Það er hreint út sagt ótrúlegt hverju hægt er að afkasta ef nógu mikið af vel menntuðu, frábærlega hæfileikaríku fólki við ríkar menntastofnanir fær nógu mikið af peningum til að stunda rannsóknir. Í lesefninu mínu fyrir kúrsinn "Mind, Language and Cognitive Science" fengumst við mestmegnis við heimspeki og vísindi gervigreindar, og hluti greinanna var frá vísindamönnum við MIT. Sá skóli hefur stærstu og best fjármögnuðustu gervigreindar-rannsóknadeild í heiminum, og það sem þessir menn eru að gera er alveg ótrúlegt.

Það er einnig merkilegt að Harvard er að setja bókasafn sitt í stafrænt form -- það eru 15 milljón bækur! Ekki amarlegt að geta gúglað það...

Já, þótt háskólamenntun í Bandaríkjunum sé ekki öllum aðgengileg, þá eru þeir svo sannarlega að gera eitthvað mjög rétt -- þeir standa fyrir þorranum af merkilegri rannsóknavinnu í heiminum. Ekki einungis hafa þeir nægan pening, heldur laða þeir að sér besta fólkið í flestum greinum -- framúrskarandi fræðimenn sækjast skiljanlega til metorða og virðingar, og slá fæstir hendinni við örlátu tilboði frá virðulegum skólum...