11.3.2005 kl. 16:14

“Saga Heimsins er réttarsalur Heimsins.”

Þetta skrifaði þýski heimspekingurinn Gottfried Wilhelm Friedrich Hegel í riti sínu Réttarheimspeki. Eins og öll skrif Hegels er þessi setning kannski eilítið torskilin og öðlast fyrst skýra merkingu ef sett í samhengi við önnur skrif hans. Ég þykist ekki geta gert almennilega grein fyrir söguhyggju Hegels eins og hún leggur sig, en grófir drættir ættu að nægja til að fylgja brautinni sem hún hefur rutt sér í hugmyndasögunni.

Hegel las Schiller og önnur þýsk-rómantísk skáld í æsku og skrif hans bera þó nokkurn vott um innblástur rómantíkurinnar og þjóðernishyggjunnar sem fylgdi í kjölfarið. Í söguhyggju Hegels eru ríki ekki eingöngu hópar af einstaklingum. Þau búa yfir “Anda” (þ. Geist), eins konar persónuleika sem aðgreinir þau frá öðrum ríkjum og er hlutverk þeirra í Heimssögunni. Heimssagan er leikvangur Ríkjanna og einkennist af átökum þeirra á milli.

Í Réttarheimspekinni tilgreinir Hegel fjögur veldi í ferli Heimssögunnar: (1) Hið austurlenska heimsveldi þar sem einstaklingurinn fær engu ráðið undir alveldi ríkisins, (2) veldi Grikkja, einstaklingurinn verður allsráðandi og Ríkið lærir að meta þær einingar sem það samanstendur af, (3) Rómarveldi, þar sem einstaklingurinn lærir hlýðni og samheldni á ný, margar þjóðir lúta einni stjórn og séreinkennum þeirra haldið aftur, og loksins (4) þýska keisaradæmið, þar sem samlífi (”Synthese”) myndast milli einstaklings og Ríkis. Í þýska keisaradæminu nær Heimssagan hápunkti sínum og “Andinn kemur til sjálfs sín” (hvað svo sem það kann að þýða).

Áhrif Hegels á þýska heimspeki fer fyrst að gæta árið 1818 í kjölfar skipunar hans sem arftaka Hermans von Fichte í prófessorsstöðu við Berlínarháskóla. Þýskir háskólar 19. aldar voru í umsjón ríkisins, sem laut einveldisstjórn Friðríks Vilhjálms þýskalandskeisara. Það kemur því tæpast á óvart að heimspeki Hegels slær ráðamann ríkisins gullhömrum. Skrif hans um söguspeki og stjórnspeki hafa þurft að sæta harðri gagnrýni frá heimspekingum á borð við Karl Popper og Bertrand Russell, sem lýstu þeim sem “ríkisheimspeki” og ásaka Hegel um að hafa verið lítið annað en “hugmyndafræðilegur málaliði Prússlandskeisara”.

Hegel lést árið 1831, en var þá orðinn sannkallaður “einræðisherra þýskrar heimspeki”. Fimm árum síðan, fyrir tilstilli Brunos Bauer, var ungur laganemi kynntur fyrir heimspeki hans. Laganemi þessi var Karl Marx. Marx tók helstu hugmyndirnar í söguspeki Hegels og aðlagaði þær að sínum eigin kenningum. Í ritum hans einkennist Heimssagan ekki af átökum milli Ríkja heldur þess í stað af stéttabaráttu milli öreiga og auðvalds; þessari stéttabaráttu átti að ljúka með byltingu öreiganna og tilkomu kommúnistaríkis. Samkvæmt Marx er þessi þróun er ekki einungis óhjákvæmileg, heldur æskileg, því þá fyrst mun átökunum ljúka og réttlæti ríkja. Tilætlanir Marx voru sennilega göfugar -- hann sá grimmd hins óbeislaða kapítalisma og reyndi að greina leið út úr honum. En þeir fræðimenn sem fetuðu í fótspor hans, bæði í Rússlandi og í vestri, notuðust við kenningar hans til að réttlæta og afsaka Sovétríkin.

Hugmyndir þýskra nasista um “þúsund ára ríkið” má einnig að rekja einhverju leyti til söguhyggju Hegels. Adolf Hitler kynnti sér heimspeki Hegels, Nietzche og Fichte á sínum yngri árum sem ungur listamaður í Vínarborg. Það er óneitanlega hegelskur keimur af hugmyndafræði og áróðri nasista. Fyrsta ríkið var hið heilaga rómverska keisaraveldi, annað ríkið var prússneska Hohenzollern keisaradæmið frá 1871 til 1918, og þýsk saga átti loksins að hafa náð endanlegum áfangastað sínum með þriðja ríkinu, fasistaríki Hitlers. Margir fræðimenn stóðu vissulega fastir gegn nasistum og notuðu kennivald sitt til að beina fólki gegn Hitler. En flestir þýskir fræðimenn sættu sig hljóðlátir við nýja stjórnskipun og kenndu stundvíst “arýska stærðfræði”, “arýska eðlisfræði” og “arýska sögu”, sneidda öllu sem gyðingar lögðu til þessara fræða.

