17.10.2005 kl. 11:04

Ég spyr:

Gefum okkur það að við höfum lágmarksríki sem sér einungis um löggæslu og verndar líf, frelsi, eignir, samninga o.s.frv. Einhverjir þyrftu að sjá um þessa löggæslu og hafa umsjón með henni. Nú hef ég lítið kynnt mér literatúrinn um hvernig nýfrjálshyggjumenn (e. libertarians) hafa hugsað sér að slíkur löggæslumekanismi sé innleiddur og tryggður, en það er ljóst að þeir embættismenn sem sæju um slíkt væru annað hvort a) lýðræðislega kjörnir eða b) ekki lýðræðislega kjörnir.

Í tilfelli b) er ekkert skilvirkt aðhald að ríkisvaldinu. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl eða pólitískt innsæi til þess sjá að án aðhalds gætu þeir sem stjórna löggæslunni auðveldlega sölsað undir sig frekari völdum. Af reynslunni að dæma myndi spilling og valdagræðgi brátt grafa undan ídeal lágmarksríkinu.

Í tilfelli a), hvað gerist ef t.d. þorri manna vill allt í einu ekki lengur lágmarksríkið? (sem mér þykir alls ekki ólíklegt) og kýs í löggæsluembættin frambjóðendur sem vilja afnema lágmarksríkið og koma á laggirnar velferðarkerfi, þjónustum, o.s.frv? Við skulum muna að lágmarksríkið getur ekki haldið uppi neins konar áróðri um eigið ágæti án þess að hætta að vera lágmarksríki.

Það væri gaman að fá svar við þessu, þar sem mér sýnist að jafnvel þótt lágmarksríki væri komið á laggirnar, þá félli það brátt um sjálft sig, líkt og öll dæmi um lágmarksríki (eða réttara sagt ríki nálægt því skipulagi) í sögunni hafa þróast í að verða umfangsmeiri.

Og svo nokkrir hlutir í viðbót:

Hvernig væri löggæsla (og e.t.v. lýðræðiskerfi) lágmarksríkisins fjármögnuð? Með skattlagningunni hötuðu, sem er "rán"?

Ef ríkið má ekki skipta sér af markaðinum, hvernig er óskilvirkni í starfsemi frjáls markaðskerfis leiðrétt?

Flestar hugmyndir um lágmarksríkið fela einnig í sér að ríkið komi í veg fyrir svindl (e. fraud). Nú gætu menn t.d. stundað svindl með því að selja frystivökva sem gosdrykk fyrir börn. Á þá lágmarksríkið að setja reglugerðir um t.d. matvæli og aðrar vörur, og reka einhvers konar eftirlit, eða er kannski ekkert athugavert við að stunda svona lagað?

Hvernig passa ósjálfráðar mannverur inn í myndina? Eru börn eignir foreldra sinna? Er foreldrum frjálst að nauðga þeim, berja og hýða? Ef ekki, þarf þá ekki einhvers konar barnavernd? En ef öll börn teljast sjálfráða, bera þau þá fulla ábyrgð á gerðum sínum? Gætu þau fengið 15 ár í San Quentin?

Og hvað með dýr? Eru þá öll dýr í heiminum eign einhvers? Hvað með fugla? Er mönnum frjálst að pynta og misnota dýr eins og þeim sýnist?

Eiga allir menn að vera jafnir fyrir lögunum? Þarf þá ríkið ekki að geta tryggt öllum lögmenn til að höfða mál eða verja sig, þá sérstaklega þeim fátæku sem ekki hafa ráð á slíku? Væri þá rétt að skattleggja fólk til þess að greiða málskostnað þeirra fátæku? Erum við þá ekki komin með einhvers konar auðdreifingu (e. economic redistribution == rán) í gang?

Mér þætti afar gaman að fá svör við þessum spurningum.


25 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Siggi Óla | 17.10.2005 kl. 13:52
Unknown User

Sæll

Ég kann ekki við að kommenta án þess að segja einhver deili á mér. Ég er sem sagt vinur hans Huga Þórðar og datt inn á þína síðu í gegnum síðuna hans. Stórskemmtileg skrif og pælingar.

Mér þætti raunar gaman að sjá hvernig nýfrjálshyggjumenn svara þessum spurningum. Ég er reyndar hræddur um að þeir geti það engan vegin. Þetta lágmarksríki þeirra er jafn mikil útópía og hið stéttlausa samfélag Marx. Núverandi samfélagsskipan er afurð langrar reynslu og sögulegra málamiðlana. Og án þess að fara að predika einhverja nauðhyggju, þá er stór hluti ríkisstofnana til vegna þess að þörf er fyrir þær. Við leggjum þær því ekki af nema að svara því hvernig þeim þörfum verður mætt með öðrum hætti og í flestum tilvikum getur "markaðurinn" EKKI leyst þessar þarfir með fullnægjandi hætti.

