27.11.2006 kl. 01:26

Ég er að vinna að því að þýða Language, Truth and Logic eftir Alfred Ayer. Ég er kominn vel á leið með fyrsta kafla. Hérna er smá sýnishorn af fyrstu blaðsíðunum. Segið endilega hvað ykkur finnst -- íslenska er ekki mín sterkasta hlið. Ég vona bara að þetta sé ekki fullkomnlega barbarískt.

Hinar hefðbundnu deilur heimspekinga eru að mestu leyti óréttlætanlegar og árangurslausar. Tryggasta leiðin til að binda enda á þær er að staðfesta vandlega hver tilgangur og aðferð heimspekilegra rannsókna skuli vera. Og þetta er á engan hátt jafn erfitt viðfangsefni og ætla mætti af sögu heimspekinnar að dæma. Fyrirfinnist spurningar sem vísindin láta heimspekinni eftir, þá mun beinskeytt útilokunaraðferð leiða þær í ljós.

Við getum hafist handa með því að gagnrýna þá frumspekilegu tilgátu að heimspeki geti fært okkur þekkingu um veruleika handan heims vísinda og heilbrigðrar skynsemi. Síðarmeir, er við höfum höfum skilgreint frumspeki og gert grein fyrir tilvist hennar, munum við úrskurða það mögulegt að vera frumspekingur án þess að trúa á yfirskilvitlegan veruleika; því við munum sjá að margar frumspekilegar framsetningar eru sökum rökvillna, en ekki vegna meðvitaðrar ætlunar höfunda að yfirstíga takmörk reynslunnar. En það er okkur hentugt að taka sem byrjunardæmi, þá sem telja það mögulegt að öðlast þekkingu á yfirskilvitlegum veruleika. Við munum síðar sjá að þau rök sem við notum til að hrekja skrif þeirra eiga við um frumspekina gervalla.

Ein leið til að ráðast gegn frumspekingi sem segðist hafa þekkingu á yfirskilvitlegum veruleika handan hins skynjanlega heims væri að spyrjast fyrir um forsendurnar sem hann leggur til grundvallar staðhæfinga sinna. Er hann ekki knúinn til þess að hefjast handa út frá vitnisburði skynfæra sinna líkt og aðrir menn? Og ef málum er svo háttað, hvers konar gild röksemdafærsla gæti leitt hann að hugmyndinni um yfirskilvitlegan veruleika? Svo sannarlega gæti engin ályktun varðandi eiginleika eða tilvist handan reynslunnar verið dregin af forsendum sem ígrundast í reynslunni. En þessum mótrökum myndi frumspekingurinn svara með því að neita að fullyrðingar sínar væru endanlega byggðar á vitnisburði skynfæranna. Hann segðist gæddur innsæisgáfu sem gerði honum kleift að vita hluti sem ekki væri hægt að vita gegnum skynreynslu. Og þótt hægt væri að sýna fram á að hann reiddi sig á skynreynslu, og að vogun hans yfir í heim handan skynreynslunnar væri þ.a.l. rökfræðilega óréttlætanleg, þá myndi það ekki fylgja í kjölfarið að fullyrðingar hans um þennan yfirskilvitlega heim gætu ekki verið sannar. Því sú staðreynd að einhver niðurstaða fæst ekki af gefnum forsendum er ekki nóg til að sýna fram á að hún sé ósönn. Fyrir vikið getur maður ekki kollvarpað yfirskilvitlegu frumspekikerfi með því að gagnrýna hvernig það verður til. Það er öllu heldur nauðsynlegt að gagnrýna eðli þeirra setninga sem kerfið grundvallast á. Og þetta er sú leið sem við munum fara. Við munum halda því fram að engin setning sem vísar á 'veruleika' handan mögulegrar reynslu geti verið bókstaflega merkingarbær; fyrir vikið hefur strit þeirra sem lýsa slíkum veruleika orðið til þess eins að setja fram vitleysu.

Einhver kynni að stinga upp á því að Kant hafi nú þegar sannað þessa staðhæfingu. En þótt Kant hafi einnig gagnrýnt yfirskilvitlega frumspeki, þá gerði hann það á öðrum grundvelli. Hann sagði það vera mannlegum skilningi eðlislægt að tapa sér í þversögnum við það að hætta sér handan mögulegrar reynslu og fást við hlutina í sjálfum sér. Þannig gerði hann yfirskilvitlegrar frumspeki ómögulega sökum staðreynda, en ekki af rökfræðilegum ástæðum. Hann lagðist ekki gögn hugsanlegum mætti hugans til þess að brjótast handan hins skyjanlega heims, heldur sagði hann gjörsneyddan slíkum mætti. Ef þekking okkar takmarkast við skynreynslu þá vaknar eftirfarandi spurning: Hvernig er hægt að réttlæta staðhæfingar um tilvist raunverulegra hluta handan mannlegs skilnings, og hvernig er hægt að greina takmörk skilningsmáttarins án þess að yfirstíga þau sjálfur? Eins og Wittgenstein segir, 'Við getum ekki sett hugsuninni mörk nema við getum hugsað okkur það sem er handan markanna ekki síður en hitt sem er innan þeirra'. Þetta eru sannindi sem Bradley gefur nýjan brag með því að segja þann sem þykist sanna ómöguleika frumspekinnar vera frumspekibróður með eigin kenningu.

Hversu sterkt sem þessi mótrök kunna að vega gegn kenningu Kants, þá hafa þau lítin mátt gegn þeirri kenningu sem ég mun setja fram. Í þessu tilfelli verður ekki sagt að höfundurinn sjálfur stigi yfir þau takmörk sem hann segir óyfirstíganleg. Því árangursleysi þess að reyna að yfirstíga takmarkanir mögulegrar skynreynslu verður leitt af reglu sem ákvarðar bókstaflega merkingu tungumáls, en ekki frá sálfræðikenningu um eðli mannshugans. Við sökum ekki frumspekinginn um að beita mannlegum skilningi á sviði þar sem hann engan árangur ber, heldur um að setja fram setningar sem mæta ekki þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til þess að setning sé bókstaflega markbær.


3 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Grímur | 27.11.2006 kl. 09:16
Grímur

Alls ekki alslæmt. Á nokkrum stöðum klæjaði mig í fingurna að beita Rauða Pennanum (tm) á þig, en á heildina litið alveg óvitlaust. Og virðist amk. ekki verra en ýmsar aðrar þýðingar áður en prófarkalesarar hafa farið höndum (pennum) um þær.

Sveinbjörn | 27.11.2006 kl. 17:59
Sveinbjörn

Bentu mér á hvar Rauði Penninn (tm) skal falla

Grímur | 28.11.2006 kl. 10:16
Grímur

Heyrðu, heyrðu, heyrðu... Ertu búinn að taka út html formatting í kommentum? Uss, ég sem var búinn að formatta þetta svo fínt fyrir þig...
Nújæja, þá er það bara tölvupósturinn...

Svolítið mikið af krassi en hins vegar flest mjög smávægilegt, einhverjar innsláttarvillur, ensk kommusetning o.þ.h.

Tölvupóstur á eftir.