Nýfrjálshyggjumenn vilja algjört markaðsfrelsi, og eru mótfallnir tekjudreifingu gegnum skattkerfi. Ríkið skal vera lágmarksríki sem takmarkar sig við varnir á lífi fólks, frelsi og eignarétti. Að lágmarksríkinu gefnu tryggir markaðshagkerfið réttlæti.

Þetta er dæmigerð hugmyndafræði fyrir okkar tíma. Ég tilheyri kynslóð sem hefur vaxið úr grasi við fjárhagslegt öryggi og velmegun sem er markaðsbúskapi að miklu leyti að þakka. Það kemur því tæpast á óvart að stjórnspekikenning eins og nýfrjálshyggja sé höfð í öndvegi meðal margra sæmilega þenkjandi manna. Nýfrjálshyggjan er samt sem áður rotið epli.

Ef stjórnspekikenning á að sannfæra okkur, þá verður hún að sýna fram á að hún sé réttlát. Ekki nægir að höfða til fordóma eða ræða hagsmuni ákveðna hópa. Fyrir vikið hef ég grafið upp þrjár algengar röksemdafærslur nýfrjálshyggjuspekinga og fer hér yfir þær.

1. Kúgun ríkisins

Sumir verja óskarað markaðshagkerfi á þeim forsendum að það komi í veg fyrir kúgun ríkisins. Ef miðstýrt ríki býr yfir valdi til þess að skipta sér af efnahagi fólks þá er það líklegra til þess að skipta sér af öðrum hliðum lífsins. Markaðslöggjöf og miðstýring er því sögð vera fyrsta skrefið á "veginum til þrældóms", í frægu orðum Friedrichs von Hayek. Röksemdafærslan er í grundvallaratriðum svona:

 1. Miðstýrt vald veldur spillingu
 2. Ríkisafskipti af efnahagnum eru tegund af miðstýrðu valdi
 3. Ríkisafskipti af efnahagnum takmarkar frelsi fólks á einu sviði
 4. Ef ríkið fær vald til að takmarka frelsi á einu sviði þá mun það hægt og rólega takmarka frelsi á öðrum sviðum
 5. Af ofangreindum ástæðum valda miðstýrð afskipti af efnahagnum spillingu og leiðir til alvarlegra frelsisskerðinga
 6. Til þess að koma í veg fyrir spillingu og hámarka frelsi okkar ber okkur því að láta markaðshagkerfið starfa án afskipta frá ríkinu

Það er ósköp lítið varið í þessa röksemdafærslu. Þótt að forsendur 1) til 3) séu sennilega sannar, þá má setja stórt spurningamerki við forsendu 4). Það er kannski satt að umsvifamikið ríki geti reynst afskiptasamt en það er engin ástæða til að ætla að upplýstir borgarar sem búa við sterkt lýðræði geti ekki staðið vörð um borgaralegt frelsi. Í Frakklandi vinnur tæpur helmingur þjóðarinnar fyrir ríkið eða ríkisfyrirtæki, og efnahagurinn býr við töluverða miðstýringu. Einungis öfgamanni mundi detta í hug að segja að út 20. öldina hefði Frakkland stigið "veginn til þrældóms". Frakkar hafa þvert á móti staðið vörð um frelsi sitt á lofsverðan hátt. Borgaraleg gagnrýni og fjölmiðlaumfjöllun getur einnig haldið spillingu í skefjum. Sennilega er aldrei hægt að útrýma spillingu algerlega, en þá má benda á að hún fyrirfinnst einnig hjá markaðsfyrirtækjum (sbr. Enron). En þetta eru bara mótdæmi -- þessi forsenda er ógild því hún notast við "slippery slope" röksemdafærsluna: ef eitthvað fær að taka fyrsta skrefið, þá hlýtur það að komast alla leið.

Sagan hefur ekki látið í ljós nein bein tengsl milli markaðsbúskapar og borgaralegs frelsis. Það eru til þjóðir sem hafa búið við næstum afskiptalausan markaðsbúskap en samt liðið gífurleg mannréttindabrot og frelsisskerðingu (t.d. einræðisstjórnir í Chile og Argentínu, eða jafnvel McCarthy tímabilið í Bandaríkjunum). Síðan eru til lönd með umfangsmikið velferðarríki og töluverða efnahagsmiðstýringu, en svo að segja óflekkaðan mannréttindaferil og umtalsvert borgaralegt frelsi (sbr. Norðurlöndin).