Það er ein spurning sem nýfrjálshyggjumenn þyrftu að svara að mínu viti: Hvernig stendur á því að EKKERT ríki í sögu mannkyns hefur náð neinum árangri án þess að til komi umfangsmikill ríkisrekstur. Myndu t.d. Bandaríkin (Mekka frjálshyggjunnar) halda velli ef ríkið velti ekki trilljónum dollara út í atvinnulífið (t.d. í vopn og herinn) á hverju ári?

Mér er spurn. Er yður svarn?

Grímur | 17.10.2005 kl. 15:50
Grímur

Ókei,

Líklega myndu frjálslyndismenn svara því sem svo að kostur a) yrði fyrir valinu og pissa á efasemdir þínar - hver vill ekki óheft markaðshagkerfi? Hver hefur áhuga á einhverju svona velferðarhúmbúkki?

Svarinu myndi þá væntanlega fylgja að ástæðan fyrir því að öll þau ríki sem stigið hafa í þessa átt hafa undið upp á sig sé sú að þar hafi einfaldlega ekki verið gengið nógu rösklega til verks. Bölvað hálfkák, alltaf hreint.

Mig minnir líka að ég hafi séð þau rök gegn flestum þeim mótbárum sem þú kemur með í lokin að "markaðurinn", ef svo má segja, hefni sjálfkrafa fyrir óréttið - fólk sem veit að verksmiðjueigandinn lemur börnin sín með naglaspýtum þegar hann kemur heim á kvöldin hættir skv. þessu að skipta við verksmiðjuna. Og fyrr eða síðar hlýtur fólk að komast að því hvern mann verksmiðjueigandinn hefur að geyma, þannig að til lengri tíma litið jafnast öll svona - hvað segir maður - minni háttar mál út. (Nema fyrir grey börnin sem fyrir naglaspýtunni verða...)

Mér þykir þetta reyndar byggja á fullmikilli bjartsýni á mannlegt eðli og samúð - þarf líklega ekki að horfa lengra en á Nike og skyld fyrirtæki í því samhengi.

Geir | 17.10.2005 kl. 17:03
Geir

Ég hlýt að henda mér í djúpu laugina og vona ég nái að halda mér við efnið...

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl eða pólitískt innsæi til þess sjá að án aðhalds gætu þeir sem stjórna löggæslunni auðveldlega salsað undir sig frekari völdum.
Ég hef ekki þetta ímyndunarafl. Eru dæmi um þetta? Er þetta dómsdagsspádómur?

Í tilfelli a), hvað gerist ef t.d. þorri manna vill allt í einu ekki lengur lágmarksríkið?
Ef "þorri manna" kemst samstundis að þeirri niðurstöðu að hærri skattar og umsvifameira ríkisvald eru óskafyrirkomulagið þá mun fólk einfaldlega opna veski sín og greiða hærri hluta launa sinna til stærri verkefna. Hins vegar getur fólk aldrei þvingað aðra til þess sama, og hættan er sú að sumir munu svíkjast undan að greiða fullt verð, og þar með munu þeir sem greiða fullt verð ekki sjá hag sinn í að greiða fullt verð, og samleitnin er niður á við í því hvað fólk er tilbúið að láta úr eigin vasa.

Í dag er fólki bara hent í steininn ef það vill ekki greiða fullt verð.

Það væri gaman að fá svar við þessu, þar sem mér sýnist að jafnvel þótt lágmarksríki væri komið á laggirnar, þá félli það brátt um sjálft sig, líkt og öll dæmi um lágmarksríki (eða réttara sagt ríki nálægt því skipulagi) í sögunni hafa þróast í að verða umfangsmeiri.
Þú ættir að renna í gegnum sögu síðustu 5 alda og reyna sjá samhengi milli stríðsrekstur ríkisstjórna og vaxtar ríkisvaldsins innan stríðshrjáðra ríkja.

Já að vísu er viðleitnin sú að stór ríkisbatterí stækka og stækka, en á móti kemur að eftir litla 50 ára reynslu af nútímavelferðarkerfinu þá er tilhneigingin smátt og smátt að síga í hina áttina líka, sbr að Vísitala efnahagslegs frelsis hefur verið að skora hærra á heimsvísu ár frá ári síðan byrjað var að mæla hana. Kannski önnur 50 ár felli verðskuldaðan dauðadóm yfir hinu ósjálfbæra velferðarríki.

