28.3.2006 kl. 17:51
V for Vendetta

Insomnískur og pirraður reis ég úr rekkju klukkan 6 í morgun og í stað þess að vinna að BA ritgerðinni skellti ég í gang kvikmyndinni V for Vendetta. Nú verð ég að viðurkenna að ég hafði verið nokkuð spenntur fyrir þessari kvikmynd -- fyrr í ár las ég myndasögu Alans Moore, og þótti hún vel skrifuð og vitsmunalega fullnægjandi ádeila á Bretland Thatchers. Þrátt fyrir að Alan Moore hefði afneitað myndinni, og þrátt fyrir að Wachowski bræður væru ábyrgir á handritinu (þeim verður seint fyrirgefið fyrir þessar agalegu Matrix myndir) þá gerði ég þau mistök að vera vongóður um þessa uppsetningu á hvíta tjaldinu. Hér kemur smá umfjöllun um myndina -- ég kem ekki með neina spoilera.

Mig langar til að byrja á því að taka það fram að V for Vendetta er ekki góð kvikmynd. En hún er ekki bara vonbrigði sem kvikmynd, heldur er hún einstaklega léleg útfærsla á myndasögu Alans Moore. Af einhverri óskiljanlegri ástæðu var farin sú leið að flytja atburðarásina fram í tímann -- í stað Thatcherite Bretlands 9. áratugsins fáum við einhvers konar afbakaða framtíðarsýn þar sem allir nota Ford bíla, Nokia GSM síma og Dell borðtölvur úr samtímanum. Í stað þess að hið ógnandi einræðisvald sé bresk íhaldsstefna farin út í öfgar reynist það vera öfgakristin hægristefna í Bandarískum stíl, fyrirbæri sem er næstum óþekkt í Bretlandi og virkar einstaklega ósannfærandi.

Persónan V, sem er fágaður en sturlaður vitsmunamaður í myndasögunni, er breytt í ofurhetju með grímu sem getur drepið fólk á ógnarhraða eftir að hafa þolað stórskotahríð. Hann talar of mikið, og virkar eins og hlýr og skynsamur maður, að grímunni undanskilinni. Stór hluti myndarinnar eru mónólógar hans, en þeim hefur á mörgum köflum verið breytt úr skarpri og innsæisríkri krítík yfir í yfirborðskennda, psuedo-fílósófíska þvaðrið sem einkenndi síðari Matrix myndirnar.

Natalie Portman getur ekki talað með breskum hreim, og er algjörlega ósannfærandi sem Evey. Ég er farin að halda að þessi hnáta geti bara ekkert leikið yfirhöfuð.

Stephen Fry leikur homma sem þykir Kóraninn skara fram sem bókmenntaverk. Getið ykkur til um hvað gerist fyrir hann?

John Hurt er karíkatúr frá helvíti -- léleg öfgatrúuð Hitler eftirherma, í stað vitblinda bjúrókratans úr myndasögunni.

Leikarinn sem þeir fengu til að leika Creedy var með réttu andlitsdrættina, en hann varð einnig að illmenniskaríkatúr.

Hinn venjulegi, óbreytti Breti er að mestu leyti sýndur sitjandi heima í sófa fyrir framan flatskjássjónvarpið, límdur við nýjustu fréttir af hryðjuverkum V. Til að leggja áherslu á að hér séu Bretar á ferð eru þeir látnir segja "Bollocks", "Bloody 'ell" og annað í þeim dúr með reglulegu millibili.

Af einhverri ástæðu var sú ákvörðun tekin að nota ekki upprunalega handrit Alans Moore, sem hefur verið tilbúið til kvikmyndunar síðan 1985. Þess í stað er sögunni breytt á lykilköflum til að passa inn í einhvers konar grunna ádeilu á Bandaríki samtímans og Bush ríkisstjórnina. Þeir skeyta inn lúmskum tilvísunum í samsæriskenningar um að Bush stjórnin hafi sett á svið tvítyrnisárásina með því að láta fasistastjórn framtíðarinnar hafa náð völdum með því að dreifa banvænum vírus í Bretlandi -- banvænum vírus sem þeir einir hafa lækningu við.

Það versta við handritið er að það hefur engan fókus. Á köflum fá sum subplot úr teiknimyndasögunni langan tíma til að þróast, en leiða hvergi. Í stað þess að einbeita sér að beinagrind sögunnar kusu Wachowski bræður að sjóða allt saman í einn stóran hrærigraut, þar sem ekkert er í raun og veru leyst. Tugir mínútna fara í að sýna Stephen Rea ræða við hina og þessa bjúrókrata, þótt myndin geri hann að frekar óspennandi aukapersónu.

Eftir 132 mínútur situr maður uppi með eftirfarandi skilaboð: Kristni er ill, hommar og lesbíur eru líka fólk, og að sprengja ríkisbyggingar í loft upp er góð leið til að koma á breytingum. Það er í sjálfu sér ekkert sérstaklega athugavert við þessi skilaboð, en þeim er komið á framfæri á svo klaufalegan og barnalegan hátt að áhorfandinn missir alla samúð.


2 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Gunni | 28.3.2006 kl. 18:53
Gunni

I demand a Skorzeny entry!

Sveinbjörn | 29.3.2006 kl. 06:30
Sveinbjörn

You'll get your Skorzeny, no worries.