Sagan er reyndar nýfrjálshyggjunni hliðholl að einu leyti: ríkisstjórnir eiga það til að misnota vald sitt. Gott og vel. En væri ekki réttara að segja að voldugar stofnanir eiga það til að misnota vald sitt? Það eru til fjölmörg dæmi um að stór markaðsfyrirtæki misnoti vald sitt. Svar nýfrjálshyggjumanna er að "markaðurinn refsi fyrirtækjum fyrir þannig hegðun", en þetta á sér hreinlega ekki hliðstæðu í raunveruleikanum nema að mjög litlu leyti. Lýðræðislegar ríkisstjórnir hafa það allavega fram yfir markaðsfyrirtæki að vera bera ábyrgar á gerðum sínum þegar að kosningum kemur.

Ég tel að réttlæting á nýfrjálshyggjunni og hreinum markaðsbúskap fáist ekki með því að höfða til sögunnar. Hreinn markaðsbúskapur í byrjun iðnbyltingar reyndist svo grimmúðlegur að margir vinnandi menn vildu afnema eignaréttinn til að bæta kjör sín -- tæpast sannfærandi rök fyrir réttlæti kerfisins. Sannfærandi réttlæting, ef hún fyrirfinnst yfirhöfuð, hlýtur að vera af heimspekilegu tæi.

2. Sjálfræði, sjálfseign

Heimspekingurinn Robert Nozick var lengi vel einn sterkasti talsmaður nýfrjálshyggjunnar. Hann réttlætir nýfrjálshyggjuna á eftirfarandi hátt:

 1. Við eigum okkur sjálf, þ.e.a.s. við erum sjálfráðar manneskjur
 2. Fyrst við eigum okkur sjálf, þá eigum við einnig hæfileika okkar
 3. Fyrst við eigum hæfileika okkar, þá eigum við einnig allt sem við framleiðum með hæfileikum okkar
 4. Skattlagning á tekjum fólks, eða önnur efnahagsleg afskipti, brjóta á rétti okkar til þess sem við framleiðum með hæfileikum okkar
 5. Af ofantöldum ástæðum eiga efnahagsleg afskipti ríkisins ekki rétt á sér

Flestir mundu samþykkja 1). En er forsenda 2) sönn? Jafnaðarmenn halda því fram að fyrst hæfileikar fólks eru að miklu leyti handahófskenndir (sumir fæðast sterkir, gáfaðir, o.s.frv. á meðan aðrir fæðast t.d. lamaðir eða blindir) þá hafi hinir verr settu siðferðislegt tilkall til hinna hæfileikaríku. Þetta er svo sem ágætis leið til að líta á hlutina -- kenning Johns Rawls í bókinni A Theory Of Justice snýst um að réttlæta fyrirkomulag þar sem þeim verr settu er bætt fyrir takmarkaða hæfileika -- en mér finnst þetta ekki vera sterkustu mótrökin gegn Nozick.

Lítum nánar á forsendu 3). Þessi forsenda er ekki sönn nema við gerum ráð fyrir því að það sem við framleiðum sé einungis afsprengi hæfileika okkar. Er þetta satt? Svo framarlega sem ég fæ séð, þá nýtir nær öll framleiðsla auðlindir jarðarinnar á einn hátt eða annan, annaðhvort beint með því að skapa efnislegar vörur, eða óbeint, því skapandi mannverur eru háðar fæðu til að lifa. Hver á þessar auðlindir? Ef röksemdafærsla Nozicks á að ganga upp, þá verðum við að koma með réttlætingu á núverandi eignarhaldi auðlinda -- sem er mjög erfitt. Lítum aðeins nánar á málið.

Auðlindir jarðarinnar virðast upp til hópa vera bundnar við landareign (og hafið). Eignarétturinn er grundvallaratriði nýfrjálshyggjunnar. Hvernig er hægt að eignast land á réttmætan hátt? Nýfrjálshyggjan segir flutning eigna frá einum eigenda til annars vera réttlátan að því gefnu að flutningurinn sé óþvingaður. Ef viðkomandi land hefur á einhverju stigi verið fengið með broti á eignarrétti (þ.e.a.s. stolið eða tekið með valdi) þá hefur núverandi eigandi ekki rétt til þess samkvæmt grundvallarlögmáli kenningarinnar.