Hvernig væri löggæsla (og e.t.v. lýðræðiskerfi) lágmarksríkisins fjármögnuð? Með skattlagningunni hötuðu, sem er "rán"?
Valid point, og í grunni til og hreint rökfræðilega er svarið já. Verjendur lágmarksríkisins segja þó að "flestir" muni greiða fyrir sína vernd, og að örfáir óskynsamir "free riders" muni ekki ógna kerfinu sem slíku. Ég hef samt ekki alveg kyngt þeim rökum.

Ef ríkið má ekki skipta sér af markaðinum, hvernig er óskilvirkni í starfsemi frjáls markaðskerfis leiðrétt?
Meint óskilvirkni er ekki stjórnmálamanna að "leiðrétta", auk þess sem þú telur externalties til galla á frjálsum markaði, þegar þeir eru það einfaldlega ekki. Kannski ég rökstyðji það nánar, en í bili fullyrði ég þetta eins og þú fullyrðir hitt.

"Nú gætu menn t.d. stundað svindl með því að selja frystivökva sem gosdrykk fyrir börn. Á þá lágmarksríkið að setja reglugerðir um t.d. matvæli og aðrar vörur, og reka einhvers konar eftirlit, eða er kannski ekkert athugavert við að stunda svona lagað?"
Ég sé ekki að þarna sé komið hlutverk fyrir ríkisvaldið nei. Þetta er miklu frekar í ætt við samningsvik og ofbeldi og svarast á sama hátt og líkamsárásir og morð.

Hvernig passa ósjálfráðar mannverur inn í myndina?
Góð spurning. Pass. 18 árin eru málamiðlun, fyrir skömmu var sjálfræðið 16 ár á Íslandi án þess að allt hafi verið á leið til fjandans. Ég sé nú heldur ekki að fylgjendur annarra pólitískra hugmynda eigi auðveldara með að svara þessu, nema e.t.v. af því fæstir hafa fyrir því að rökstyðja nokkuð.

Og hvað með dýr?
Í grunninn til eru dýr eignir, og mönnum frjálst að umgangast eignir sínar að vild, en fyrirvarar hjá Nozick eru hugleiðingar verðir. Hef annars engu við það að bæta.

Eiga allir menn að vera jafnir fyrir lögunum?
Já, en í grunninn til er svo svarið við næstu spurningum nei. Það á enginn "rétt" á lögfræðiaðstoð, en mönnum er frjálst að veita hana (beint eða með fjármögnun), svona eins og annað.

Geir | 17.10.2005 kl. 17:04
Geir

..og ég játa að það er erfitt að sjá hvað er tilvitnun og hvað ekki hérna. Ég kann ekkert á þetta kerfi.

Siggi Óla | 17.10.2005 kl. 17:38
Unknown User

Vá! Hér hefur sú skoðun mín að frjálshyggjumenn séu jafn grunnhyggnir og marxistar fengið byr undir báða vængi. Það er algerlega útilokað að "lágmarksríkið" yrði annað en óskapnaður.

Í núverandi ástandi (sem frjálshyggjumenn myndu væntanlega kalla mikinn ríkisrekstur/löggæslu/eftirlit) hika stórfyrirtæki ekki við að skaða fólk, samkeppnisaðila eða náttúruna. Hvernig sjá menn þetta ganga upp ef löggæsla og ríkisafskipti væru engin. Staðreyndin er sú að "markaðurinn" refsar fyrirtækjum ekki fyrir náttúruspjöll eða önnur afbrot- m.a. vegna þess að upplýsingar um brotin komast ekki til neytenda (og ef slíkar upplýsingar komast til neytenda, þá eru góðar líkur á að þær séu hunsaðar- neytendur vilja fyrst og fremst ódýrar vörur og virðast kæra sig kollótta um það á hverju/hverjum framleiðandinn níddist þegar hann framleiddi vöruna)

Anonymous Sindri | 17.10.2005 kl. 17:55
Unknown User

Maður "salsar" ekki neitt undir sig nema þá kannski með eitursterkri salsasósu eða valdadansi. Heldur SÖLSAR maður eitthvað undir sig ;)

Smá ábending. Ekki illa meint.

Geir | 17.10.2005 kl. 20:12
Geir

Siggi Óli: Langflest umhverfisspjöll má skýra út frá skorti á séreignarrétti, en ekki skorti á ríkisafskiptum.

Siggi Óla | 17.10.2005 kl. 21:10
Unknown User

Jaaaaaá.........þannig ef ákveðið fyrirtæki ætti ALLANN HEIMINN......þá myndi það steinhætta losun gróðurhúsalofttegunda til að spilla ekki eign sinni. Eða hvað? Hvernig hefði séreignarréttur t.d. átt að koma í veg fyrir stöðvun á losun kolflúorsambanda (sem þynna ósonlagið)?

