Hreyfill

Leigubílar í Reykjavík og Kaupmannahöfn kosta mikinn pening -- á annatímum eru of fáir til þess að svara eftirspurn, en á daginn hafa bílstjórarnir ekkert að gera. Ákveðnir menn sitja á úthlutuðum "leigubílaleyfum", sem eru forsenda þess að aka megi fólki löglega um gegn gjaldi, og svo er málum háttað að margir þeirra leigja út leyfið sitt til annarra. Mér þykir þetta með eindæmum heimskulegt og á allan hátt óréttlætanlegt ástand -- ríkið skapar hér einhvers konar "artificial" skort og mónópólíu sem ætti sér ekki stað án þessara grátlega heimsku afskipta af markaðinum, sem þjóna því hlutverki einu að vernda ákveðna stétt frá heilbrigðri samkeppni.

Eftir því sem ég fæ best séð, þá væri það hin mesta bót að afnema allar reglugerðir um leigubílaakstur -- leyfa öllum sem hafa ökuréttindi á annað borð að stunda akstur gegn gjaldi, og jafnframt gera mönnum það kleyft að þiggja far gegn gjaldi hjá þeim sem þeim sýnist. Það eru góðar ástæður til þess að ætla að leigubílaþjónustu í Reykjavík yrði töluvert ódýrari án ríkisafskipta. Svo lengi sem leigubílstjórar greiða sína skatta lögum samkvæmt, þá er svona rekstur eins og hver annar.

Við þetta má bæta að það er mér og flestum kúnnum ekkert hjartans mál hvort bílstjórar aki um í ryðguðum Trabant eða Mercedes-Benz. Ég nýti mér þessa þjónustu til þess að komast frá A til B. Það er tæpast ástæða fyrir gæðaeftirliti umfram það sem gildir um almenna einkabíla. Vilji menn ferðast um í fínum bifreiðum er þeim frjálst að bera kostnaðinn af því sjálfir.

athens taxis

Það er skammarlegt að haldið sé uppi vernd fyrir leigubílstjórastéttina, sem er fullkomnlega fær um að sjá um sig sjálfa í heilbrigðu markaðsumhverfi. Enn fremur er hér ekki um að ræða neina sérstaka samfélagslega hagsmuni, sanngirnissjónarmið eða almennt öryggi.

Þegar ég var búsettur í Aþenu í Grikklandi sumarið 1998 dáðist ég að skynsamlegum ferðamáta borgarbúa. Göturnar eru þaktar leigubílum -- annar hver bíll ber gula einkennislitinn. Bílarnir eru hræódýrir, tiltölulega snöggir um borgina, og taka upp fleiri en einn farþegahópinn ef höfðað er í sömu átt. Fyrir vikið komst ég fram og til baka um alla borgina í leigubílum án vandkvæða þótt ég væri blankur. Hvers vegna er hlutum ekki leyft að þróast í sömu átt í Reykjavík? Vegna vanhæfni stjórnenda og sérhagsmunabrasks.


17 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Steinn | 21.7.2006 kl. 19:25
Steinn

Já, ég er sammála þér upp að vissu marki. Ég tel það reyndar mjög mikilvægt að leyfa ekki hverjum sem er að aka leigubíl og þess vegna þurfa þeir sem það vilja að taka meira próf. Síðan finn ég mikið öryggi í því að leigubílar séu merktir þannig að öryggi neitandanna sé tryggt (töskuþjófnaður hefur verið vandamál í borgum þar sem mikið er um "scam" leigubíla). Annars er ég á móti Hreyfli, sem af einhverjum ástæðum er í uppáhaldi hjá ríkinu! Nota alltaf BSR.

Sveinbjörn | 21.7.2006 kl. 19:31
Sveinbjörn

Ef þú heldur að það sé einhver munur á Hreyfli og BSR þá er um misskilning að ræða -- það er engin alvöru samkeppni þarna á milli, enda prísarnir þeirra nákvæmlega þeir sömu.

Hvað "scams" snertir, þá er engin ástæða til þess að ætla að leigubílastöðvar leggist niður þótt núverandi leyfakerfi falli frá. Þvert á móti, þá mætti ætla að bæði Hreyfill og BSR myndi halda áfram að starfa, og seldu leigubílstjórum "gæðastimpilinn" sinn, sem og símaþjónustu.

