Líffræði, stærðfræði, eðlisfræði, þekkingarfræði, bókmenntafræði, lífefnafræði, fyrirbærafræði, táknfræði, afbrotafræði, sálfræði, félagsfræði o.s.fv. -- listinn er langur. Hvað er að því að nota alþjóðlegu grísku heitin yfir fræðigreinar? Hversu mikið sem menn vilja þræta fyrir um það, þá er siðmenning Íslendinga, líkt og annarra evrópuþjóða, að mestu sótt í hinn gríska og latneska menningarheim fornaldar, sem og gyðingdóminn gegnum kristnitöku. Mér þykir ekkert athugavert við að sækja orð í þennan sameiginlega menningarstofn líkt og nágrannaþjóðirnar, enda slatti af slíkum orðum nú þegar til í íslensku. Sama gildir um tæknilegan og sérhæfðan orðaforða, sem festist aldrei í sessi sökum stærðar málsamfélagsins.


44 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Halldór Eldjárn | 31.7.2006 kl. 21:38
Halldór Eldjárn

Taktu eftir því, Sveinbjörn, að Íslenska er EKKI komin af rómönskum málum.

Sveinbjörn | 31.7.2006 kl. 22:02
Sveinbjörn

Nei, vá Halldór, ég vissi það ekki. Gott að þú getur frætt mig um svona torskildar og fákunnar staðreyndir ;).

En þá hljóta s.s. þýska, danska, sænska, norska, enska og finnska að vera rómönsk mál?

Þess má geta að gríska er ekki rómanskt mál, og því er þessi punktur þinn málinu alveg óviðkomandi. Að því undanskildu, þá sé ég ekkert athugavert við það að taka inn orð af rómönskum stofni, enda fullt af slíkum orðum þegar í málinu, sbr. kapella, sirkus, klaustur, ponta, postuli o.fl.

Árni | 1.8.2006 kl. 00:34
Árni

Hvaða orð viltu þá fá í staðinn fyrir íslensku heitin á þessum fræðigreinum?

Sveinbjörn | 1.8.2006 kl. 00:53
Sveinbjörn

Tjah, t.d. bíólógía fyrir líffræði, fýsík fyrir eðlisfræði, epistemólógía fyrir þekkingarfræði, krímínólógia fyrir afbrotafræði o.s.fv.

Sindri | 1.8.2006 kl. 12:59
Sindri

Ég er algerlega á móti þessu. Mér finnst ekkert mæla með því að kalla t.d. líffræði Bíólógíu, þetta er fræði lífsins og ætti því að heita líffræði. Þessar fræðigreinar eiga að hafa íslensk nöfn sem í senn lýsa hvers kyns fræðigreinin er.

Eðlisfræði mun heita eðlisfræði en ekki fýsík. SKAMM!

Sveinbjörn | 1.8.2006 kl. 13:20
Sveinbjörn

Hahaha, ég vissi að ég myndi æsa upp í fólki með þessari tillögu minni, enda ást á íslenskri tungu svo innprentuð í fólk ;)

Sindri | 1.8.2006 kl. 17:59
Sindri

Ég er ekki mikið æstur en bara dálítið. Það mælir einfaldlega ekkert með þessu, þannig að þetta er ekki góð tillaga. Ég vil halda íslenskunni eins hreinni og mögulegt er og forðast sem flestar slettur.

Halldór Eldjárn | 2.8.2006 kl. 00:53
Halldór Eldjárn

Djöfull ertu kaldur Sveinbjörn! Ég fæ hroll af menntahroka þínum sem lekur af þér eins og slý af fiski!

Líffræði - ef maður hefur ALDREI heyrt þetta orð áður, og maður talar bara íslensku þá getur maður allavega getið sér til um hvað þetta þýðir frekar en bíólógía. Athugaðu, tungumálið verður að ná til allra mislærðra hópa samfélagsins.

Steinn | 2.8.2006 kl. 11:15
Steinn

Ég sé persónulega enga ástæðu til þess að fara kalla líffræði bílógíu, mér finnst það eiginlega bara hljóma kjánalega. Mér finnst það sniðugt að kalla þessar fræðigreinar íslensum kotbóndanöfnum, eins og líffræði og annað slíkt. Það mætti alveg auka flóruna með að finna ný orð fyrir einhverjar sérhæfðar greinar, en að fara að kalla það einhverjum grískum heitum, það er nú bara minnimáttarsnobb.

Sveinbjörn | 2.8.2006 kl. 11:18
Sveinbjörn

Hahaha, góður Halldór.

