Begging Woman Ég rakst á sérkennilega röksemdafærslu áðan við að lesa pólitísk spjallborð. Röksemdafærsla þessi kom frá einhverjum dæmigerðum Freidrich Hayek - Milton Friedman-týpu nýfrjálshyggjupésa. Hann var spurður hvernig hans útópíska frjálshyggjustjórnkerfi mundi sjá fyrir þeim fátæku, lömuðu, veiku o.s.frv. -- því fólki sem hefði ekkert að bjóða á opnum markaði. Svarið þótti mér afar merkilegt: hann sagði að undir frjálshyggjuskipulagi væri hagvöxtur miklu meiri þökk sé afskiptaleysi ríkisins. Fyrir vikið væri heildarauður samfélagsins meiri, og þ.a.l. væru hinir vel stæðu líklegri til að gefa ölmusu og peninga til góðgerðafélaga. Þetta þykir mér mjög lélegt svar.

Til að byrja með, þá hef ég ekki séð neinar kannanir sem sýna að örlæti fólks aukist í hlutfalli við auð. Þetta virðist vera háð flóknum félagslegum þáttum. Þeir sem hafa ferðast til afar fátækra landa kannast kannski við það að fólk sem á rétt svo nóg til að lifa sýnir oft á tíðum mikla gestrisni og örlæti.

En hvað með ríku löndin? Undanfarin hundrað ár hefur efnahagur Bandaríkjanna stækkað gríðarlega, og hagsæld aukist -- Í dag eru yfir milljón bandaríkjamenn sem eiga milljón bandaríkjadali eða meira. Aftur á móti hefur örlæti hinna ríku farið statt og stöðugt minnkandi samkvæmt nýlegri grein í The Economist. Það má sjá afleiðingar örlætis Rockefeller feðgana, Carnegie, Vanderbildt og Mellon víðs vegar um Bandaríkin, en þeir voru allir uppi á fyrri hluta 20. aldar. Fjöldinn allur af hjálparstofnunum, rannsóknasjóðum og háskólum eiga þeim tilvist sína að þakka. En í dag er mikið af ríka fólkinu "born rich", jafnvel þriðja kynslóð af auðkýfingum sem hefur aldrei unnið á botninum og skilur ekki heim hins fátæka manns. Þetta fólk er ekki örlátt þótt það sé nú ríkari en nokkru sinni fyrr. Það eru því góðar ástæður til að halda að aukin hagvöxtur dugi ekki til þess að bjóða þeim verst settu ásættanlegt líf án velferðarkerfis.

Ímyndum okkur nú samt sem áður að örlæti ykist í samræmi við hagvöxt, og að hinir fátæku og illa settu hlytu ölmusu sem gæfi þeim ásættanlegt líf. Þetta þykir mér samt sem áður algjörlega óásættanlegt. Þetta eru mannverur líkt og aðrar, og eiga skilið að lifa með einhvers konar reisn og öryggi. Hvers konar útópía er þetta þar sem fólk þarf að betla sér lífsviðurværis, og treysta á ölmusu annara til að framfleyta sér? Hvað verður um mannlegt stolt? Það má vel vera að svona spurningar angri ekki nýfrjálshyggjuliðið, en þær angra mig. Í minni útópísku hugsun þyrfti enginn að betla eða hljóta ölmusu -- hver einasta manneskja hefði rétt til lífsviðurværis. Samfélag eins og Ísland hefur til dæmis vel ráð á að framfylgja þannig hugsjón, og gerir það að einhverju leyti.

Russell Pipe "It is true that poverty is a great evil, but it is not true that material prosperity is a great good. "
--Bertrand Russell, "Roads to freedom"

Það má reka þessa deilu til tveggja mismunandi "end-state" markmiða: hámarka heildarhagsæld eða útrýma/minnka vansæld. Fyrir mitt leyti, þá er ég sammála Russell. Það er betra að reyna að útrýma vansæld, af mjög einfaldri, praktískri ástæðu. Menn deila um hvað sé hið góða líf: sumum finnst það vera hagsæld, öðrum atvinnuframi, öðrum virðing og akademískt orðspor, enn öðrum trú á æðri máttarvöld. Aftur á móti ríkir almennt samkomulag meðal fólks um að fátækt, hungur og örbirgð séu hræðilegir hlutir. Ég tel besta kostinn vera að útrýma þeim, og þessi blessaða nýfrjálshyggja er ekki leiðin.

Mér var annars að detta eitt athyglisvert í hug. Fræga nýfrjálshyggjurit Friedrichs von Hayek heitir "The Road to Serfdom", á meðan bók Russells sem ég vitnaði í að ofan heitir "Roads to freedom". Hmm....


2 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Magnusson | 26.4.2005 kl. 16:26
Magnusson

Menn deila kanski um "hvað sé hið góða líf" en það er bara því að þeir hafa ekki rekist á speki Conan ennþá.

"Crush your enemies, see them driven before you, and hear the lamentation of their women!"

En það er kanski full nýfrjálshyggjupésalegt... Var Conan Barbari eða nýfrálshyggjumaður? Er það hugsanlega eitt og hið sama?... Er nýfrjálshyggja kanski bara nútíma barbarismi?

Sveinbjörn | 28.4.2005 kl. 21:44
Sveinbjörn

Einhver sniðugur gaur orðaði þetta svona:

"The libertarian is engaged in one of man's oldest exercises in moral philosophy; that is, the search for a superior moral justification for selfishness."