13.4.2006 kl. 20:19
Cigarette

Þegar ég var á fyrirlestraröðinni á Akureyri, þá sagði ég við einn fyrirlesarann, sem var að fjalla um siðfræði, að ég teldi að siðfræði og siðferði mætti að miklu leyti skýra á Darwinistískan hátt með hjálp þróunarkenningarinnar. Hvorki fyrirlesarinn né Mike, sem er 'dean' við Háskólann á Akureyri, voru neitt sérstaklega impóneraðir af þessari hugmynd. Eftir fyrirlesturinn fór ég síðan út og kveikti mér í sígarettu. Mike kom röltandi fram hjá og sagði við mig eitthvað á borð við "Það er merkilegt að sæmilega skynsamur ungur maður eins og þú skulir reykja. Hvernig útskýrirðu það út frá þróunarkenningunni?".

Smoking man

Ég hugleiddi þetta í dálitla stund, og sagði síðar við hann: "Mike, ég er með svar við spurningunni þinni. Heilsuáhrif reykinganna kýla fyrst inn af einhverju viti þegar maður er að mestu kominn fram yfir barnseignaraldur. Fyrir vikið hafa reykingar takmarkaðan áhrif á fitness í þeim skilningi að koma genum sínum áfram. Þess utan gætu reykingar gefið manni ákveðið panache sem gerir það auðveldara að maka sig." Þetta var auðvitað frekar mikið bull -- en svarið hans Mike þótti mér fyndið: "Hvernig útskýrirðu þá reyklaust fólk?". Þá sagði ég: "Hafðu ekki áhyggjur, þið eruð að filterast út".

En, að öllu gamni slepptu, þá er ég í grófum dráttum sammála þessari grein -- skattlagning á tóbak er djöfulsins kjaftæði. Þar að auki er allt tal um aukin kostnað kerfisins af reykingafólki lygi -- engar áreiðanlegar rannsóknir sýna fram á þetta. Heilbrigð skynsemi segir mér að undir núverandi fyrirkomulagi þá sé reykingafólk bestu ríkisþegnarnir. Við greiðum gríðarlegar fjárupphæðir í ríkiskassann gegnum tóbaksskattinn, og deyjum nokkurn veginn á þeim aldri sem við förum út af vinnumarkaðinum. Fyrir vikið spörum við heilbrigðiskerfinu 20 ár af gamalmenniskvillum, og minnkum það hlutfall af samfélaginu sem ekkert framleiðir en neytir þeirrar þjónustu sem ríki býður upp á.


6 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Árni | 14.4.2006 kl. 13:53
Árni

Smá factoids:

Það sem reykingarfólk greiðir í ríkiskassann á hverju ári gegnum skatta er um 3,5 milljarður.

Síðan 1994 hafa seldir sígarettupakkar á hvern einstakling yfir 15 ára aldri lækkað úr 95 í 69.

Fyrir utan allt þetta þá er ekki hægt að deila um góðu hlutina sem tengjast því að hætta að reykja, þ.e.a.s. mun betri svefn, verður mun síður þunnur, hefur meiri úthald, betri einbeiting etc etc.

Sveinbjörn | 14.4.2006 kl. 14:42
Sveinbjörn

Smá athugasemdir:

Fjárlögin 2006 áætla tekjur af tóbakssölu verði upp á 3730 milljónir, eða um 2,5% af öllum sköttum á viðskipti með vörur og þjónustu. Þetta kann að hljóma lítið með fjárlög upp á rúmlega 300 milljarða, en ef þú reiknar þetta á hvern reykingamann sem einstakling, þá er hann að greiða substantially meira í ríkiskassann.

Það hefur bara fundist tenging milli verðs og reykinga unglinga -- engar konklúsívar niðurstöður sýna að þeir sem hafa reykt til lengri tíma láti tóbaksverð hafa umtalsverð áhrif á reykingarnar sínar. Minnkaðar reykingar má þá heldur rekja til breyttra viðhorfa og reglna í samfélagi, sbr. í Bandaríkjunum, þar sem sköttun á tóbak hefur ekki aukist nærri því jafn mikið og hér, en er samt orðið taboo og stórdregist saman.

Auðvitað er það vel vitað að það er óhollt að reykja. Menn verða þó að gera það upp við sjálfa sig. Það er óhollt að gera alls konar hluti. Hví refsa reykingamönnum sérstaklega? Miðað við pakka á dag í 30 ár, þá mun tóbaksskatturinn einn og sér kosta mig 3,5 milljónir til ríkisins, og hefur sennilega þegar kostað mig um milljón ISK.

Árni | 14.4.2006 kl. 18:51
Árni

Þú getur litið á þetta svona eða litið á þetta þannig að með þessu er verið að gera tóbak að munaðarvöru/lúxus sem að hún ætti í raun að vera. Það ætti ekki að vera réttur hvers og eins, óháð samfélagsstöðu, aldurs og fleira, að geta keypt ódýrt tóbak.

Sveinbjörn | 14.4.2006 kl. 22:23
Sveinbjörn

Það er verið að *gera* tóbak að munaðarvöru, á algjörlega artificial hátt, með sérstakri skattlagningu af ríkinu. Það má vera þín skoðun að tóbak ætti að vera munaðarvara, en það er ekki mín skoðun. Þetta er vara sem er afskaplega einfalt að framleiða, og ef þetta væri skattlagt á sama hátt og aðrar íslenskar vörur þá myndi pakkinn af sígarettum kosta undir helming af því sem hann kostar nú.

Ég veit ekki hvaðan þú fékkst þá hugmynd að ég haldi að fólk hafi rétt til ódýrs tóbaks, enda er það fráleit hugmynd og kemur málinu ekkert við...

Dagur | 23.4.2006 kl. 07:08
Dagur

Hvað með t.d. geðveikt fólk sem er nú ekki ríkasta fólkið? Reykingar geta gefið lífi þeirra aukið gildi, þar sem þær gefa þeim eitthvað að hafa fyrir stafni sem er skemmtilegt og félagsvænt. Ætti það fólk ekki að hafa sama rétt til reykinga og vel efnaðir?