einhvern veginn finnst mér ekki sem minn heimspekilegi hugsanagangur sé afkvæmi þjálfunar minnar í rökgreiningarhefðinni -- því mér þótti hugtakarammi og hugsanagangurinn bak við rökgreiningarheimspeki svo sjálfsagður þegar ég hóf heimspekinám mitt, og þykir hann það enn. Ég get bara tekið undir með Ayer:

"Whenever I have occasion to study the work of contemporary French philosophers, like Sartre or Merleau-Ponty, I am struck by the very great difference which there is between their conception of the scope and purpose of philosophy and the conception which has come to prevail in England in the course of the last thirty years. In many ways, I think that the difference is to our advantage."[*]

Þetta minnir mig á sögu sem ég heyrði frá Þorsteini Gylfasyni. Ayer, í senn, hafði vist sagt honum þessa sögu -- Ayer hitti Merleau-Ponty eitt sinn í París, og þeir fóru að ræða heimspekileg málefni. Merleau-Ponty hélt því fram að tal um tilvist hluta utan mannlegrar reynslu af þeim hlyti að vera marklaust, en Ayer varði þá hugmynd að til væri heimur óhað mönnum og skynfærum þeirra. Eftir að hafa rifist um þetta án árangurs í dágóða stund, hvor með sinn eigin orðaforða úr sinni eigin heimspekihefð, varð þeim ljóst að ekkert miðaði áfram og ákváðu að gefa heimspekital upp á bátinn, fóru og fengu sér bjór og horfðu á fótboltaleik.