Ég held að langflest umhverfisspjöll megi rekja til skammtímahugsunar og græðgi. Fæst fyrirtæki setja sér einhver markmið um sjálfbærni (afsakið notkun á þessu ljóta orði....þýðing á enska hugtakinu "sustainability")enda hvetur markaðurinn menn fyrst og fremst til að hugsa einn ársfjórðung fram í tímann.

Aðalsteinn | 18.10.2005 kl. 00:31
Aðalsteinn

"Ef ríkið má ekki skipta sér af markaðinum, hvernig er óskilvirkni í starfsemi frjáls markaðskerfis leiðrétt?
Meint óskilvirkni er ekki stjórnmálamanna að "leiðrétta", auk þess sem þú telur externalties til galla á frjálsum markaði, þegar þeir eru það einfaldlega ekki. Kannski ég rökstyðji það nánar, en í bili fullyrði ég þetta eins og þú fullyrðir hitt."

Mér fannst þetta dáldið gott. Geir, Sveinbjörn linkaði nokkuð augljóslega í eigin röksemdir fyrir þessari fullyrðingu.

Árni | 18.10.2005 kl. 03:03
Árni

Bíð spenntur eftir öðru svari Geirs en í millitíðinni vill ég skjóta nokkrum pælingum hérna inn.

Það sem ég vill sjá frá einhverjum frjálshyggjuspekúlant, hvort sem það er fræðimaður úti í löndum eða bara meðlimur Frjálshyggjufélagsins hérna heima, einhvers konar módel að því hvernig samfélagið gengi upp með þessa stefnu að leiðarljósi. Eina sem maður fær úr pistlum og skrifum frjálshyggjumanna er einfaldlega glifsur héðan og þaðan hvernig frelsið er mikilvægt og hvernig losun hafta á ákveðna þætti samfélagsins gætu t.d. hækkað laun leikskólakennara. Einhverja heildarmynd. Ég held að það sé hægt að teikna upp einhverja slíka mynd. Jafnframt held ég að sú mynd myndi endanlega binda enda á feril frjálshyggjunnar.

Mér finnst eins og núverandi kerfi sé nógu "transparent" til að sjá hvernig það virkar upp meðan að hinn ídealíski frjálshyggjuheimur sé einhver lokuð ráðgáta. Aldrei nein bein svör um hvernig hlutirnir myndu virka. Bara markaðurinn og hans átómatísku lausnir.

Ég persónulega treysti ríkinu frekar en markaðnum til að taka ákvarðanir fyrir mig.

Sveinbjorn | 18.10.2005 kl. 05:46
Sveinbjorn

Úff, ég mæti seint til leiks virðist vera! Langar til að gera athugasemd við eitt sem Grímur sagði:

"Svarinu myndi þá væntanlega fylgja að ástæðan fyrir því að öll þau ríki sem stigið hafa í þessa átt hafa undið upp á sig sé sú að þar hafi einfaldlega ekki verið gengið nógu rösklega til verks. Bölvað hálfkák, alltaf hreint."

Þetta eru nákvæmlega rökin sem kommúnistarnir notuðu þegar það kom í ljós að Sovétríkin voru engin útópísk paradís. Þá skyndilega urðu Sovétríkin dæmi um kommúnisma sem hafði "leiðst á villigötur", en vinstri-intellektúalarnir héldu enn í marxista-ídeólógiuna.

Auðvitað geta menn ríghaldið í einhverja stjórnspeki, trompað ávallt ágæti hennar, og síðan hreinlega neitað að um framkvæmd slíkrar stjórnspeki sé að ræða þegar empírísk rök sýna vankanta á fílósófíunni. Góður mælikvarði á hvort eitthvað er bull er "falsifiability" í stíl Poppers. Ef það er ekki hægt að afsanna einhverja kenningu, þá er hún bókstaflega merkingarlaus.

Sveinbjorn | 18.10.2005 kl. 06:21
Sveinbjorn

Geir:

Þú segir að þú hafir ekki það ímyndunarafl sem þarf til þess að sjá að ef einokun á valdbeitingu er sett í hendurnar á manni eða mönnum sem þurfa ekki að svara fyrir gjörðir sínar á neinn hátt, þá leiði það til kúgunar. Mér finnst þetta mjög einkennilegt, satt að segja. Þú hefur nú tæpast svo mikla trú á mannseðlinu? Fyrsta lagi, ef þeir sem stjórna löggæslunni eru ekki kosnir inn lýðræðislega, hvernig skulu þeir þá valdir? Lottó? Í öðru lagi, ef einhver valdagráðugur einstaklingur/einstaklingar fengju umsjón með löggæslu án nokkura hafta, hvað kemur þá í veg fyrir að þeir noti vald sitt til þess að gera eignir fólks upptækar og setja á þau lög sem þeim sýnist? Meira að segja Neró og Kalígúla, einvaldar í Róm, höfðu aðhald á vald sitt -- nefnilega lífvarðasveitirnar, sem blessunarlega fjarlægðu þá frá völdum þegar þeir voru komnir nógu langt yfir mörk velsæmdar. Nei, satt að segja þá er það stórfurðulegt að þér skuli detta í hug að segja svona lagað. Maður hefði haldið að mínarkistar, af öllu fólki, mundu vera meðvitaðir um lykilspurningu stjórnmála: Hvernig er komið í veg fyrir að þeir sem fara með valdið misnoti það?

