Nýfrjálshyggja eða bara frjálshyggja?


29/04/2005

Ég rakst á athyglisverða færslu á bloggsíðu íslenska Frjálshyggjufélagsins þar sem Friðbjörn Orri Ketilsson ræðst gegn notkun orðsins "nýfrjálshyggja" og segir það "orðaskrípi" sem sett hafi verið fram í tilraun til þess "að koma einhverju óorði á frjálshyggjuna og fylgismenn þeirrar stefnu [á Íslandi]", og enn fremur að sú tilraun sé "vindhögg" og "hafi enga merkingu". Burtséð frá þeirri staðreynd að orð hafa nákvæmlega þá merkingu sem fólk eignar þeim, þá sé ég yfirleitt lítinn tilgang með termínólógískum eða orðsifjafræðilegum útúrsnúningum. Hann Friðbjörn virðist hinsvegar hafa tekið þessu svo nærri sér að mér finnst ég knúinn til þess að svara þessari færslu og útskýra af hverju þetta orð er notað um stjórnspekina sem hann aðhyllist.

John Stuart Mill Lítum sem snöggvast á hugmyndafræðilega muninn á "libertarianism" og "liberalism". Hefðbundin frjálshyggja ("classical liberalism") á rætur sínar að miklu leyti að rekja til Johns Locke, Adams Smith og Johns Stuart Mill. Hún lagði áherslu á að staðið væri vörð um athafnafrelsi ríkisþegna, og stóð gegn þvingunum ríkisins. Menn eins og Mill og Smith voru hins vegar ekki mótfallnir öllum ríkisafskiptum af efnahagnum, t.d. þegar markaðurinn gaf ekki æskilegustu niðurstöðuna. Mill, sem dæmi, beitti sér alla ævi fyrir því að kjör vinnandi manna í Englandi væru bætt með lagasetningum og bauð sig fram til þings með það fyrir stafni.

Nýfrjálshyggja ("libertarianism") er stjórnspekikenning sem snýst um að einstaklingar hafi rétt á algerlega óskertu athafnafrelsi svo framarlega sem athafnir þeirra skerði ekki frelsi annarra. Milton Friedman Nýfrjálshyggjumenn leggja enn fremur áherslu á að einungis "lágmarksríkið" (þ.e.a.s. ríki sem stendur vörð um líf, frelsi og eignir) eigi rétt á sér, og að öll frekari afskipti séu óréttmætar þvinganir. Stefnan sækir í hugmyndir Miltons Friedman, Friedrichs von Hayek og Ludwigs von Mises.

Mér þykir ljóst að hér sé um tvær aðskildar stefnur að ræða, og því sjálfsagt að tvö mismunandi íslensk orð séu notuð yfir þær, líkt og gert er á ensku.

Nú er allur gangur á því hvernig menn þýða hin og þessi erlendu fræðiorð. T.a.m. hafa menn þýtt orð eins og "empiricism", "idealism" o.s.frv. á ýmsa vegu gegnum árin, en í dag hafa vissar þýðingar fest sig í sessi (í ofannefndum tilfellum, "raunhyggja" og "hughyggja"). Á sama hátt hefur myndast hefð fyrir því að þýða enska orðið "liberalism" sem "frjálshyggja" eða "frjálslyndi". Og þá vaknar spurningin um hvernig skuli þýða orðið "libertarianism".

Svokallaðar "libertarian" kenningar, og enn fremur kenningar um lágmarksríkið, eru 20. aldar fyrirbæri. Orðið "libertarian" varð ekki útbreitt fyrr en upp úr 1950. "Libertarianismi" ung hugmyndafræði. Fyrir vikið hefur það verið siður að þýða það orð sem "nýfrjálshyggja". Nýyrðið endurspeglar tengsl stefnunnar við hugmyndir frjálshyggjuhugsuða 19. aldar en gerir þó mikilvægan greinarmun þeirra á milli. Þetta er að mínu mati ágætis þýðing.

Friðbjörn Orri er haldinn miklum misskilningi ef hann trúir því virkilega að orðið "nýfrjálshyggja" sé einhvers konar samsæri með það fyrir stafni að koma óorði á hann og hans félagsbræður í þessu Frjálshyggjufélagi. Það eru margar betri leiðir til þess að grafa undan málstaði þeirra. "Nýfrjálshyggja" er á engan hátt niðrandi orð, og lítil ástæða fyrir Friðbjörn að æsa sig yfir því, eða álykta að með þessari orðnotkun sé gerð undirförul aðför að honum og hans stjórnspeki.


11 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Adalsteinn | 29.4.2005 kl. 09:13
Adalsteinn

Ég sá að á forsíðu blogg.frjalshyggja.is er önnur grein af svipuðum toga eftir einhvern Sævar Guðmundsson.

