"Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis, varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notandanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, dagsetningar þeirra, hverjum var tengst og magn gagnaflutnings til viðkomandi notanda."

Nýleg breyting á fjarskiptalögum skuldbindur allar íslenskar internetþjónustur til þess að halda utan um nákvæm gögn um internettraffík notenda sinna sex mánuði aftur í tímann. Þessar upplýsingar ber þeim að láta í hendur lögvaldsins ef um þær er beðið, og eftir því sem ég best veit, þá er ekki nauðsynlegt að fá dómsúrskurð líkt og með símahleranir.

Hér þykir mér vera á ferð afar alvarleg árás á einkalíf fólks -- ég er með einu og öllu andsnúinn þessum lögum, þá sérstaklega vegna þess að retóríkin sem umkringdi þetta mál var á svo lágu plani.

Menn segjast setja þessi lög til þess að geta haft uppi á fólki sem sækist í barnaklám og annan viðbjóð gegnum netið. Og mótmæli maður fæst köld tusku í andlitið: "Ert þú semsagt á móti því að stöðva barnaklám? Ertu fylgjandi því að börn séu misþyrmd?". Afar málefnalegt...

Allir sem eitthvað vita um netsamskipti -- allir með smá glætu af heilbrigðri skynsemi -- allir sem eitthvað hafa lært af mannkynssögunni -- gera sér fyllilega grein fyrir því að þessi lög eiga ekki eftir að stöðva barnaperra eða hugverkalögbrot. Starfsemin mun annað hvort dulbúa sig á einhvern klókan hátt eða flytjast á annan vettvang. Það hefur hún ávallt gert í fortíðinni. Þar að auki geta menn sem sækjast í slíkt einfaldlega notað almenningstölvur. En það sem við sitjum eftir með eru lög sem leyfa ríkisstarfsmönnum að fylgjast grannt með netnotkun okkar. Ekki þykir mér það heppilegt ástand mála.

Sorglegustu rökin fyrir þessari lagasetningu þykir mér vera þegar menn tala um að aðrar Evrópuþjóðir hafi sambærilega löggjöf og að Ísland "sé að dragast aftur úr". Sú staðreynd að aðrar þjóðir geri þau hræðilegu mistök að gefa ríkisstjórn sinni aðgang að miðlægum einkaupplýsingum um atferli sitt telst tæpast réttlæting fyrir því að við föllum í sömu gryfjuna.

Annar hluti af sömu lögum gerir símafyrirtækjum skylt að skrá alla farsíma á ákveðið nafn og kennitölu -- þannig verður ekki lengur hægt að kaupa sér óskráðan farsíma með Frelsi. Og þar sem lítið er um tíkallasíma hér á landi, þá mun brátt vera ómögulegt að hringja undir nafnleynd.

Rökin fyrir því að stöðva aðgang manna að óskráðum símum eru þau að slíkir símar séu notaðir af fíkniefnasölum og öðrum "glæpamönnum" -- en staðreyndin er sú að það eru fjölmargar löglegar og fyllilega ásættanlegar þarfir fyrir nafnleynd -- tilkynningar glæpa til lögreglu, "whistle-blowers" á lögbrot innan stórfyrirtækja, o.s.frv. Og það þýðir ekkert að segja að fólk sem hringi úr nafngreindum síma hafi ekkert að óttast því einungis lögreglan hafi aðgang að nafngögnum -- lögreglan, ef ekki þegar spillt, gæti vel hugsanlega orðið það í framtíðinni, og lög ber að smíða með tilliti til framtíðarinnar en ekki einungis líðandi stundar.

Friðhelgi einkalífsins er mér mikið hjartans mál. Ég er einstaklega mótfallinn því að ríkið eða einkaaðilar stundi kerfisbundna miðlæga upplýsingasöfnun um atferli fólks. Ég hljóma kannski örlítið ofsóknarbrjálaður, en ég tel slíka upplýsingasöfnun brjóta á rétti fólks til einkalífs, og trufla valdajafnvægið milli einstaklings og stofnana innan samfélagsins.

Eitt þykir mér alveg ófyrirgefanlegt, og það er þegar fólk lætur út úr sér eitthvað eins og eftirfarandi:

"Æi, sko, mér er alveg saman. Ég hef ekkert að fela -- ég hef ekki framið neina glæpa eða gert neitt rangt, þannig að [ríkið/stórfyrirtæki/stofnun] má alveg safna eins mikið af upplýsingum um mig og það vill.