Varðandi stríðsrekstur ríkisstjórna og aukningu ríkisvaldsins, þá jókst ríkisvald vestrænna ríkja einna mest á millistríðsárum 20. aldar þegar menn hrintu í framkvæmd Keynesísku efnahagsaðgerðum. Það má síðan bæta við að stríðshrjáðustu þjóðir undanfarinna áratuga eru einmitt þær þjóðir þar sem vald ríkisins hefur verið on-and-off, t.a.m. Mósambík, Kenýa, Kólumbía etc, á meðan þjóðir með miklum ríkisafskiptum, eins og t.d. Sviss eða Svíþjóð hafa algjörlega sniðgengið stríðsrekstur af nokkuri gerð. En jafnvel að því gefnu að það sé einhvers konar tengsl séu milli stríðsreksturs og aukins ríkisvalds, þá fæ ég ekki séð hvað það hefur neitt að gera við hvort lágmarksríkið gangi upp eða ekki.

Þú segir að meintir gallar markaðskerfisins séu alls ekkert gallar. Gott og vel, þú hefur auðvitað rétt til þess. Mér þykir það þó svipa til þess að segja að ofsóknir og útrýming þjóðarbrota hafi alls ekkert verið gallar nasismans. Það sem við erum að tala um hér er auðvitað ákveðin sjón á heiminn. En ef nágranni þinn byggði risastóra verksmiðju á lóðinni við hliðina á þér, og spýtti svörtum kolareyk inn um eldhúsgluggann, þá grunar mig að þú yrðir ekkert mjög sáttur...

Varðandi sjálfráðar mannverur, þá svaraðir þú ekki spurningunni. Það er málinu algerlega óviðkomandi á hvaða aldri fólk verður sjálfráða -- það er t.a.m. til fullt af fólki sem er ósjálfráða en ekki börn, t.d. geðsjúkir, þroskaheftir, o.s.frv. Það verður að vera einhvers konar svigrúm til þess að eiga við þannig fólk, en það er erfitt fyrir libertarianisma, því það liggur sem rauður þráður gegnum hugmyndafræðina að allar mannverur séu sjálfráða, sjálfsábyrgir ákvörðunartakendur (e. "independent, accountable decision-makers").

Og svo, varðandi síðasta punkt minn, ef menn hafa ekki jafnan aðgang að lögfræðiþjónustu, þá hafa þeir ekki jafnan aðgang að kerfi lágmarksríkisins um vernd lífs, frelsis og eigna. Þá gæti fátækur maður lent í því að brotið er á eignarétti hans eða frelsi án þess að hann hafi fjárlagslegan möguleika á því að kæra málið til ríkisvaldsins. Þá eru komnar tvær tegundir af réttlæti -- réttlæti hinna ríku og réttlæti hinna fátæku. Þessu er ég viss um að þú getir varla kyngt, er það nokkuð? Ef fólk á að sætta sig við lágmarksríkið, þá verður það í það minnsta að fá jafna meðferð fyrir lögunum, ekki satt?

Sveinbjorn | 18.10.2005 kl. 06:46
Sveinbjorn

Siggi:

Vandinn er sá, að hugmynd þín um réttlæti, og hugmynd nýfrjálshyggjumanna um réttlæti, eru fundamentally öðruvísi. Þeir sjá niðurstöður markaðsins (að lágmarksríkinu gefnu) sem réttlátar, ávallt. Markaðurinn er eins konar dollaralýðræði -- fólk kýs með peningum sínum, og það sem það kýs er réttlátt (svo lengi sem það kýs ekki að afnema lágmarksríkið). Náttúruspjöll, efnahagsleg valdníðsla o.s.frv. eru ekki rangt eða slæmt, sem slíkt, heldur einungis ef fólkið á markaðinum kýs, með peningum sínum, að refsa því.

Þetta er allavega röksemdafærsla sem ég hef oft rekist á...

Siggi Óla | 18.10.2005 kl. 09:25
Unknown User

Jamm.....Þetta er mjög einkennileg hugmynd um réttlæti og algerlega útilokað að þetta virki í praxis. Eiginhagsmunir valda því að neytendur setja peninga í það sem kemur þeim vel í augnablikinu, en skortir yfirsýn, upplýsingar og áhuga á því hvaða áhrif val þeirra hefur á annað fólk eða náttúruna.