Gegnsæi orða er ágætis hlutur, og ég ætla ekkert að mótmæla því. Hins vegar hefur séríslenskur orðaforði í hinum ýmsu fræðigreinum (þ.m.t. heimspeki) oft í för með sér hugtakarugling og samskiptaörðugleika þegar menn starfa með heimildir eða ásamt fólki utan Íslands, og verður gjarnan útblásinn og rembingslegur, þá sérstaklega þegar hann festist ekki í sessi (eins og t.a.m. flestallur svokallaði 'tölvuorðaforði' íslenskunnar)

Gunni | 2.8.2006 kl. 14:12
Gunni

Ertu að segja að vendihnappur sé ekki gott orð? ;)

Brynjar | 2.8.2006 kl. 15:10
Brynjar

ertu þá fílósófer, fílósófisti, fílósófingur eða jafnvel fílósófus ? :D

eða á þetta bara við um lógíurnar ?
Hér á árum áður var slík málnotkun talin til dönskuslettna og menn eins og þú húðstrýktir á almannafæri fyrir landráð og hollustu við baunakonung!

Annars er vendihnappur betra orð en margt annað Gunni :)
Íslenskt tölvumál er almennt á ágætlega skiljanlegu plani þegar frá er talin Íslenskunin á Windows XP stýrikerfinu, hún er afleit. Til dæmis vilja fróðir menn meina að orðið 'Niðurhala' vísi frekar til þess að sturta niður klósetti en að downlóda

Sveinbjörn | 2.8.2006 kl. 15:17
Sveinbjörn

Orðið 'sófisti' hefur lengi verið til í íslensku, ég sé ekki afhverju ég gæti ekki orðið fílósófisti, hehe.

Gunni | 2.8.2006 kl. 15:39
Gunni

Mér líst áægætlega á að vera sósíólóg, eða jafnvel sósíólógisti þó það sé óþjálla, eða jafnvel sósíósíensólógisti? ;)

Sveinbjörn | 2.8.2006 kl. 15:44
Sveinbjörn

Þú ert bara bannsettur sósíalisti! ;)

Halldór Eldjárn | 2.8.2006 kl. 16:58
Halldór Eldjárn

Sveinbjörn: Hins vegar hefur séríslenskur orðaforði í hinum ýmsu fræðigreinum (þ.m.t. heimspeki) oft í för með sér hugtakarugling og samskiptaörðugleika þegar menn starfa með heimildir eða ásamt fólki utan Íslands

Halldór: Hversvegna í ósköpunum sagðiru það ekki strax?

Gunni | 2.8.2006 kl. 17:03
Gunni

Yes, why do you not inform us of bleeding obvious truthisms!?!?

Sveinbjörn | 2.8.2006 kl. 17:05
Sveinbjörn

Tja, mér finnst það vera implicit í eftirfarandi setningu

"Sama gildir um tæknilegan og sérhæfðan orðaforða, sem festist aldrei í sessi sökum stærðar málsamfélagsins"

Ísland er lítill heimur.

Halldór Eldjárn | 2.8.2006 kl. 22:00
Halldór Eldjárn

Ég hef oft heyrt orðið sósíalisti og get ekki með nokkrum móti skilið hvað það þýðir.

Sveinbjörn | 2.8.2006 kl. 23:30
Sveinbjörn

Sósíalisti yfirfærist í grófum dráttum sem "félagshyggjumaður" á íslensku.

Halldór Eldjárn | 3.8.2006 kl. 00:17
Halldór Eldjárn

Sem ég skil, maður sem hugar að samfélaginu.

En sósíal gefur mér aðeins óljósa vísun í social sem er eitthvað félagstengt.

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 00:21
Sveinbjörn

Það er rétt -- en það er vegna þess að þér er einungis kunnugur sérsmíðaði íslenski orðaforðinn. Ef stofninn 'sósíal' væri viðtekinn í samfélaginu, þá myndu allir fatta tenginguna.

Halldór Eldjárn | 3.8.2006 kl. 00:46
Halldór Eldjárn

Ef ég kynni bara íslensku þá myndi ég skilja þetta - eða allavega geta ráðið gróflega í þetta, en sósíal myndi ég ekki kunna. Það er einfaldari leið að gera séríslensk orð sem almenningur skilur heldur en að byrja að kenna einhver orð sem greinilega eru ekki með íslenskum blæ.

Halldór Eldjárn | 3.8.2006 kl. 00:52
Halldór Eldjárn

Eitt sem ég gleymdi að bæta við: ég er ekki að banna þér og er ekki á móti því að þú notir t.d. bíólógía í staðinn fyrir líffræði, en með því værir þú að gera þig alveg einstaklega torskiljanlegan.