Í dag má finna söguhyggju Hegels í ritum Francis Fukuyama. Fukuyama er stjórnmálaheimspekingur við John Hopkins-háskólann í Baltimore og vakti heimsathygli með bók sinni The End of History and the Last Man. Bókin kom út árið 1992 í kjölfar falls Sovétríkjanna. Fukuyama yfirfærir söguhyggju Hegels á heim samtímans: fall Sovétríkjanna markar endanlegan sigur markaðsbúskapar og frjálslynds lýðræðis, þ.e.a.s. Bandaríkjanna, í “réttarsali Heimsins”. Í enn eitt skiptið virðumst við hafa komist á “áfangastað” Heimssögunnar. Bandaríki Norður-Ameríku búa ekki einungis við réttláta stjórnskipan, heldur gerist hún einfaldlega ekki betri. Þess má geta að Fukuyama gegnir starfi innan Bush-stjórnarinnar og er lykilmeðlimur í bandaríska “think-tank”-inum Project For The New American Century.

Rauður þráður liggur gegnum þetta allt saman. Fræðimenn virðast margir hverjir taka sér það fyrir hendur að réttlæta ríkjandi ástand -- þetta sést best í heimspeki og stjórnspeki. Í stað þess að gagnrýna takmarkanir ráðandi fyrirkomulags kjósa þeir fremur að gefa sér núverandi ástand sem eins konar “markmið” eða “niðurstöðu”. Kenningar og hugmyndafræði má síðan teygja til og frá þar til sæmilega sannfærandi fræðileg réttlæting fæst, og best af öllu er að vitna í kennivald fyrri manna sér til stuðnings. Þetta kalla ég akademískan hórdóm, og álít vera af alvarlegri gerð en sá holdi bundni.

Það má auðvitað finna fjölmargar undantekningar á þessu -- sagan hefur fært okkur djarfa og hreinskilna menn sem gagnrýndu samtímann. En staðreyndin er sú að akademíkarar eru upp til hópa voða lítið frábrugðnir öðru fólki -- ef eigin hagsmunir eru að veði fljúga háfleygar siðferðislegar kennisetningar brátt út um gluggann. “Akademíski háhesturinn”, fræðimenn “utan heimsins”, er ekkert nema tálsýn sem okkur er matað með krók og beitu í von um að við kyngjum. Maður fellir næstum tár við tilhugsunina um hvernig fagri hugsjón fræðilegs hlutleysis hefur verið nauðgað. En hvernig má bæta ástandið?

Ég tel að sömu augum beri að líta á akademískar stofnanir og fjölmiðla. Stjórnarskrá tryggir að fjölmiðlum frelsi undan þrýstingi frá ríkinu. Akademíska samfélagið ætti að búa við sömu lögbundnu réttindin. Þetta gæfi fræðimönnum frelsi til að segja það sem segja þarf, en óttast ekki um framtíð sína og fjárhag falli það miður að skapi ráðamanna. En fyrst og fremst þarf tryggingu fyrir því að fræðimenn séu ekki skipaðir á pólitískum grundvelli, líkt og Hannes nokkur Gissurarson, heldur þess í stað metnir á grundvelli akademísks ferils og fræðilegs mannorðs. Sé ekki haldið vörð um þetta tvennt munu menntastofnanir brátt fyllast af útblásnum, hrokafullum “já-mönnum” á borð við Snowball úr Dýrabæ Orwells -- smjaðrandi svín sem hlaupa hringi í kringum leiðtoga í von um að kjötbita sé kastað í þeirra átt.

Hvernig getur menntastofnun háð fjárveitingum ríkisins forðast pólitískan þrýsting? Það virðist ómögulegt -- mislíki ráðamönnum starf stofnunarinnar er það sáraeinfalt að skera á lífæðina. Og vilji menn tryggja lífæðina með lögum reynast ráðamenn ófúsir til samþykkis, enda gjarnir á að verja vald sitt með kjafti og kló. Eina tryggingin sem fæst er af pólitískum toga -- fræðimenn þurfa að stíga inn í leikhring stjórnmála og með fólk landsins sér að baka standa vörð um akademískt frelsi. En þá eru þeir aftur á móti komnir niður í skítinn með ráðamönnum.