Í þessu ljósi held ég að það megi færa rök fyrir því auka þyrfti ríkisafskipti af hinu "alþjóðavædda" viðskiptalífi- þ.e. koma á fót stofnunum sem veita öflugri úrræði en alþjóða viðskiptamálastofnunin. Er t.d. eðlilegt að samkeppnin þvingi menn til að hefja framleiðslu í Kína, þar sem menn þræla undir byssukjöftum? Þrýstingur alþjóðahagkerfisins veldur því að meira að segja Disney þarf að níðast á kínversku verkafólki til að vera samkeppnishæft.

Aðalsteinn | 18.10.2005 kl. 09:55
Aðalsteinn

Disney fílar það, vertu viss.

Geir | 18.10.2005 kl. 10:31
Geir

Sveinbjörn segir: "Þú segir að þú hafir ekki það ímyndunarafl sem þarf til þess að sjá að ef einokun á valdbeitingu er sett í hendurnar á manni eða mönnum sem þurfa ekki að svara fyrir gjörðir sínar á neinn hátt, þá leiði það til kúgunar."
Það sagði ég ekki. Ég sé hins vegar ekki af hverju öryggisfyrirtæki á frjálsum markaði, bundnir sterku aðhaldi markaðarins og ófrávíkjanlegum lögmálum persónufrelsis og eignarréttar komi til með að útvíkka valdsvið sitt. Það er nú frekar þannig að lögregla ríkisins hefur verið almenningi skeinuhættari í gegnum tíðina en málaliðar markaðarins.

"En ef nágranni þinn byggði risastóra verksmiðju á lóðinni við hliðina á þér, og spýtti svörtum kolareyk inn um eldhúsgluggann, þá grunar mig að þú yrðir ekkert mjög sáttur..."
Enda væri hann að spilla eign minni og fengi lögsókn á hendur sér frá mér og nágrönnum mínum. Þú þekkir orð Nozick í því máli og mér finnst þau ekki óskynsamleg.

"..það liggur sem rauður þráður gegnum hugmyndafræðina að allar mannverur séu sjálfráða, sjálfsábyrgir ákvörðunartakendur"
Ég þekki greinilega ekki þá stafkróka um "mína hugmyndafræði" sem þú vitnar í. Sjálfur svaraði ég ekki spurningunni eins og þú bentir á - ég sagði pass. Ég tel alla lifandi einstaklinga hafa rétt til lífs, athafna og eignarréttar, en passa á þá fullyrðingu að allar lifandi manneskjur séu þetta sem þú sagðir. Þú þarft að fá svarið sem þú vilt annars staðar frá.

"Þá gæti fátækur maður lent í því að brotið er á eignarétti hans eða frelsi án þess að hann hafi fjárlagslegan möguleika á því að kæra málið til ríkisvaldsins."
Hann hefur hreinan og kláran rétt til að verja líf sitt og eigur. Þú getur líka af hugmyndafræðilegum ástæðum fjarlægt allt sem heitir lögfræðiráðgjöf og -þjónusta fyrir þá efnaminni, og reyndar alla góðgerðaraðstoð, sjálfboðavinnu og greiðasemi sem er til í dag, hefur alltaf verið til, og mun alltaf vera til, og þannig komið mér í vanda hvað nytsemisrökin varðar. En í grunninn hafa frjálsir einstaklingar rétt til að verja líf sitt og eignir og nákvæmlega hvort lögreglumenn fái greitt með skattfé eða afnotagjöldum breytir engu þar um.

Grímur | 18.10.2005 kl. 17:10
Grímur

Sveinbjörn:
My point exactly - lágmarksríkið og alræði öreiganna eru hvorutveggja útópíur.

Eða - bíddu - Sovétríkin ekki paradís? Hvaða auðvaldssinnaða áróður hefur þú verið að éta upp, strákur?!? ;)

Grímur | 18.10.2005 kl. 17:17
Grímur

Sveinb.:
Nú gætu menn t.d. stundað svindl með því að selja frystivökva sem gosdrykk fyrir börn. Á þá lágmarksríkið að setja reglugerðir um t.d. matvæli og aðrar vörur, og reka einhvers konar eftirlit, eða er kannski ekkert athugavert við að stunda svona lagað?"

Geir:
Ég sé ekki að þarna sé komið hlutverk fyrir ríkisvaldið nei. Þetta er miklu frekar í ætt við samningsvik og ofbeldi og svarast á sama hátt og líkamsárásir og morð.