Þarna lendum við í klípu, því næstum allar landareignir í heiminum í dag hafa á einhverju stigi í mannkynssögunni verið fengnar með því að brjóta á eignarétti einhvers. Ef kenning Nozicks á að standast, þá þurfum við róttæka endurskiptingu á landi. Nú þykist ég ekki vita hvað Nozick teldi sanngjarna skiptingu fyrir réttlætanlegan byrjunarpunkt markaðskapítalisma, en þó dettur mér eitt í hug: algerlega jafna skiptingu, þar sem hverjum aðila er úthlutað jafnmikið land. Allur flutningur eigna milli einstaklinga frá og með byrjunarpunktinum er þá réttlátur ef hann er óþvingaður. En ef við samþykkjum þetta, þá er félagshyggjumönnum fært vopn í hönd. Þeir munu segja að endurskipting landsins sé ópraktískt (sem það er svo sannarlega!). Síðan geta þeir réttlætt velferðarkerfið og skattlagninguna í dag á þeim forsendum að þeir sem minna mega sín hafi (fræðilega séð) fórnað sínum eignarhlut í landinu fyrir öryggi velferðarkerfisins í skiptum fyrir að sætta sig við núverandi skiptingu eigna.

Réttlæting á núverandi eignarhaldi er erfiður og sennilega óleysanlegur vandi. Praktískir menn munu vilja líta fram hjá því, en ef við viljum sannfærandi stjórnspekikenningu þá verðum við að hafa það til hliðsjónar við kenningasmíðin. Ein af forsendum Nozicks byggir á eignarétti til auðlinda, en fær því ekki svarað hvernig núverandi skipting auðlindanna er réttlát.

3. Frelsi sem æðsta gildið

Önnur röksemdafærsla sem maður rekst oft á í samræðum við öfgafullt nýfrjálshyggjufólk hljómar á eftirfarandi hátt:

 1. Frelsi er æðsta gildið og er gott í sjálfu sér
 2. Efnahagsleg afskipti ríkisins minnkar frelsi
 3. Þess vegna ætti ríkið ekki að skipta sér af efnahagnum

Ég var nú þegar búinn að fjalla um þessa röksemdafærslu í svari mínu til Friðbjörns Orra. Ég mun ætla samt aftur sýna fram á hversu fráleit hún er.

Forsendu 1) má afsanna með einu orði: "Nei". Nýfrjálshyggjumenn tala einmitt um að ríkið beri ekki að þröngva einhverju gildismati upp á fólk (t.d. um varðveislu fornmuna, sbr. Þjóðminjasafnið), en hér er verið að gera nákvæmlega það. Ég er til dæmis ekki sammála því að frelsi sé æðsta gildið. Ég tel yfirhöfuð ekki að það sé til neitt "æðsta gildi", né nokkur hlutur sem sé "góður í sjálfum sér". Jafnvel þótt ég væri á öndverðri skoðun, þá er frelsið hlægilegur kandídat.

Að setja frelsið sem æðsta gildið stangast á við grundvallarinnsæi okkar. Það má auðveldlega hugsa sér að rökþenkjandi, skynsamir menn fórni frelsi fyrir eitthvað annað, t.d. öryggi, eða til þess að lifa af. Hvernig útskýrum við annars þrælahald, eða þá staðreynd að fjölmörg lönd búa við velferðarkerfi? Ef fólk metur í raun og veru frelsi ofar öllu öðru, þá er því leynt mjög vel. Nei, þetta er huglægt gildismat.

Og er frelsið "gott í sjálfu sér"? Eins og ég hef áður sagt, þá eru til margvíslegar tegundir frelsis, bæði jákvæðar og neikvæðar. Ég get fallist á að neikvætt frelsi (þ.e.a.s. "frelsi undan einhverju") sé svo að segja ávallt gott, en vissar tegundir jákvæðs frelsis (þ.e.a.s. "frelsi til einhvers") eru bersýnilega slæmar, sbr. frelsið til að myrða manneskju. Það er því hæpið að segja frelsið vera "gott í sjálfu sér".

Jafnvel að því gefnu að forsenda 1) sé sönn, þá er forsenda 2) ennþá grunsamleg. Hvernig vitum við að ríkisafskipti minnki frelsi? Auðvitað má segja að hún minnki frelsi í efnahagsmálum, en hvað með frelsi almennt? Það minnkar frelsi fólks að banna ofbeldi, en í heildina séð þá eykur þetta bann almennt frelsi. Frelsisskerðingar ber okkur að skilja út frá "frelsisþversögninni". Ákveðnar tegundir frelsis minnka heildarfrelsi -- við takmörkum því þessar tegundir frelsis til að hafa jákvæð áhrif á almennt frelsi fólks. Það er engin ástæða til að ætla að efnahagsleg afskipti ríkisins minnki almennt heildarfrelsi -- þvert á mót, þá tel ég velferðarkerfi tryggja þeim verr settu ákveðið lágmarksfrelsi t.a.m. í samningum við atvinnurekendur: þeir geta hafnað ósanngjörnum vinnusamningum án þess að svelta fyrir vikið.