Sá gaur hefur fundið á netinu eitthvað fyrirbæri (í félagahafinu í bandaríkjunum) sem heitir 'neo-libertarian' og heldur því fram að þeir sem kalli þá 'nýfrjálshyggjumenn' séu að tengja þá við það félag.

Sveinbjörn | 29.4.2005 kl. 09:40
Sveinbjörn

Það er rugl og vitleysa. Ég hef aldrei heyrt getið um neina "neo-libertarians", en hvernig sem það nú er, þá hefur nýfrjálshyggja verið notuð sem gott og gilt íslenskt orð yfir "libertarianism" í langan tíma, og er notað af kennurum í stjórnmálaheimspeki við Háskóla Íslands.

Grímur | 29.4.2005 kl. 13:34
Grímur

Skv. þessu ætti "neo-libertarian" að vera "splunku-nýfrjálshyggjumaður" :)

Steinn | 29.4.2005 kl. 23:01
Steinn

Það verður að teljast frekar sorglegt að jafn rökfastur maður (ekki það að það sé jákvætt) og þessi dude, að hann viti ekki hvaða stefnu hann fylgir meðan hann er að berjast fyrir henni!

Sævar Guðmundsson | 2.5.2005 kl. 22:32
Unknown User

Vísindavefurinn hefur svarið.
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1687

You lose.

Adalsteinn | 3.5.2005 kl. 00:18
Adalsteinn

Ekki að ég ætli að dæmi þetta vitlaust eða rétt, en þó að Atli Harðarson heimspekingur og frjálshyggjumaður skrifi eitthvað á vísindavefinn þá er það varla orðið heilagur sannleikur.

Lárus Þorvaldsson | 3.5.2005 kl. 01:23
Unknown User

Orðabækur geta oft verið mjög gagnleg tæki. Þær henta hins vegar sennilega ekki vilji maður skilgreina hugtök upp á nýtt, „málstað“ sínum til hagsbóta. „Málstaðurinn“ í þessu tilfelli er trúlega ekki merkilegri en sá að geta haldið áfram að nota skammaryrðin sín óáreittur.

Anonymous Coward | 3.5.2005 kl. 03:02
Anonymous Coward

Steingrímur Joð notar orðið nýfrjálshyggja, ég hef ekki heyrt aðra þingmenn nota það orð, greinarhöfundur hefur skrifað 5 ad-hominem greinar gegn frjálshyggju(mönnum) þannig að við ættum að geta komist að þeirri niðurstöðu með stærfræði að nýfrjálshyggja sé orð notað af classical statistum og classical collectivistum.

Það væri kannski hægt að kalla ykkur neo-statists eða neo-collectivist, en ég sé það ekki þjóna neinum tilgangi :)

Sveinbjörn | 3.5.2005 kl. 05:11
Sveinbjörn

Nú þykir mér merkilegt hvernig fólk er að bregðast við...

Eins og ég tek fram í greininni, þá hefur það verið siður heimspekinga við heimspekiskor Háskóla Íslands að tala um "nýfrjálshyggju" sem þýðingu á enska orðinu "libertarianism". Þetta var a.m.k. siðurinn í þeim stjórnspekiáföngum sem ég hef setið, kenndir af Gunnari Harðarsyni dósent og Þorsteini Gylfasyni prófessor, og í greininni fyrir ofan þá tel ég mig gefa góða útskýringu fyrir þessari notkun. En annars er voða lítið vit í að rífast yfir orðnotkun -- stefnan er sú sama hvort sem menn kalla hana frjálshyggju, nýfrjálshyggju, libertaríanisma eða líberalisma. Það hjálpar þó að hafa mismunandi orð fyrir mismunandi stefnur til að geta aðgreint þær í stjórnmálaumræðu.

En mig langar til að svara hér tveimur fremur barnalegum staðhæfingum:

...skilgreina hugtök upp á nýtt, „málstað“ sínum til hagsbóta. „Málstaðurinn“ í þessu tilfelli er trúlega ekki merkilegri en sá að geta haldið áfram að nota skammaryrðin sín óáreittur.

Þetta er nákvæmlega viðhorfið sem ég skil ekki. Hvernig í ósköpunum getur nokkur maður túlkað orðið "nýfrjálshyggja" sem skammaryrði? Nú er t.d. nýmarxismi einnig viðtekið heiti yfir ákveðna tegund af nýlegri marxískri stjórnspeki, en menn kalla sig nýmarxista sjálfir (sbr. skrif Habermas), án þess að lesa út úr því einhverja árás á sínar kenningar. Ef ég vildi nota skammaryrði yfir nýfrjálshyggjumenn, þá mundi ég hreinlega kalla þá hálfvita, en það hef ég ekki gert, þó að í ljósi athugasemdana hér á síðunni þá ætti maður kannski að taka upp þann sið.

