10.3.2005 kl. 14:29

Síðasta færsla mín hér á síðunni gekk út á að hrekja nokkrar algengar röksemdafærslur nýfrjálshyggjumanna. Röksemdafærslur þessar og mótrök gegn þeim voru af heimspekilegri toga. Aftur á móti þá er ahyglisvert að hugleiða nokkur praktísk samfélagsvandamál sem lágmarksríki plús markaður virðast ekki geta leyst.

Jón bóndi

Ímyndum okkur að við höfum eitthvað ákveðið kassalaga landsvæði. Það má hugsa sér að þessu landsvæði sé skipt í 9 reiti. Jón bóndi á landreitinn í miðjunni, en aðrir bændur eiga svæðin í kring. Síðan kemur Gunni iðnjöfur og kaupir upp þessa 8 reiti í kringum reit Jóns bónda.

Undir fyrirkomulagi nýfrjálshyggjunnar þá er eignaréttur Gunna algjör. Hann getur meinað Jóni bónda aðgöngu að landinu sínu. Hann getur reist risastóra múrveggi í kringum landareign Jóns og ráðið varðmenn með varðhunda til að gæta svæðisins. Síðan getur hann byggt risastórar verksmiðjur á landareignum sínum, sem spýja út svörtum kolareyk (munið að ríkið skiptir sér ekki af mengun!). Þarna er illa farið með Jón bónda, þykir mér. Hann getur ekki yfirgefið landsvæði sitt án heimildar Gunna, og líður heilmikið fyrir "externalities" sem fylgja þeirri starfsemi sem fyrirfinnst á reitunum sem snerta landskika sinn.

Það er fremur írónískt að stjórnkerfi þar sem svona lagað getur viðgengist skuli kenna sig við frelsi. Ég fæ ekki betur séð en að Jón bóndi búi þarna við töluvert ófrelsi -- hann getur ekkert farið, og fyrir vikið getur ekkert gert utan landareignar sinnar. Ef hann reynir að ræða við ríkið um þetta, þá fær hann blákalt svarið "Ríkið ver einungis líf, frelsi og eignir". Kannski mundi nýfrjálshyggjumaður svara að brotið væri á frelsi Jóns, og að Gunni ætti að leyfa honum að ferðast gegnum svæðið sitt, en þá er brotið á eignarétti Gunna. Þarna er þversögn í kerfinu. Ef ríkið á að tryggja ferðafrelsi Jóns þá þarf leið til að leysa slíkar þversagnir. Þetta þýðir að stofna þarf nefndir, hagsmunafélög og sérfræðinga til að leysa vandann, en þá erum við tæpast lengur með þetta útópíska lágmarksríki, er það?

Kvöldblaðið

Ímyndum okkur að Gunni auðjöfur eigi stórt dagblað, köllum það Kvöldblaðið. Upp kemur deila milli Gunna og Jóns (kannski í kjölfar ofannefndrar deilu?), og Gunni verður mjög bitur í garð Jóns. Hann lætur Kvöldblaðið prenta á forsíðuna "Jón bóndi er barnaníðingur og morðingi" eða eitthvað álíka. Í kjölfarið er mannorð Jóns svert, og enginn vill eiga samskipti við hann né veita honum lífsnauðsynjar. En þarna er ekki brotið á rétti Jóns til lífs, eigna eða frelsis. Það er hreinlega logið um hann í fjölmiðli.

Klassískt svar nýfrjálshyggjumanna við svona vandamáli er að segja að markaðurinn refsi Kvöldblaðinu fyrir að prenta lygar, þ.e.a.s. að fólk muni hætta að kaupa Kvöldblaðið því það treystir ekki lengur því sem þar stendur. Þannig mun blaðið líða fyrir lygarnar sem það birti. En hver ætlar að upplýsa fólkið um að Jón bóndi sé ekki barnaperri? Aðrir fjölmiðlar? Allt í lagi, ímyndum okkur að markaðurinn refsi slíku dagblaði í raun og veru (þótt sagan sýni annað). Ímyndum okkur að fólk frétti af lygunum og hætti að versla við Kvöldblaðið, og blaðið verður gjaldþrota í kjölfar þess. Ímyndum okkur að þetta sé sanngjörn refsing fyrir að prenta lygar. En hvað með Jón? Mannorð hans hefur orðið fyrir hnekki. Kannski loðir barnaníðingsstimpillinn yfir honum alla ævi. Hvernig er honum bætt þetta óréttlæti? Við því hefur nýfrjálshyggjan engin svör -- samkvæmt henni hefur Jón engan rétt til miskabóta. Markaðurinn sér um réttlæti.