En ef ríkisvaldið getur, með eftirliti, komið í veg fyrir þetta ÁÐUR en skaðinn er skeður og n börn hafa drepist (þar sem n hleypur frá einum og upp í óendanlegt) - er það þá ekki æskilegt? Þá er hægt að meðhöndla þetta sem TILRAUN til manndráps, börnin lifa, fyrirtækið fær vægari refsingu og allir græða.

Sveinbjorn | 19.10.2005 kl. 07:55
Sveinbjorn

Geir, vandinn er að það er ekkert ófrávíkjanlegt við lögmál persónufrelsis og eignarréttar. Á svona anarkískum markaði (sem nota bene er annað heldur en lágmarksríkið) þá gæti það varnafyrirtæki sem yrði stærst herjað á hin minni og útrýmt þeim. Reyndar tel ég að svona samkeppnismarkaður fyrir varnir mundi falla um sjálfan sig -- rök Nozicks í fyrstu köflum Anarchy, State and Utopia eru að mínu mati frekar sannfærandi -- því hann þróast alltaf í átt að mónópólíu á ofbeldi.

Varðandi externalities, þá er málið ekki svo einfalt að einhver sé að "spilla eign" þinni og geti verið kærður. Hvað með mann sem dælir geislavirkum úrgangi í sjóinn, eða spilar trombónu langt fram á nótt í næsta húsi, o.s.frv. Eru þetta semsagt allt eignarspjöll? Þá er búið að teigja hugmyndina um eignaréttinn frekar mikið, að mínu mati.

Þegar ég tala um "sjálfráða, sjálfsábyrgir ákvörðunartakendur" þá er ég ekki að vísa í þína hugmyndafræði, per se, heldur frekar í eitthvað sem ég hef greint í helsta libertarian litteratúrnum. En já, mér þykir ljóst að ef libertarianismi getur ekki komið með nein svör um hvernig ósjálfráða mannverur passa inn í myndina, þá sé það tæpast sannfærandi eþík eða stjórnspeki.

Að lokum, þá er vandinn með að lagavörn þeirra fátæku alvöru vandi, og ekkert teóretískt við hann. Það þarf ekki að líta lengra heldur en til bandaríska lagakerfisins (sem er reyndar hrikalegt) til þess að sjá að litli maðurinn þarf peninga til að verja sig fyrir rétti. Ertu ekki fylgjandi jafnrétti manna fyrir lögum?

Að því gefnu að hinir ríku séu betur settir gagnvart lagakerfinu -- þ.e.a.s. eigi umtalsvert auðveldara með að vinna mál, og umtalsvert auðveldara með að kæra -- þá er komið framework fyrir kerfisbundna kúgun, þar sem ekki allir njóta sömu verndar frá lágmarksríkinu.

Sveinbjorn | 19.10.2005 kl. 07:59
Sveinbjorn

Grímur:

"En ef ríkisvaldið getur, með eftirliti, komið í veg fyrir þetta ÁÐUR en skaðinn er skeður og n börn hafa drepist (þar sem n hleypur frá einum og upp í óendanlegt) - er það þá ekki æskilegt? Þá er hægt að meðhöndla þetta sem TILRAUN til manndráps, börnin lifa, fyrirtækið fær vægari refsingu og allir græða."

Flestir libertarians eru á móti öllu "initiation of force", eins og þeir kalla það. Ef ríkið gerir eitthvað "pre-emptively" til þess að koma í veg fyrir e-n skaða sem það telur að gæti skeð, þá er það að beita fólki ofbeldi. Þetta er í raun alveg sjálfu sér samkvæmt -- reyndar þykir mér hugtakið "initiation of force" afar loðið: hvenær eru menn að "hefja átök"? Var George Bush að "hefja átök" þegar hann fór inn í Írak með bandaríska herinn? Eða var Saddam að "hefja átök" með því að leitast eftir þessum blessuðu WMD? Þetta er allt saman háð þeirri skilgreiningu sem þú kýst að notast við...

Geir | 19.10.2005 kl. 08:52
Geir

Sveinbjörn þú hefðir gott af því að líta á gagnrýnin skrif um varnarmarkað Nozick,
http://www.mises.org/journals/jls/1_1/1_1_6.pdf
Einnig nokkur nytjarök þarna.

"Externalties" eru ekki verkefni fyrir ríkisvaldið. Ef ríkið segir mér að stoppa hljóðblástursleik á mínu heimili til að nágranninn sem ég greinilega get ekki rætt við fái svefnfrið þá er ríkið orðið externalties fyrir hljóðblástursleikarann. Ef það er hægt að rekja ábyrgð á kjarnorkumengun á haffleti mínum til einhverrar uppsprettu þá er ekki um meiri teygjanleika að ræða en ef ég helli blekkönnu yfir skyrtuna þína.