Engar af ofantöldum röksemdafærslum eru að mínu mati sannfærandi, og ef nýfrjálshyggjumenn koma ekki með betri réttlætingu á viðhorfum sínum þá verðum við að hafna stjórnspeki þeirra.


14 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Naldino | 8.3.2005 kl. 17:57
Unknown User

Mig langaði bara til að bæta við grein 2. sjálfræði, sjálfseign að mér finnst það enganvegin sjálfgefið að maður eigi hæfileika sína ef maður vill á annað borð fara út í svona hártoganir. Í nútíma samfélagi fær maður mikinn hluta hæfileika sinna frá menntakerfi sem í mörgum tilfellum er fjármagnað af ríkinu. Mætti því ekki segja að maður stæði í einhverskonar þakkrskuld við ríkið? Mér þykir hæpið að einstaklingur gæti t.d. staðið undir stofnun á borð við HÍ, eingöngu fyrir afkvæmi sín. Ég veit ekki. Það er svosem gott og blessað að vera súper klár að grafa holu eða svaka góður að bera grjóthnullunga ef að maður býr í akuryrkju samfélagi, en þetta frjálshyggju pakk er flest allt að fást við abstract hluti og tölur í bókum, og það var háskólinn sem kenndi þeim það. Þau fæddust sennilega ekki með hæfileikann til að stunda hostile take-over, eða við skulum vona ekki.

Sveinbjörn | 8.3.2005 kl. 18:03
Sveinbjörn

Nozick á fyrst og fremst við "unearned talents", þ.e.a.s. það capacity fyrir líkamlegan styrk og greind sem við fæðumst með.

Aðalsteinn | 8.3.2005 kl. 18:10
Aðalsteinn

Vá, þetta er frábært:

"Síðan geta þeir réttlætt velferðarkerfið og skattlagninguna í dag á þeim forsendum að þeir sem minna mega sín hafi (fræðilega séð) fórnað sínum eignarhlut í landinu fyrir öryggi velferðarkerfisins í skiptum fyrir að sætta sig við núverandi skiptingu eigna."

Verst að ég lendi (kannski sem betur fer) svo sjaldan í frjálshyggjumönnum núorðið. En það var alltaf gaman að slengja á þá þeirri röksemd að tilkoma verkalýðsfélaganna hefði neytt atvinnurekendur til að auka hagkvæmni og framleiðslugetu til að halda sínum hlut gagnvart verkafólkinu.

Þá urðu sko skammhlaup...

Annars erum við smátt og smátt á leiðinni aftur í ánauð auðmagnsins. Orðræðan er að verða þannig. Fjölmiðlar éta það upp að minnkandi launamunur milli fátækra og ríkra landa í Evrópu sé vegna minnkandi ítaka verkalýðsfélaga. Þá er íbúum Frakklands og Þýskalands hrósað fyrir að vera að gefa eftir réttindi sín til að halda vinnunni og stórfyrirtækin flytji ekki framleiðsluna sína til annarra landa.

Ef það er eitthvað sem ég myndi vilja sjá í aukinn velsæld þá er það minni vinnuskylda en ekki fleiri tæki og tól.
Slíkt virðist hins vegar aldrei gerast...

Ég er alltént hræddur um að við séum á niðurleið. Það tekur líklega einhvern tíma. En innan 200 ára verða Evrópubúar aftur byrjaðir að berjast blóðugt fyrir lágmarksréttindum.

Freyr | 8.3.2005 kl. 23:14
Unknown User

Gúd shit Sveinbjörn!

Fín grein yfir höfuð! Ég ætla þó að fá að gera nokkur komment (playing the devils advocate..).

"Svar nýfrjálshyggjumanna er að "markaðurinn refsi fyrirtækjum fyrir þannig hegðun", en þetta á sér hreinlega ekki hliðstæðu í raunveruleikanum nema að mjög litlu leyti. Lýðræðislegar ríkisstjórnir hafa það allavega fram yfir markaðsfyrirtæki að vera bera ábyrgar á gerðum sínum þegar að kosningum kemur"

Neytendur/almenningur refsar fyrirtækjum líkt og þeir refsa ríkisstjórnum.
M.a.s. eiga neytendur betra tækifæri á að refsa einkaaðilum á markaði, því að þeir geta tekið afstöðu daginn eftir með því að neita að versla við viðkomandi, en ekki á kosningadag eftir nokkur ár eins og gildir um ríkisstjórnir.