T.d.: "Ég veit ekki hvort ég ætti að fara og læra meira í bíólógíu eða epistemólógíu. En mér finnst fílósófían vera frekar líkleg."

Þetta er svipað og að við værum enþá að sletta úr dönsku, sem var nú í móð hér á árum áður: "um daginn var ég úti á altani að spýta á fortóið, kemur þá ekki pólítí og setur á sig vellyktandi. akkurat þá kemur afi á drossíunni með púnkteraðan hjólbarða. og þá mundi ég eftir því að ég þarf að skipta um betrekk!"

Mitt álit: ekki fallegt.

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 00:57
Sveinbjörn

Þú verður að reikna með því, Halldór, að þetta virkar skringilegt nákvæmlega vegna þess að maður er ekki vanur því. Ef þú værir vanur því að heyra þessi orð í almennri umræðu, þá þætti þér eflaust ekkert athugavert við þau. Hvað fagurfræðilegt gildi varðar, þá þykir mér persónulega frekar elegant að sækja orð í grískar og latneskar rætur. Það er að vissu leyti smekksatriði, en þá vil ég minnast á þá staðreynd að miklum áróðri fyrir málverndarstefnu og *íslenskun* er haldið uppi í íslenska menntakerfinu, og skýrir vafalaust íhaldssemi margra í þessum efnum -- Hver man ekki eftir þvælunni sem látin var ofan í mann: "íslenska er fallegasta og besta mál í heimi", "við erum öll komin undan norskum kongunum og hetjum", "hinn almenni íslendingur getur lesið hin fornu miðaldahandrit eins og ekkert sé", staðhæfingar sem eru bersýnilega ósannar.

Aðalsteinn | 3.8.2006 kl. 00:57
Aðalsteinn

Ef menn fást við félagsfræði eða sósíológíu þá yrðu þeir líklega sósíolókar. Það gengi ekki svo menn þyrftu að nota sósíologisti sem er ekki fallegt.

En ég tek undir að í fræðilegum hugtökum er þetta oft mjög ruglandi. Svo virðist oft sem menn sættist á að nota íslenskt orð sem er þó einungis nálæg þýðing en ekki algjör. Ef ég tek dæmi úr málvísindum þá er 'morfólógía' venjulega kölluð "beygingarfræði". Íslenska heitið ber þá með sér að þetta sé svið sem fæst við beygingar. En það vill svo til að morfólógía (af gríska orðinu 'morph' sem þýðir nokkurn veginn 'mynd') fæst við fleira: orðmyndunarfræði og orðhlutafræði. Rétt íslensk þýðing er þá beyingar-, orðhluta- og orðmyndunarfræði...

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 01:06
Sveinbjörn

Ástandið í heimspekinni er líka skammarlegt. T.a.m. þá er "empiricism" þýtt sem "raunhyggju", en þá hafa menn lent í vandræðum með "realism" -- hvað er það, "raunveruleikahyggja"? "pragmatism" er gjarnan þýtt sem "verkhyggja", en ég hef einnig séð aðrar klunnalegar myndir. Þetta eru bara örfá dæmil. Ég veit að í sálfræðinni þá kaupa nemar hugtakaorðabók þar sem hægt er að fletta upp ensku fræðiheitunum og fá klöngurslegu samsvarandi íslensku heitin....sá þetta allavega hjá honum Guðmundi.

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 01:10
Sveinbjörn

Þessi umræða minnir mig á eitt -- hún móðir mín er sérfræðingur í taugalækningum, og hún og samstarfsfélagar hennar tala ávallt um sig sín á milli sem 'nevrólóga' sem stunda 'nevrólógíu'.

Halldór Eldjárn | 3.8.2006 kl. 01:31
Halldór Eldjárn

"íslenska er fallegasta og besta mál í heimi" ættir þú ekki að telja sem staðreynd sem ER ósönn heldur skoðun sem ÞÚ ert á móti.

Og hvað voru norsku hetjurnar þá? Voru þeir úrþvætti og ógeð sem höfnuðu á lítilli eyju og skrifuðu bækur sem fáir Íslendingar nú til dags geta lesið úr?

Hvað er svona bersýnilega rangt við þessar staðreyndir sem þú telur upp?

Steinn | 3.8.2006 kl. 01:36
Steinn

Já það er gott að vera typpi eða lókur. Steinn Linnet, lókur. Eða ekki, fokkings sagnfræði.

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 01:42
Sveinbjörn

Hún fer hættulega með sannleikann þessi blessaða þjóðarást, Halldór.