Og ef þú ert ennþá að hrópa eftir ákvörðun frá mér um hver sjálfræðisaldurinn eigi að vera að þá færðu hana bara: Einstaklingur hefur alltaf rétt til að flytja að heiman, hætta í skóla, byrja vinna, fá sér bjór. Foreldrar hafa það vald yfir börnum sínum sem þeir hafa yfir gestum á heimili þeirra. Ég vona að ég hafi bjargað 500 ára gamalli hugmyndafræði frá falli núna.

Lagavörn þeirra fátæku er stærsta vandamálið þar sem spilling er mikil og lagakerfið flókið.
Spánýtt lesefni: http://www.timesonline.co.uk/article/0,,3-1831223,00.html
Efnahagur einstaklinga, sérstaklega þeirra fátækustu, er einnig verstur þar sem efnahagslegt frelsi er minnst. Allt ber að sama brunni: Lágmarka ríkisvaldið, hámarkað umsvif markaðarins. Hrein nytjarök og auðskiljanleg.

Árni | 19.10.2005 kl. 11:50
Árni

Geir:
"Og ef þú ert ennþá að hrópa eftir ákvörðun frá mér um hver sjálfræðisaldurinn eigi að vera..."

Sveinbjörn hérna aðeins ofar:
"Varðandi sjálfráðar mannverur, þá svaraðir þú ekki spurningunni. Það er málinu algerlega óviðkomandi á hvaða aldri fólk verður sjálfráða"

Hvaða hróp? Hann var ekki að biðja þig um ákvörðun um sjálfræðisaldur. Kemur málinu ekki við.

Sveinbjorn | 19.10.2005 kl. 13:40
Sveinbjorn

"Efnahagur einstaklinga, sérstaklega þeirra fátækustu, er einnig verstur þar sem efnahagslegt frelsi er minnst"

Ehrm, Geir, þú linkaðir þarna á grein um tengsl spillingar og fátæktar (surprise, surprise). Skortur á efnahagslegu frelsi og spilling ganga ekkert nauðsynlega hönd í hönd. Linkaðirðu kannski á vitlausa grein?

Annars þá er t.d. efnahagslegt frelsi í Danmörku töluvert minna en í Bretlandi eða USA -- það er samt miklu betri staður til þess að vera fátækur...

Geir | 19.10.2005 kl. 17:57
Geir

Árni: "En já, mér þykir ljóst að ef libertarianismi getur ekki komið með nein svör um hvernig ósjálfráða mannverur passa inn í myndina, þá sé það tæpast sannfærandi eþík eða stjórnspeki."

Ég tók þetta kannski fullpersónulega þar sem ég hérna sem einhvers konar biskup frjálshyggjunnar og las orð Sveinbjörns sem þriðju áeggjunina á mig að svara fyrir sjálfsræðisaldursvangaveltuna.

Sveinbjörn: Ég var kannski að tengja aðeins of marga punkta saman. Efnahagslegt frelsi mælist mikið þar sem ríkisvaldið er takmarkað, eignarréttur og einstaklingsfrelsi virt og markaðurinn er frjáls. Ríkustu lönd jarðar eru, sem almenn regla, þau sem búa við hvað mest efnahagslegt frelsi. Spilling, skv þeirri rannsókn sem ég vísaði í, er lítil í frjálsu kapítalísku löndunum. Hence: Spilling er minnst þar sem kapítalismi er sterkastur.

Auk þess, þegar rætt er um að "vera" fátækur í landi, er mikilvægt að hafa í huga að það að "verða" ríkur er ekki síður mikilvægt, og í ríkjum eins og Danmörku er það nánast ómögulegt og fólk sættir sig við sínar tekjur og gólar á eftir ríkinu ef peninga vantar í vasann.

Sveinbjorn | 19.10.2005 kl. 20:51
Sveinbjorn

Varðandi hversu slæmt það er að vera fátækur vs. hversu gott það er að vera ríkur, þá er ég reyndar ekkert svo viss um að það sé bara spurning um huglægt gildismat. Eins og Bertrand Russell orðar það:

"It is true that poverty is a great evil, but it is not true that material prosperity is a great good."

Karl Popper, sem kenndi sig nú við einhvers konar frjálshyggju um tíma, áleit fyrir rest að það væri gilt markmið ríkisvaldsins að útrýma mannlegri eymd, en að huglægari hlutir eins og hvað sé "hið góða líf" væri best í höndum hins frjálsa markaðar. Annars er afstæði gildismats flókin heimspekileg spurning sem mætti lengi ræða.

Það eru e.t.v. ekki til neinir danskir American-style milljarðamælingar, en það eru til alveg djöfulli ríkir danir, eins og t.d. Kim Larsen. Og þótt Danmörk sé kannski ekki "invigorating" samfélag í skilningi Nozicks, þá er það djöfulli góður staður til þess að búa.