Mér þætti gaman að heyra hvað nýfrjálshyggjumenn hefðu að segja við ofantöldum dæmum. Ég sé ekki hvernig hægt er að halda bæði í lágmarksríkið og tryggja Jóni réttlæti í þessum tveimur aðstöðum.


7 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Anonymous Coward named Steinn | 10.3.2005 kl. 17:11
Unknown User

Ég verð að segja að röksemdafærsla þín er góð. En eitt vil ég þó fá að vita: Hvernig vill lágmarksríkið standa að löggæslu og réttarkerfi, hvað þá fangelsisstofnunum sem eru ekki þrælabúðir? Hefur einhver frjálshyggjumaðurinn útlagt eitthvað í þá átt að vera beinagrind um allar þessar nauðsynja stofnanir sem varða öryggi manna. Hvernig hafa þeir hugsað sér að halda úti her t.a.m. Þeir ættu nú að vita það að fyrirmyndaríki þeirra BNA eyða milljörðum dala á hverju ári í herinn, sem er síðan "the backbone" þeirra í leiðtogastöðu sinni innan fjármálaheimsins. Hvernig hefðu þeir annars tryggt sér mið-ameríku? Hvað þá suður-ameríku o.s.fr.?

Aðalsteinn | 10.3.2005 kl. 18:31
Aðalsteinn

Flestir frjálshyggjumenn eru reyndar mjög hrifnir af allskyns stríðsbrölti þar eð það þykir samsvara mjög vel hlutverki lágmarksríkisins við að vernda eignir og frelsi borgarana.

Ég veit bara um einn frjálshyggjumann sem var illa við hernað og vildi jafnvel að Ísland færi úr NATO. Sá heitir Björgvin Guðmundsson og var einu sinni formaður heimdallar. Því miður hafa ekki margir slíkir fylgt í kjölfarið.

Ein helsta hugveita (thinktank) frjálshyggjumanna í Bandaríkjunum er Cato stofnunin. Dyggir lesendur Vefþjóðviljans hafa oft og mörgum sinnum séð vitnað í hana. Sú stofnun er núna mjög harðorð í garð stjórnvalda í Bandaríkjunum fyrir utanríkisstefnuna og þá helst hið gegndarlausa fjáraustur sem henni fylgir. En ég hef enn ekki getað séð að vorir frjálshyggjumenn hafi mikinn áhuga á því.

Sveinbjörn | 10.3.2005 kl. 18:33
Sveinbjörn

Lágmarksríkið skal á einn eða annan hátt tryggja líf, frelsi og eignir gegnum einhver public apparöt. Væntanlega inniheldur þetta her til að verja frelsi, líf og eignir íbúa ríkisins frá öðrum ríkjum, en svona smáatriði eru breytileg eftir því hvaða nýfrjálshyggjuspekinga maður les.

Svo framarlega sem ég fæ séð, þá er bara grundvallarhugmyndafræði nýfrjálshyggju meingölluð og full af þversögnum. Svona "implementation" pælingar bara aukaatriði.

Sveinbjörn | 10.3.2005 kl. 18:38
Sveinbjörn

Önnur athyglisverð pæling:

Í dag er að eiga sér stað hnattvæðingin mikla ("globalization" er algjört buzzword þessa dagana), en þá eru eignir borgara allt í einu dreifðar víðs vegar um heiminn. Hefur þá lágmarksríkið skyldu til að verja erlendar eignir borgaranna?

Anonymous Coward | 10.3.2005 kl. 19:38
Anonymous Coward

Ég sá þig í sjónvarpinu!

Sveinbjörn | 10.3.2005 kl. 20:08
Sveinbjörn

Hver ert þú og hvenær sástu mig? Var það í sambandi við rektorskosningarnar?

Aðalsteinn | 10.3.2005 kl. 22:14
Aðalsteinn

já sorry gleymdi að kynna mig.