Í gær fór ég út úr borginni með föður mínum, upp í sumarbústaðinn okkar Moskvu. Faðir minn hefur keypt veiðileyfi fyrir Meðalfellsvatn, vatnið sem bústaðurinn stendur við, og hefur verið spenntur að nýta það. Fyrir vikið þá settum við mótorinn á gamla bátinn og fórum út á vatnið að veiða með spúnum -- fyrsta skipti sem ég veiði síðan ég var krakki.

Eftir dágóða stund beit fiskur á hjá mér, og ég dreg línuna inn -- það var lítill silungstittur. Krókurinn var fastur í kjaftinum á honum. Ég greip um silunginn fyrir aftan tálknin og fann skyndilega hrikalega til með greyið fiskinum, sem streitaðist þarna og þjáðist, blóð lekandi út úr honum. Samstundis reyndi hugurinn að réttlæta morð á fiskinum með kartesískum rökum -- "fiskurinn er bara átómaton -- stimulus-response maskína", "hann hefur ekki tilfinningar" -- en leiðrétti sjálfan sig strax, "gögnin sem ég hef fyrir því að menn þjáist eru ekkert mikið sterkari en gögnin fyrir því að fiskar þjást", "Hvaða djöfulsins homocentrismi er þetta í þér, Sveinbjörn? Hvað hefur fiskurinn gert þér?. Ég var með hálfgert andlegt óbragð.

Ég reyndi að losa krókinn eins varlega og ég gat, án þess að skemma neina vefi, og kastaði fiskinum aftur út vatnið. Mér varð þá hugsað til þess hversu mikill aumingi ég er orðinn -- aldrei kippti ég mér upp við þetta sem krakki. Og það sem verra er, ég er bölvaður hræsnari, því kvöldið áður át ég ljúffenga sushi máltíð.


2 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Siggi | 12.7.2006 kl. 21:22
Siggi

Aaahh.. sushi er snilldar matur.