Ég rakst á grein á Múrnum þar sem höfundur þykist telja upp og hrekja helstu ástæður fyrir því að flytja beri Reykjavíkurflugvöll. Mig langar til að benda á nokkur atriði varðandi þetta mál:

Ein af rökunum fyrir því að fá flugvöllinn eitthvert annað er að miðbæjarkjarninn muni eflast -- þéttari byggð í Vesturbænum (og möguleikinn á að byggja hærri byggingar) munu geta aukið "population density" í Reykjavík og fyrir vikið bætt úr samgönguvandanum. Þar að auki mun það draga úr þeirri hljóðmengun sem miðbæjarbúar þurfa að þola. Höfundur virðist hafa takmörkuð rök gegn þessu:

"Nýtt hverfi í Vatnsmýrinni myndi því ekki breyta miklu fyrir þéttingu byggðar, jafnvel þótt þar yrðu einungis blokkir."

Mér þætti gaman að vita hvað höfundur telur að þétt byggð Vatnsmýri geti haldið marga íbúa -- en mér þykir ljóst að þeir skipta fleiri þúsundum. Þetta er risastórt svæði, og án flugvallarins mætti reisa háhýsi bæði í Vatnsmýrinni og öðrum hverfum í uppbyggingu.

Síðan er brugðist við með ad hominem kaldhæðni:

"...[ofantöld] rök hafa einnig verið notuð af fólki sem yfirleitt virðist ekki hafa mikinn áhuga á bættum almenningssamgöngum."

Svona spekúlasjónir um hvað fólk hefur áhuga á er málinu óviðkomandi. Ef ríkur maður segir að það beri ekki að skattleggja þá ríku, þá er málstaður hans engan veginn hrakinn með því að benda á að hann hafi hagsmuni að gæta í málinu. Ég verð alltaf pirraður þegar ég sé svona lagað í prenti...

En já, þetta heldur áfram:

"Rökin fyrir íbúðabyggð í Vatnsmýrinni eru því ekkert sérlega öflug, nema maður sé fasteignaspekúlant. Þá má vissulega mikið upp úr því hafa að fá dýrar lóðir á góðum stað í bænum. Ljóst er að það verða engir öreigar sem munu búa þar."

Áhrifin sem byggðarland í Vatnsmýrinni hefði á fasteignaverð í höfuðborginni eru engan vegin ljós, en þó er víst að aukið framboð á húsnæði miðsvæðis mun gera fleirum kleyft að búa miðlægt, nálægt Háskóla Íslands, Landsspítala og öðrum mikilvægum þjónustumiðstöðum. Og hvort öreigar muni búa þarna er málinu algjörlega óviðkomandi -- í dag búa öreigarnir heldur ekki í Vesturbænum, og möguleikar þeirra á að búa miðlægt geta aðeins batnið með auknu húsnæðisframboði.

En þessi grein verður bara hlægilega barnaleg fyrir rest:

"Því miður hafa heyrst í umræðunni dylgjur um það séu einkum þingmenn úr landsbyggðarkjördæmum sem leggist gegn færslu flugvallarins en slíkt er auðvitað fjarstæða. Persónulegur ávinningur 30 einstaklinga skiptir auðvitað engu máli í jafn mikilvægu máli, en vilji kjósenda þeirra hefur trúlega mun meira að segja um afstöðu þeirra."

Já, auðvitað. Þingmenn myndu aldrei setja eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni kjósenda, er það? Nei, slíkt gerist ekki. Ég segi bara "Wow, there's one born every minute...".

"Sá ávinningur sem landsbyggðarfólk hefur af flugi til borgarinnar liggur því ekki síst í staðsetningu flugvallarins. Eins og málin standa nú virðist hann vega töluvert þyngra en tilfinngarík umræða um "þéttingu byggðar" og gildi hennar."

