28.4.2006 kl. 21:05

Ég gæti ekki verið meira hjartanlega sammála Arnaldi: Nýjasta Stúdentablaðið er alveg agalegt. Mig hryllir við tilhugsuninni um að hluti af skráningargjaldi mínu fari í að greiða fyrir útgáfuna.

Það sem fór þó sérstaklega fyrir brjóstið á mér var grein sem hélt því fram að kapítalisminn beitti ritskoðun og hefti tjáningarfrelsi á hátt sem bera mætti saman við Sovétríkin. Höfundur greinarinnar virtist hafa afskaplega takmarkaðan skilning á því ritskoðun og málfrelsi fela í sér. Ég er með smá skilaboð handa honum:

Málfrelsi gefur þér rétt til að tjá þig -- ekki rétt til að láta gefa þig út, og svo sannarlega ekki rétt til þess að aðrir hlusti á þig.

Mér finnst ótrúlegt að þessi greinarmunur fari fram hjá fólki. Í flestum vestrænum lýðveldum er mönnum frjálst að segja það sem þeim sýnist (með nokkrum *skammarlegum* undantekningum) -- þér er því frjálst að koma hvaða boðskapi eða skilaboðum sem þér sýnist á framfæri. Hins vegar er engum skylt að hlusta á þig, eða hjálpa þér að miðla skilaboðum þínum. Markaðsskipulagi þannig háttað að ef fjöldi fólks hefur virkilega áhuga á að heyra það sem þú hefur að segja, þá reynist að öllu jöfnu auðvelt að fá menn með yfirráð yfir útgáfumiðlum til þess að hjálpa þér.

Og ef það sem þú hefur að segja reynist ógeðfellt þeim sem stjórna útgáfumiðlum, þá er þér frjálst að koma slíkum miðli á laggirnar sjálfur. Auðvitað krefst slíkt fjárfestingar, en í dag er auðveldara en nokkru sinni fyrr að reka eigin fjölmiðil. Hvaða blábjáni sem er getur opnað "blogg" vef og komið sínu til skila.

Því er allur samanburður við Sovétríkin hinn hreinasti brandari, og ber vott um grundvallarmisskilning á eðli ritskoðunar. Það eina sem er sambærilegt við Sovétríkin í núverandi skipulagi hvað málfrelsi varðar eru þessi hneysklanlegu nýju lög sem banna mönnum að halda því fram að fólk af öðrum kynþáttum eða kyni séu óæðri. Ég er sammála Mill:

The peculiar evil of silencing the expression of an opinion is, that it is robbing the human race; posterity as well as the existing generation; those who dissent from the opinion, still more than those who hold it. If the opinion is right, they are deprived of the opportunity of exchanging error for truth: if wrong, they lose, what is almost as great a benefit, the clearer perception and livelier impression of truth, produced by its collision with error. John Stuart Mill, On Liberty, 1859

Að banna slíkar hugmyndir er afskaplega heimskulegt. Sú staðreynd að lýðræðislega kjörin ríkisstjórn setji lög sem banna einhverja ákveðna hugmyndafræði gefur til kynna að hugmyndin eigi þegar undir högg að sækjast, og þjónar fyrir vikið ekki þeim tilgangi sem lagasetjarar ætla þeim. Þess utan setur það slæmt fordæmi.