Vissulega, eins og ég segi, þá er það smekksatriði hvort íslenska sé fegursta og besta mál í heimi. Hins vegar tel ég sem svo, að ef *einhver* hlutlægur mælikvarði fyrirfinnst um fagurfræðileg málefni, þá hljóti nú að vera tungumál sem er fallegra en íslenskan.

Hvað norsku hetjurnar snertir, þá voru mikið af þessu liði sem kom á annað borð frá Noregi glæpamenn sem úthýst var úr heimalandi sínu fyrir hvert morðið á eftir öðru (t.a.m. Eiríkur rauði og Ingólfur karlinn Arnarson, bölvuð sé hans óþarfsama fundvísi ;). Stór hluti af íslenska stofninum eru undan írskum þrælum kominn, ef marka má genetískar rannsóknir og greiningar á blóðflokkum, enda íslenskir karlmenn gjarnan rauðbirknir í skeggrót.

Og veistu það, svei mér þá Halldór, ég held bara að þrátt fyrir alla þessa skólagöngu, þá les ég ekki óbreyttan texta úr Flateyjarbók "eins og ekkert sé", heldur þarf ég að vinna mig í gegnum þetta hægt og rólega, með orðskýringar og annað við hendina. Ég tala auðvitað einungis af eigin reynslu, en þykir ósennilegt að hinn almenni Íslendingur renni í gegnum handritinu fornu líkt og Dan Brown reyfara.

Halldór Eldjárn | 3.8.2006 kl. 01:49
Halldór Eldjárn

(t.a.m. Eiríkur rauði og Ingólfur karlinn Arnarson, bölvuð sé hans óþarfsama fundvísi ;).


Ef hann hefði ekki fundið Ísland, þá værum við ekki að rífast um hann núna. Vertu þakklátur fyrir að lifa á Íslandi - þú veist ástæðurnar. Og það sem Ísland gefur þér þarft þú að launa til baka með því að pússa gimsteininn sem íslensk tunga er. Skín þú áfram, mikli demantur.

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 02:02
Sveinbjörn

Hahahaha, þetta var nú bara brandari, Halldór, og tilvísun í skemmtilegt lag eftir hann Megas, "Um óþarfsama fundvísi Ingólfs Arnarsonar", þar sem karlinn syngur um hvernig hræðurnar hér hafa skrimt og hrokkið.

Það er vissulega margt ágætt við Ísland, en ég get alveg hugsað mér betri staði. Það sem gerir það gott að lifa á Íslandi eru voða svipaðir hlutir og gera það gott að búa á hinum ríku vesturlöndum á annað borð -- nema auðvitað að hér sýgur veðrið, bjórinn dýr og fólk kann ekki mannasiði.

Íslandi væri sennilega best launað með því að fá fólk til að flytjast endanlega hér af landi brott og þyrma Skerinu fleiri bárujárnsskúrum, framsóknarmönnum og álverum þeirra. En við viljum það auðvitað ekki -- Við erum nú einu sinni mannverur og viljum riðlast á greyinu okkur til hagsmunabóta, gimsteinar eða ekki.

En annars held ég að gimsteinninn verði gljáandi og fínpússaður á meðan farandriddarar á borð við þig halda uppi fyrir honum sverði og skjöld, Halldór, og ég meina það ekki í kaldhæðni.

Halldór Eldjárn | 3.8.2006 kl. 02:12
Halldór Eldjárn

Hehehe, vissulega var þetta brandari sem ég sagði en tilvitnun í allt annað lag - "Shine on, you crazy diamond" með Bleiku flóðji.

Annars þá berzt ég við að pússa burt óhreinindin sem þú setur á þennan litla, en verðmæta demant ;)

Halldór Eldjárn | 3.8.2006 kl. 02:19
Halldór Eldjárn

Og btw, þessi færsla þín hefur flest "comment" af öllum á síðunni þinni, en nú ætla ég að fara að sofa og augljóst að heimspekinámskeiðið sem ég fór á hefur borgað sig þar sem ég náði m.a. að skilgreina stól - s.s. hvað gerir stól að stól:

Stóll er upphækkaður pallur á þremur eða fleiri fótum ætlaður til setu með baki eða ekki.

Bezta skilgreiningin var reyndar frá samnemanda mínum:

Samnemandi: Stóll... já stóll.. Bara... hlutur sem hefur fjórar fætur og bak.

Ég: Hundurinn minn hefur fjórar fætur og bak, er hundurinn minn þá stóll?