Umræðan (frá mínu sjónarmiði) er pragmatísk og nytjastefnuleg fremur heldur en tilfinningarík -- hún snýst um að bjóða sem flestu fólki sem bestan kost í ljósi takmarkaðra gæða. Eini tilfinningaþrunginn sem ég verð var við er andúðin og reiðin sem blossar ávallt upp meðal byggðastefnusinna þegar eitthvað skal gera fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið 15-20 ára stríð að fá tvöfaldann veg til Keflavíkur, slysamesta veg landsins, vegna mótmæla um að það sé "alltaf verið að pukra við fólkið á höfuðborgarsvæðinu" og álíka retórík -- og það hefur verið borgarbúum ljóst að það fæst lítið sem ekkert pólitískt kapítal upp úr því að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir Reykvíkinga.

Í lokinn langar mig til þess að benda á að þótt flugvöllurinn verði fluttur (sem allt virðist standa gegn), þá þarf það ekki nauðsynlega að vera til Keflavíkur. Það mætti hæglega reisa annan flugvöll á skynsamlegri stað. Ef menn leggja flugferð á sig á annað borð, þá hljóta þeir að geta þolað tíu eða fimmtán mínútur í bifreið.

Annars hefði ég mikinn áhuga á að fá í hendurnar tölurnar yfir farþegafjölda og traffík gegnum Reykjavíkurflugvöll áður en lengra er haldið...


8 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Sindri | 8.6.2005 kl. 23:18
Sindri

Burt með þennan flugvöll!

Cheering Masses | 9.6.2005 kl. 02:14
Unknown User

Woo! Sveinbjörn for president!

Eftir að miklabrautinn var flutt neðar þá fer hún líka óhugnarlega nálægt flugbrautinni. En þessi völlur fer víst ekki fyrr en ég fæ eina Fokker Friendship í gegnum húsið eða að bæjarvinnu krakkar í hljómskálagarðinum sogast upp í hreiflana á einhverri þotunni.... Já eða að athvæðavægi á Íslandi væri jafnað út milli landsbygðarinnar og höfuðborgarsvæðisins...

Steinn | 9.6.2005 kl. 06:11
Steinn

Ég skil ekki hvað þessi gaur er að bulla? Það er eins og hann vilji fá miðaldirnar aftur. Nema að hann eigi einhver fáránlega hagsmuni að gæta, sem ég persónulega get ekki skilið hverjir eiga að vera. Ég hef reyndar heyrt að þeir sem eiga flugskýli séu vel á móti þessu þar sem þeir telja sig geta tapað bæði fjárfestingu sem og góðri lóð sbr. pabbi hans Árna. Það er nú gott og blessað, en það er ekki eins og borgin ætli að fara að ræna þessa menn! Ég held að þeir muni bæta þeim það vel og vandlega!

Aðalsteinn | 9.6.2005 kl. 08:56
Aðalsteinn

Eins og Sverrir Jakobsson er nú skynsamur maður... Rökin varðandi þéttingu byggðar eru til dæmis skrítin. Að ekki standi til að dreifa byggðinni meira, þéttingin sé orðin hlutur. Eina leiðin til að þétta byggðina núna sé að flytja fólk úr úthverfum inn í Grafarvog. Algjörlega fáránlegt.

En annars finnst mér þetta svo sem ekki vera aðalatriðið. Það er algjör óþarfi að hafa tvo flugvelli í og við Reykjavík. Það er einfaldlega EKKI of mikið að þurfa að keyra þessar 45 mínútur frá Keflavíkurflugvelli og athugum að fyrir flesta er mismunurinn milli tímans sem það tekur að keyra niður í Vatnsmýri og þess tíma sem það tekur að keyra til Keflavíkur nær því að vera hálftími (t.d. fyrir Breiðhyltinga). Fyrir Hafnfirðinga er það enn minna. Og þá horfir málið þannig við að menn eru að rýna í einhvern hálftíma eins og það sé lífsspursmál fyrir fólk á Landsbyggðinni að geta verið komið hálftíma fyrr til Reykjavíkur. Ég hef alveg síðan ég byrjaði í menntaskóla ferðast hálftíma TVISVAR Á DAG á HVERJUM virkum degi. Og ekki er ég dauður enn.