Svona myndi svar frjálshyggjunnar (af hverju þetta "ný-" ?) hljóma. Gott og gilt innan þess ramma sem að þessi rökræða á sér stað.

"Sagan er reyndar nýfrjálshyggjunni hliðholl að einu leyti: ríkisstjórnir eiga það til að misnota vald sitt. Gott og vel."

Ég held að sagan sé reyndar ekki hliðholl frjálshyggjunni að neinu leyti.
Ríkisstjórnir eiga það iðulega til að misbeita valdi sínu í þágu "the ruling interests", dæmi í hina áttina eru sárafá og mjög lítilvæg.

kv.

Aðalsteinn | 8.3.2005 kl. 23:38
Aðalsteinn

En málið er að fólkið refsar fyrirtækjunum ekki. Eru Íslendingar að refsa olíufélugunum til dæmis? Þá skiptir engu máli hvers konar skítur er dreginn upp varðandi öll þessi fyrirtæki það skiptir nákvæmlega engu. Kaupir fólk ekki alveg jafnmikið af GAP og NIKE og þessu þrátt fyrir þessar 'sweatshops'?

Enda krefðist það að forðast öll stórfyrirtæki sem eru krúkket fullrar vinnu. Maður gæti ekki verslað við annað en heilsuhúsið og þyrfti að neita sér um flesta ávexti. Gæti varla drukkið kaffi (nema kannski það frá Kaffitári þó ég efi það) og svo mætti lengi telja því fólkinu sem vinnur við að rækta þetta allt er svoleiðis flengriðið í rassgatið svo við getum sparað nokkrar krónur.

Steinn | 9.3.2005 kl. 01:20
Steinn

Frábær grein!! Ég tek ofan fyrir þér og jafnvel berhátta! Eitt vil ég nú líka benda á að markaðskerfið gerir heldur engin skil til náttúrunnar. Ef við lítum á nútíma samfélagið þar sem við berjumst gegn mengun, hækkun hitastigs og margvíslegum öðrum "vággestum" náttúrunnar, þá mundi ég halda að við myndum fljótt steypa öllu í svaðið og tortíma öllum lífsskilyrðum okkar. Þetta kann ekki að snerta kennismíðum nýfrjálshyggjunar frekar nýfrjálshyggjan í praksís. Það eru nefnilega einkum nýfrjálshyggjumenn sem berjast gegn t.a.m. Kyotobókuninni og gegn kenningum um hækkun hitastigs og telja það beinlínis ógnun gegn þriðja heiminum! For fucks sake!!!! Hvaða rugl er þetta, þeir líta margir hverjir á það sem svo að það sé allt í lagi að risa fjölþjóðafyrirtæki stundi þrælkun þannig að fólk fái vinnu, hvernig geta þeir með einhverjum hætti komið því til skila að allir fái jöfn tækifæri og að heimurinn muni ekki eyðast fyrir 2020? Síðan tel ég það staðfast að 75+% af heiminum myndi ekki kjósa þetta yfir sig!

Sveinbjörn | 9.3.2005 kl. 05:35
Sveinbjörn

Freyr:

"Neytendur/almenningur refsar fyrirtækjum líkt og þeir refsa ríkisstjórnum. M.a.s. eiga neytendur betra tækifæri á að refsa einkaaðilum á markaði, því að þeir geta tekið afstöðu daginn eftir með því að neita að versla við viðkomandi, en ekki á kosningadag eftir nokkur ár eins og gildir um ríkisstjórnir."

Þarna snertum við inn á annað óréttlæti, því að markaðurinn gefur fólki ekki jafnt tækifæri til að refsa fyrirtækjum. Þeir sem hafa meiri neyslugetu hafa á þennan hátt meiri refsigetu. Í lýðræðislegu fyrirkomulagi er "one man, one vote", töluvert sanngjarnara kerf, þykir mér.

"af hverju þetta "ný-" ?)"

Það er mikilvægt að greina milli klassískrar frjálshyggju og nýfrjálshyggju. Klassísk frjálshyggja er kennd við menn eins og John Stuart Mill og Jeremy Bentham, og hefur mun meira sameiginlegt við jafnaðarstefnu heldur en við nýfrjálshyggjuna. Áherslurnar á einstaklinginn, og borgara- og trúfrelsi er til staðar í klassísku frjálshyggjunni, en ekki áherslan á óréttmæti þess að ríkið skipti sér af efnahaginum.