Sveinbjörn | 21.7.2006 kl. 19:41
Sveinbjörn

Ef að leigubílstjóri frá Hreyfli myndi svindla á þér í dag -- t.d. stela töskunum þínum -- þá myndir þú snúa þér að rekstraraðilum Hreyfils og leita réttar þíns. Samskonar ferli myndi eiga sér stað undir frjálsu fyrirkomulagi.

Hvað meira próf varðar, þá hef ég oft keyrt lengri vegalengdir með farþega í bíl hjá mér, og ekki saknaði ég meira prófsins. Ef að Jón Jónsson með venjulegt bílpróf getur keyrt um með farþega án þess að taka fyrir það gjald, þá sé ég enga ástæðu af hverju hann ætti ekki að fá að gera það *gegn* gjaldi. Og ef það reynist vera eftirspurn eftir bílstjórum með meira próf, þá munu margir bílstjórar hiklaust fá sér slíkt og birta sönnunargögn þess efnis í bifreiðinin hjá sér -- og rukka meira fyrir aksturinn fyrir vikið.

Doddi | 22.7.2006 kl. 11:19
Doddi

Það geta alls konar fávitar náð bílprófi, en ég tel að menn verði einhvern veginn að sýna fram á ákveðna aksturshæfni áður en þeir taka upp þá atvinnu að keyra fólk gegn gjaldi. Meirapróf eða ekki, amk einhvers konar sönnun á hæfni þeirra. Sammála að öðru leyti.

Aðalsteinn | 22.7.2006 kl. 11:58
Aðalsteinn

Hvað læra menn til að fá meirapróf? Læra þeir eitthvað annað en að aka stórum ökutækjum (spyr sá sem ekki veit)? Spurning hvort það hefur eitthvað að gera með það að geta ekið venjulegum bíl "vel".

Sveinbjörn | 22.7.2006 kl. 15:34
Sveinbjörn

Sú staðreynd að alls konar fávitar geti náð bílprófi er auðvitað bara vandamál með bílprófið sjálft, og hefur ekkert að gera með leigubílaakstur. Mér finnst alveg sjálfsagt, ef vanhæfir bílstjórar ná prófinu, að skilyrðin séu hert.

Þess utan sé ég ekki hvernig það er munur á því að keyra farþega gegn gjaldi vs. það að keyra farþega án þess að rukka. Við erum að tala um formlegan mismun eingöngu -- í eðli sínu er þetta nákvæmlega það sama. Ég held að þetta meira próf hafi ekkert að segja. Að því undanskildu sem Aðalsteinn segir, þá þykir mér leigubílstjórar ekkert betri bílstjórar heldur en hvað annað fólk, meira próf eður ei.

Arnaldur | 22.7.2006 kl. 22:49
Arnaldur

Já, þá myndu líka færri keyra fullir og drepa sig og aðra. Mætti kalla þetta fyrirhyggjupólitík. Þá væri Öku-Eyþór jafnvel ennþá oddviti. Eða, nei bíddu...
...Hann er fáviti.

Arnaldur | 22.7.2006 kl. 22:52
Arnaldur

Annars held ég að stóra vandamálið hér er að það er alltof erfitt að innheimta tekjuskatt af fólki sem stundar leigubílaakstur, ef að það eru engin fyrirtæki sem að hægt er að ganga beint að. Einnig vakna spurningar um atvinnuöryggi, skyldusparnað etc.

Ekki það að það hefur ekki hindrað fjölda fólks frá að harka um helgar.

Aðalsteinn | 23.7.2006 kl. 10:24
Aðalsteinn

Ég er ekki svo viss um það, Arnaldur. Leigubílaakstur verður auðvitað að vera háður leyfi eins og annar atvinnurekstur. En leyfi ætti að vera auðveldara að fá. Og sá sem hefði leyfi ætti varla að komast upp með það að telja ekkert fram til skatts.

Sveinbjörn | 24.7.2006 kl. 12:48
Sveinbjörn

Ég held að þetta hafi *ekkert* að gera með tekjuskattsinnheimtu, Arnaldur. Það er fjöldinn allur af stéttum sem eru sjálfstæðir atvinnurekendur.