Þetta er hinn dæmigerði forheimski hugsunarháttur sem maður rekst á hjá pólitískt rétttrúandi fólki, eða þeim sem skortir vitsmuni til þess að gæta eigin hagsmuna. Sú staðreynd að viðkomandi hafi ekkert að fela kemur málinu nákvæmlega ekkert við. Það sem skiptir máli í þessu samhengi er eftirfarandi: Upplýsingar eru vald. Að búa yfir upplýsingum um einhvern, s.s. atferli hans, kaupvenjur, sjúkrasögu, menntun, starf, netnotkun, o.s.frv. setur aðra í mjög sterka stöðu gagnvart viðkomandi. Auðveldara er að ráðskast með og stjórna mönnum ef líf þeirra er opin bók.

Það má vel vera að ofannefndum blábjánum sé sama þótt markaðsmaskínur og ríkisstjórnir ráðskist með þá. Gott og vel, ekki ætla ég mér að taka upp hanskann fyrir þeirra hönd. En staðreyndin er sú að kæruleysi þeirra í þessum efnum dregur aðra með niður í svaðið. Ég vil ekki að ríkið geti fylgst með símtölum mínum eða nettraffík, né kaupvenjum mínum, hjúskaparstöðu eða einkalífi. Og ég vil svo sannarlega ekki vera skráður í neinn helvítis sjúkrasögugagnagrunn einhverju einkafyrirtæki til hagsbóta -- sem ég tel vera mest "blatant" dæmið um siðferðislegt gjaldþrot ráðamanna hér á landi.

En eins og Benjamin Franklin sagði...

"Those who give up essential liberties to obtain a little temporary safety deserve neither liberty nor safety."


8 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Halldor Eldjarn | 6.7.2005 kl. 23:40
Halldor Eldjarn

Sammála!

Einar Jón | 8.7.2005 kl. 09:47
Einar Jón

Fyrst þú talar svona ertu ábyggilega barnaíðingur, kommúnisti eða hryðjuverkamaður.

Og Benjamin Franklin átti aldrei tölvu - hvað heldurðu að hann viti um þessi mál?

Sveinbjorn | 8.7.2005 kl. 15:12
Sveinbjorn

Já, það er rétt, Franklin átti ekki tölvu. Damn that Ben Franklin, interfering in affairs that are no concern of his!

Or we could just call it an appropriate quote?

Siggi | 10.7.2005 kl. 23:31
Siggi

Þetta er ekki gott :(
Ætli næsta mál á dagskrá sé ekki svona fasista vegabréf sem kanarnir eru að þróa:
http://en.wikipedia.org/wiki/Biometric_passport

Það er creepy shit

Aðalsteinn | 11.7.2005 kl. 15:37
Aðalsteinn

Ekki skil ég hvað er svona krípí við bæómetrik vegabréf. Hvað er að því að með nýrri tækni sé hægt að gera upplýsingar í vegabréfum nákvæmari?

Sveinbjorn | 11.7.2005 kl. 15:52
Sveinbjorn

Aðalsteinn, vandinn er ekki að upplýsingarnar í vegabréfum séu nákvæmari. Það sem er "krípí" er að genetískar upplýsingar um fólk séu geymdar í miðlægum gagnagrunni sem ríkið hefur aðgang að. Maður þarf ekki að vera mjög paranoid til að sjá möguleikana á misnotkun.

Aðalsteinn | 11.7.2005 kl. 20:13
Aðalsteinn

Genetískar upplýsingar? Ég veit ekki til þess að það standi til að setja inn annað en fingraför, augna- og háralit og slíkt. Efast um að miklar genetískar upplýsingar fá úr því.

Þú fyrirgefur, en ég hef ekki nógu sterkt ímyndunarafl til þess að sjá möguleika á misnotkun á þessum upplýsingum, sérstaklega þar sem þessi minniskubbur verður ekki í neinu öðru heldur en vegabréfi.

http://www3.domsmalaraduneyti.is/frettir/nr/847

Sveinbjorn | 14.7.2005 kl. 14:21
Sveinbjorn

Hmmm...það er annað heldur en bandaríkjamenn hafa í huga. Þeir ætla að hafa vegabréfin aðgengileg gegnum þráðlausa tenginu, til að spara vinnu á flugvöllum. Þetta þýðir að hver sem er, sem getur brotið encryptionina, muni geta skannað hóp fólks og fengið nöfn þeirra, aldur etc.