Nei hann er það ekki og þetta sýnir hvað er hægt að ræða málin fram og aftur með hjálp heimspekilegra aðferða. Ég segi mig hérmeð úr þessu ánægjulega samtali sökum þreytu en enganveginn úr baráttunni. Hún mun halda áfram!

Sigurgeir Þór | 3.8.2006 kl. 02:58
Sigurgeir Þór

Myndi maður ekki kalla félagsfræðing sósíalista skv. þessu kerfi þínu? Hvað myndi maður þá kalla hagfræðing, kapítalista? Þetta kerfi ruglar mig...

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 11:09
Sveinbjörn

Það eru engir sósíalistar eftir á Íslandi (góðærið hefur étið þá alla) þannig að mér líst prýðilega á þessa tillögu þína um að yfirfæra orðið yfir á félagsfræðinga, Sigurgeir. Annars legg ég síðan til að hagfræðingar verði kallaðir http://en.wikipedia.org/wiki/Dismal_science">Dismaloscientologistar. ;)

Aðalsteinn | 3.8.2006 kl. 12:55
Aðalsteinn

Ég er sósíalisti! En þó enginn félagsfræðingur.

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 13:02
Sveinbjörn

Það myndi nú ekki ganga að kalla alla hagfræðinga kapítalista -- Marx karlinn var nú hagfræðingur, og það væri hin mesta travestía að kenna manninn við Kapítal ;)

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 14:37
Sveinbjörn

Halldór, þessi skilgreining þín á stól sem "upphækkaður pallur á þremur eða fleiri fótum ætlaður til setu með baki eða ekki" stenst eiginlega ekki -- hugsaðu t.d. um Dr. Evil stólinn hans Ara -- hann stendur bara á einni löpp. Síðan eru aðrir stólar sem eru eins og Z í laginu frá hlið, standa bara á tveimur löppum.

Annars gott að sjá svona mikilvægt og grípandi fílósófískt vandamál tekið fyrir -- hvað eigum við að ræða um næst? Hversu mörg hár maður þarf að hafa á höfðinu til þess að vera ekki sköllóttur?

Brynjar | 3.8.2006 kl. 14:55
Brynjar

Skallastig er ekki mælt í fjölda hára heldur fjölda mælanlegra lúmena í ljósendurvarpi frá höfði sem er lýst upp að ofan með 100 watta glóperu.

Sveinbjörn | 3.8.2006 kl. 14:58
Sveinbjörn

Hahahaha, brilliant hugmynd Binni. Brilliant!

Grímur | 3.8.2006 kl. 15:47
Grímur

Ég held að utan samfélaga faglærðra yrði þessi hugmynd um að taka upp alþjóðleg fræðiheiti til trafala. Mér segir svo hugur um að í flestum þeim löngum þar sem slíkt viðgengst séu mörg þeirra orða sem notuð eru til að mynda fræðiheitin góð og gild á eigin forsendum. Ekki svo með íslenskuna.

Félagsfræði, til dæmis. Orðið "sósíal" hefur til að mynda verið innlimað í ógurlegan fjölda mála, en hér á landi er þetta eingöngu sletta.

Ég held a.m.k. að þessu sé ekki verr farið svona heldur en á hinn veginn. Á þennan hátt liggur (vonandi í flestum tilfellum) nokkuð í orðanna hljóðan hvað átt er við - og ef fólk þarf eitthvað að vera að eiga samskipti við útlendinga um hálærð viðfangsefni þá ætti þeim sem kæra sig um slíkt ekki að verða skotaskuld úr því að læra alþjóðlegu heitin líka, úr því þau eru svona hrikalega klár.

Hvað skallastig varðar: Þarf ekki að koma til aukaskilyrði til að koma í veg fyrir að skallastig fari eftir bleytu? Verður þetta ekki að vera mælt við staðalaðstæður?

---

Því segi ég skál fyrir Fróni & Fjölni & allt það
& firðum snjöllum sem hér hafa skrimt og hrokkið
við minnumst Ingólfs Arnarsonar í veizlum
en óskum þess að skipið hans það hefði sokkið

Halldór Eldjárn | 3.8.2006 kl. 19:49
Halldór Eldjárn

Þetta er ekki "Dr. Evil stóll frá Ara". Þetta var gjöf frá finnska forsetanum til afa og fínasta hönnun. Annars, þá myndi ég ekki kalla þetta löpp - heldur pall sem hefur sambærilegan burðarkraft og 4 fætur hefðu.

Æji, ég veit ekki, er bara að reyna að bulla mig útúr þessu, auðvitað hefurðu rétt fyrir þér Sveinbjörn, eins og alltaf.

Ég sé alveg fyrir mér þig að gúgla: stóll með einn fót :D