Og í svo væri hægt að telja upp aðra kosti við að hafa flugið á einum stað. Það myndi gera fólki í nágrenni við Egilsstaði, Akureyri og Ísafjörð auðveldara að komast í millilandaflug, túristum sem ætla út á land auðveldara að gera það. Byggðin á Suðurnesjum hefði líka gott af því að fá flugvöllinn.

Þegar flugið væri komið til Keflavíkur væri líka orðinn betri grundvöllur til að bæta samgöngur milli Reykjavíkur og flugvallarins. Eins og þetta er í dag þarf maður að keyra niður í fokking vatnsmýri til að komast í helvítis flugrútuna.

En annars má alveg benda á það að í Reykjavík hefði vel mátt hafa sæmilega þétta byggð og auk þess þennan flugvöll ef menn hefðu ekki misst vitið í skipulagsmálum fyrir svona hálfri öld. Það hefði heldur ekki verið þörf á því að byggja nein háhýsi þannig að flugvöllurinn hefði ekki truflað við það. Athugum að fjölmargar sæmilega þéttar borgir eru bara með 4-5 hæða byggingar. Það sem þyrfti nauðsynlega að byggja hærra hefði mátt byggja lengra frá flugvellinum. Það er til dæmis miklu betra að byggja sjúkrahús hærra upp heldur en að gera eins og nú stendur til. Alltént get ég ímyndað mér að starfsfólk og sjúklingar hefðu viljað það. Ég vinn í 3-400 manna banka sem er á 3 hæðum og fólk er alveg að verða vitlaust á þessu hér. Maður getur svo ímyndað sér hvernig það er á sjúkrahúsi sem hefur þúsundir manns.

En annars veit ég ekki. Vatnsmýrin er á leið til andskotans. Það er algjört rugl að ætla að byggja sjúkrahúsið þarna og það er algjört rugl að fara að troða HR þarna.

Ekki að ég vilji vera með neinn skæting gagnvart landsbyggðinni. Margt af því sem þeir finna að við Reykvíkinga á vel rétt á sér. Og fátt finnst mér hjáktátlegra en þegar Reykvíkingar eru að væla um að þeir sé fjársveltir þegar kemur að vegamannvirkjagerð, sérstaklega í ljósi þess að á síðustu árum hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, mislæg gatnamót á Höfða, mislæg gatnamót við Sogaveg, mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut, mislæg gatnamót við Smiðjuveg og nú breyting Hringbrautar. Og "baráttan" fyrir breikkun Reykjanesbrautar var ekki beinlínis nein eyðimerkurganga. Ástæðan fyrir því að fólk er að deyja þar er fyrst og fremst sú að það keyrir eins og geðsjúklingar. En sem sagt, að öllu þessu slepptu, þá hef ég á tilfinningunni að fólk hafi ekki ígrundað þetta flugvallamál mikið heldur sjái þarna í uppsiglingu enn eina aðförina að Landsbyggðinni.

En annars fannst mér persónulega skondið, af því ég les bloggið hans Sverris Jakobssonar, að pæla í því að hann býr í miðbænum og var um helgina á ráðstefnu í nágrenni við Egilsstaði.

Aðalsteinn | 9.6.2005 kl. 08:57
Aðalsteinn

"úr úthverfum og inn í miðbæinn" átti þetta að vera

Sveinbjorn | 10.6.2005 kl. 11:20
Sveinbjorn

Fjárútlát íslenska ríkisins per íbúa er margfalt, margfalt, margfalt hærra utan Reykjavíkur. Það á kannski einhvern rétt á sér, í ljósi þess hversu skilvirkt það er að búa í þéttri byggð -- en ekki jafn fáránlega úr hlutfalli og er gert í dag.