Steingrímur Joð notar orðið nýfrjálshyggja, ég hef ekki heyrt aðra þingmenn nota það orð, greinarhöfundur hefur skrifað 5 ad-hominem greinar gegn frjálshyggju(mönnum) þannig að við ættum að geta komist að þeirri niðurstöðu með stærfræði að nýfrjálshyggja sé orð notað af classical statistum og classical collectivistum.

Sú staðreynd að Steingrímur J. Sigfússon noti orðið frjálshyggja eru engin rök fyrir því að orðið sé í eðli sínu neikvætt. Nú notuðu menn "Marxismi" og "kommúnismi" sem eitthvað neikvætt víðs vegar um heiminn á kaldastríðsárunum, en það væri fáránlegt að segja að orðin sem slík séu neikvæð. Orð þessi eru neikvæð eftir því hvernig mönnum líkar við kenningarnar sem þær vísa til.

Mér þykir mjög ómálefnalegt af þér, og óheiðarlegt, að kalla greinarnar mínar ad hominem. Ef þú hefðir tekið þér tíma til að lesa þær, þá mundirðu gera þér grein fyrir því að þær eru það alls ekki, og einkennast þá öllu heldur af heimspekilegum og empírískum röksemdafærslum gegn nýfrjálshyggju. Eina sem mætti túlka sem ad hominem er í athugasemd á grein Friðbjörns nokkurs Orra þar sem ég kallaði hann "rugludall", en í seinna svari mínu baðst ég sérstaklega afsökunar á því.

Enn fremur þá þykir mér afar barnalegt að ásaka mig um að vera "statista" eða "collectivista". Ég er hvorugt. Sú staðreynd að ég er ekki froðufellandi nýfrjálshyggjuadvókat þýðir ekki að ég sé bullandi marxisti. Svona tal minnir helst á George Bush -- "You're either with us or against us" -- einhvers konar svarthvít heimssýn sem er einkenni þröngsýnna og ofstækisfullra manna, og á enn síður heima í 21stu aldar stjórnmálum.

Sú staðreynd að ég hef skrifað greinar gegn nýfrjálshyggju veltur hreinlega á þeirri staðreynd að stjórnspekikenningar hennar eru stór hluti af námi mínu og ég er að vinna að B.A.-ritgerð um það efni. Svo hjálpar auðvitað að nýfrjálshyggjan er meingölluð stjórnspekikenning og létt að finna vankanta á lykilhugmyndum hennar. Ég hvet þig til að lesa greinarnar. Kannski fær það þig til að mynda skoðun á röklegum grundvelli þannig að þú getir svarað skrifum mínum með einhverju öðru en staðhæfingum um að þau séu ad hominem, collectivist Stalínismi, eða hvað það nú er sem þú vilt eigna mér.

Lárus Þorvaldsson | 3.5.2005 kl. 15:05
Unknown User

Þú skautar fram hjá meginatriði athugasemdar minnar, ráðleggingunni að fletta þessum orðum upp í orðabók. Í ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs stendur: „liberalsim: [...] 1. frjálslyndi. 2. Einnig Liberalism, frjálslyndisstefna. [...]“ og „libertarianism [...] 2. frjálshyggja, frelsisstefna, stjórnmálakenning sem setur frelsi einstaklingsins öllu ofar.“

Það sem stundum hefur verið þýtt sem nýfrjálshyggja er „neoliberalism“, afskaplega þokukennd hugmyndafræði sem réttilega ætti að þýða sem nýfrjálslyndi. Fyrir nánari útleggingu á þeim hugmyndum mæli ég með að þú flettir þeim upp í Wikipediu.

Annars hefðir þú getað sparað þér þónokkur skrif með því að leita á náðir orðabókarinnar.

Sveinbjörn | 3.5.2005 kl. 22:08
Sveinbjörn

Eins og ég tók fram í greininni, þá er mikill losarabragur á því hvernig heimspekilegur orðaforði hefur verið þýddur yfir á íslensku gegnum tíðina, og eru orðabækur alls ekki áreiðanlegar.

En hvað um það, þá þykir mér alls ekki skipta miklu máli hvernig svona lagað er þýtt svo lengi sem það ríkir almennt samkomulag á þá vegu að menn geri sér grein fyrir því hvað um er verið að tala.

Það sem ég skil aftur á móti ekki er afhverju þið takið orðinu "nýfrjálshyggja" svona nærri ykkur. Stjórnspekikenning þarf ekkert að vera verri þótt hún sé ný. Ef eitthvað, þá er það henni til málsbóta.