Steinn | 26.7.2006 kl. 10:16
Steinn

Mér finnst stór munur vera á því að aka fólk gegn gjaldi og að vera að skutla fólki! Ég er ekki sammála því að hver sem er geti, ef honum dettur í hug, farið að aka leigubíl, það verða að vera einhver skilyrði önnur en að hafa almennt ökuleyfi. Einnig finnst mér ágætt að hafa leigubílafyrirtæki sem halda þessu einhvern veginn til haga. En ég er ekki sammála núverandi stefnu þar sem Hreyfill, ekki BSR, sér næstum því um það að veita leyfi til leigubílstjóra (af einhverjum ástæðum eru Hreyfill með sínar skítugu krumlur í leyfisveitingum). Skattinnheimta ætti ekkert að vera öðruvísi en hjá sjálfstæðum verktökum, en þeir eru auðvitað háðir leyfum þ.e.a.s. ökuréttindum, sveinsprófum o.s.fr. Mér er annars skít sama hversu margir leiguílstjórar eru í Reykjavík og mér er skít sama hvort þeir keyra til Keflavíkur (leigubílafyrirtæki hafa einkarétt á svæðum á Íslandi), bara svo framarlega sem ég þurfi ekki að selja sál mína þegar ég neyðist til að taka leigubíl!

Sveinbjörn | 26.7.2006 kl. 11:19
Sveinbjörn

Værirðu til í að tilgreina hver sá munur er, Steini? Af hverju ætti ekki hver sem er að geta ekið leigubíl?

Það er ekki nóg að "finnast" eitthvað, "af því bara" -- það verða nú að koma ástæður og réttlætingar.

Steinn | 26.7.2006 kl. 12:54
Steinn

HA?!?!?! Er ekki nóg að finnast?!?!? Mín skoðun þarf ekki að vera meira rökstudd en það að mér finnist eitthvað! Ef þú endilega vilt vita það þá tel ég það ekki vera öruggt fyrir þá sem treysta á þessa þjónustu að einhver sem er búinn að missa ökuleyfi útaf t.d. ölvunarakstri sé að aka mér. Mér er sama hvort menn geri eitthvað óvart einu sinni eða hvað ég vil hafa einhverja tryggingu fyrir því að sá sem ekur mér sé öruggur bílstjóri, markaðurinn getur ekki tekið á því bara með lögmáli framboðar og eftirspurnar. Ekki nema að þú laumir á einhverju svaka sniðugu kerfi sem þú vilt ekki láta í té?

Sveinbjörn | 26.7.2006 kl. 13:04
Sveinbjörn

Þetta er gott dæmi hjá þér -- en mér finnst að ef mönnum er treystandi til þess að aka á annað borð, þá er þeim treystandi til þess að aka með farþega. Hættulegur bílstjóri er mest hætta gagnvart *öðrum* í umferðinni -- þeir sem eru farþegar fóru allavega upp í af fúsum og frjálsum vilja.
Enn fremur, þá finnst mér að ef e-m manni er treystandi til þess að aka með farþega, þá er honum treystandi til þess að aka með farþega gegn gjaldi.

Þegar ég stíg inn í leigubíl í dag, þá hef ég ekki minnstu hugmynd um hvort viðkomandi bílstjóri hafi nokkru sinni verið tekinn við ölvunarakstur. Það hvílir á ákveðnu trausti, eins og öll þjónusta sem maður kaupir sér -- t.a.m. að það hafi ekki verið hrækt í Hlöllabátinn, og að kokkurinn á Holtinu hafi ekki snýtt sér í ostasósuna.

En fyrir minn part, þá er ég viss um að leigubílastöðvar myndu vafalaust vera með quality control á þeim bílstjórum sem þeir tækju við sem viðskiptavinum, líkt og í öðrum atvinnugreinum. Það væri of mikið hrap í almenningsáliti ef það spyrðist út að þeir væru að taka til sín vanhæfa bílstjóra.

Gunni | 27.7.2006 kl. 10:50
Gunni

Markaðurinn semsagt sér um þetta? ;)

Sveinbjörn | 27.7.2006 kl. 11:17
Sveinbjörn

Já. Mér finnst að afstaða ríkisvaldsins ætti að vera mjög skýr í þessum efnum: menn eru færir um að aka farþegum eða ekki -- þ.e.a.s. þeir standast einhver lágmarks skilyrði sem ríkið setur til þess að menn megi aka farþegum. Hver þau skilyrði eiga að vera er önnur spurning, og það má ræða um hvort skilyrðin séu nægilega ströng í dag. Hins vegar þykir mér absúrd að lagalegu skilyrðin breytist strax og peningar koma inn í myndina -- fæ ekki séð hvernig það hefur nokkurn skapaðan hlut við málið að gera.

Sveinbjörn | 28.7.2006 kl. 12:07
Sveinbjörn

Já, úps, Halldór, ég er alltaf með svona development útgáfu í gangi á vefnum mínum til þess að prufa hana...

Einhver böggur þarna.