Og ég vil benda á það, Aðalsteinn, að þótt menn reisi nokkur mislæg gatnamót í borginni (sem geymir yfir helminginn af íbúum landsins) þá er verið að eyða margfalt hærri summum í verkefni út á landi. Þannig að jú, ég get hugsað mér margt "hjáktátlegra en þegar Reykvíkingar eru að væla um að þeir sé fjársveltir þegar kemur að vegamannvirkjagerð". Það mætti telja upp fjölmörg dæmi -- t.d. framkvæmdirnar sem nú er í gangi við hringbraut -- þær voru planaðar fyrir rúmum áratug, en voru fyrst að komast í gegn nýlega vegna pólitísks mótafls.

Og jú, sama sagan gildir um tvöföldun Reykjanesbrautar. Hver einasti heilvita maður (sem keyrir til Keflavíkur annað slagið) hefur vitað að þennan veg þyrfti að breiðka af einföldum skilvirknis- og öryggisástæðum. En pólitískar mótbárur gegn því (að miklu leyti frá Framsóknarmönnum) hafa haldið þessu verkefni dauðu í áratug.

Mér þykir alveg sterkur grundvöllur fyrir því að kvarta um aðgerðarleysi og framkvæmdarleysi í Reykjavík -- kannski ekki nákvæmlega núna, en undanfarin áratug eða svo.

Aðalsteinn | 10.6.2005 kl. 13:56
Aðalsteinn

AUÐVITAÐ er eitt margföldum summum í vegakerfið út á landi miðað við Reykjavík. Annað væri fráleitt.

Hvað viltu að sé gert í Reykjavík fyrir utan þessi mislægu gatnamót? Þú slærð mann dáldið út af laginu með því að fullyrða að það sé bara ekki neitt.

Málið með hringbraut hefur verið skipulagslegt. Menn hafa verið að deila um hvernig á að gera þetta. Það hefur ekki verið pólitískur þrýstingur frá landsbyggðarþingmönnum um að gera þetta ekki.

Það er yfirleitt þannig með svona framkvæmdir að þær eru realízeraðar töluvert eftir að menn fá hugmyndina. Það er til dæmis ýmislegt sem þarf að athuga við svona tvíbreiða vegi, til dæmis það að það festist meiri snjór á þeim heldur en einbreiðum ef umferðin er ekki nógu mikil og þótt umferðin um Reykjanesbrautina sé vissulega mikil þá hefur þetta verið á mörkunum.

Sveinbjorn | 10.6.2005 kl. 14:23
Sveinbjorn

Ég var nú ekki bara að tala um vegakerfið, heldur einnig útgjöld ríkisins yfirhöfuð. Auðvitað er skiljanlegt að útgjöldin séu eitthvað meiri, en það er hlutfallið sem er "fráleitt".

Hvað vil ég að sé gert í Reykjavík fyrir utan mislæg gatnamót? Tjah, það mætti byrja á því að gefa borgarskipulagi einhvern pening -- það mætti koma upp traffic control tölvukerfi (en slíkt er ekki til fyrir Reykjavíkursvæðið) svo að fólkið sem þar starfar gæti fundið umferðarflöskuhásla og heilu hverfin séu ekki króuð af vegna framkvæmda (eins og t.d. ég hef liðið núna í næstum tvö ár vegna lokun á Suðurgötuna).

Nú þekki ég ekki nægilega vel til málsins með Hringbrautina, en punkturinn minn stendur ennþá: það er alltaf nægur peningur í hinar og þessar rándýru rugl-framkvæmdir úti á landi, á meðan framkvæmdir sem væru bæði skilvirkari og ódýrari fá að liggja í skúffunni hjá embættismönnum í Reykjavík í áratug.