10.8.2006 kl. 17:33

Gunnar Jóhannesson prestur skrifar grein þar sem hann kennir félagslegan darwinisma við vísindahyggju. Nú þykist ég ekki vita hvað maðurinn meinar með "vísindahyggju", en það er bersýnilegt hverjum einasta þenkjandi manni að kenningin um þjóðfélagsskipan sem kallast félagslegur darwinismi hefur ekkert með þróunarkenningu Darwins að gera, er sögulegur fyrirrennari hennar, og er ekki í það minnsta vísindaleg. Vísindi fást ekki við gildismat -- þau geta t.a.m. ekkert sagt um siðferðislegar spurningar -- en félagslegur darwinismi felur einmitt í sér viss gildi, þ.e.a.s. að ákveðin samfélagstegund sé réttlát.

Ef ákveðin þjóðfélagsskipan filterar út fólk með eiginleikana A og B, þá segir það ekkert um hlutlægt ágæti viðkomandi eiginleika, því samfélagið mætti allt eins hátta þannig að eiginleikar A og B séu þróunarlega æskilegir. Hið sama á við um kenningu Darwins -- það er að öllum líkindum ekki þróunarlega æskilegt að vera hvítabjörn í Sahara eyðimörkinni eða kameldýr á norðurheimsskauti. Kenning Darwins segir ekkert um ágæti eða tilvistarrétt hvítabjörnsins eða kameldýrsins -- það er ekkert réttlátt við gang náttúrunnar, enda hugtak eins og réttlæti merkingarlaust utan siðferðisramma mannsins. Fyrir vikið er það fráleit vitleysa að halda því fram að "gildin á bak við vísindi" hafi leitt menn til félagslegs darwinisma -- það eru engin slík undirliggjandi gildi.

herbert spencer
Herbert Spencer

Ofan á það má bæta að félagslegur darwinismi er gjarnan kenndur við Herbert nokkurn Spencer, sem er höfundur frasans "Survival of the fittest". Kenningar Spencers eru flestar algjörlega út í hött -- t.a.m. trúði hann því, að mig minnir, að konur væru heimskari en karlar vegna blóðtaps við blæðingar. Hann kemst ekki að þessum niðurstöðum sínum með því að beita vísindalegum aðferðum eða gegnum tilraunir og rannsóknir. Fyrir vikið myndi ekki einn einasti vísindalega þenkjandi maður góðkenna þær, hvað þá kalla þær "vísindalegar".

Það sem öll vísindi vs. trúarbrögð umræðan snýst um, er fyrst og fremst lífsviðhorf. Vísindi geta ekki sýnt fram á að æðri máttarvald sé ekki til, enda ómögulegt að sanna neikvæða tilvistarsetningu. Vísindi er aðferðafræði, ekki lífsafstaða. En það er fyrst þannig sem hræsni trúaða mannsins kemur í ljós. Eins og heimspekingurinn Charles Sanders Peirce orðaði það, þá beita allir vísindalegri aðferð í daglegu lífi (sjá The Fixation of Belief); þegar bíll héraðsprestsins bilar þá biður hann ekki Guð um að laga vélina, heldur fer með hann á verkstæði líkt og aðrir menn; mismunurinn á hinum skeptíska manni gagnstætt hinum trúaða er sá að hinn skeptíski heldur sig við eina aðferðafræði til þess að gera upp um spurningar, á meðan sá trúaði beitir tveimur aðferðum, sem oft eru gagnstæðar.


4 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Aðalsteinn | 10.8.2006 kl. 22:45
Aðalsteinn

Tengillinn er á þína eigin síðu.

Sveinbjörn | 10.8.2006 kl. 22:51
Sveinbjörn

Takk fyrir ábendinguna, Alli, þetta er lagað núna.

Halldór Eldjárn | 14.8.2006 kl. 13:44
Halldór Eldjárn

Skemmtileg tilviljun, Sveinbjörn: http://maclantic.com/?p=1114

Strumpurinn | 17.8.2006 kl. 16:35
Strumpurinn

Bíddu... hvers vegna eru þá konur heimskari en karlmenn?

Kveðjur :)