"Ég held að sagan sé reyndar ekki hliðholl frjálshyggjunni að neinu leyti. Ríkisstjórnir eiga það iðulega til að misbeita valdi sínu í þágu "the ruling interests", dæmi í hina áttina eru sárafá og mjög lítilvæg."

Ég geri ráð fyrir að með "the ruling interest" eigir þú við hina fjárhagslega sterku, því annars værirðu í rauninni bara að segja að þeir sem ráða (þ.e.a.s. ríkið) séu iðulega þeir sem ráða, og þetta er bara klifun.

En þarna tekur þú fullt stórt upp í þig -- þetta er kenning Marx um sögulega efnishyggju, sú hugmynd að einungis efnahagslegir þættir spili inn framþróun sögunnar, og reynslan sýnir ekkert nauðsynlega fram á þetta: fjölmargar abusive ríkisstjórnir hafa aðhyllst einhverja hugmyndafræði sem endurspeglaði í sjálfu sér ekki beint hagsmuni auðjöfra.

Sem dæmi má nefna Þýskaland Friðriks mikla, eða jafnvel ríki Nasista (sem vissulega fékk stuðning frá og hjálpaði auðjöfrum, en fórnaði hagsmunum auðjöfra iðulega fyrir ídeólógíu: heldurðu að það hafi gagnast auðjöfrum að taka fleiri milljónir vel þjálfaðra, menntaðra manna og drepa þá, í stað þess að nota sem vinnuafl?)

Sveinbjorn | 9.3.2005 kl. 05:39
Sveinbjorn

Steini:

"Síðan tel ég það staðfast að 75+% af heiminum myndi ekki kjósa þetta yfir sig!"

Þetta minnir mig á eftirfarandi quote:

"My contacts with Libertarians always leave me with a certain amount of contempt for their philosophies, which all seem to rely on the assumption that, if you can string together enough vague and high-sounding rhetoric, you can ignore both (1) all of human history and (2) what everyone else on earth now wants."

Sveinbjörn | 9.3.2005 kl. 05:42
Sveinbjörn

Aðalsteinn:

"Ef það er eitthvað sem ég myndi vilja sjá í aukinn velsæld þá er það minni vinnuskylda en ekki fleiri tæki og tól. "

Heyr heyr! Þetta þurfti virkilega að heyrast. Já, mér þykir það einnig merkilegt að þótt að báðir foreldrar vinni núna fulla vinnu í Bandaríkjunum, þá virðast kjör verkafólks vera í grundvallaratriðum þau sömu, eða jafnvel verri, heldur en þau voru á 6. áratug síðustu aldar.

Freyr | 9.3.2005 kl. 15:10
Unknown User

Alli:
"En málið er að fólkið refsar fyrirtækjunum ekki...."

Sveinbjörn:
"Þarna snertum við inn á annað óréttlæti, því að markaðurinn..."

Ég er sammála ykkur Aðalsteini, að þetta með að markaðurinn/neytendur refsi slóttugum fyrirtækjum á ekki við rök að styðjast.

En í kjölfarið vil ég benda á að það er einnig fáranlegt, þó í aðeins minna mæli, að halda að fram að almenningur refsi slóttugum stjórnmálamönnum í e-m mæli.
Ekki var ríkisstjórn Sjálfsstæðismanna/Framsóknar refsað í síðustu kosningum þrátt fyrir að 80% landsm. hafi verið á móti Íraksstríði og svipað hlutfall á móti Kárahnjúkum, eftirlaunafrumvarpi, skipun hæstaréttardómara, útlendingafrumvarpi eða Falun-Gong málinu.

Og Tony "lapdog" Blair var ekki beinlínis ábyrgur gjörða sinna í síðustu kosningum, eins og maður hefði vonað.

Ég held að þetta sé svipaður galli á lýðræðiskerfinu okkar á tímum samþjöppunar auðs og valds, auglýsinga, ímyndasköpunnar og ofuráhrifa fjölmiðla.

"Ég held að sagan sé reyndar ekki hliðholl frjálshyggjunni að neinu leyti. Ríkisstjórnir eiga það iðulega til að misbeita valdi sínu í þágu "the ruling interests", dæmi í hina áttina eru sárafá og mjög lítilvæg."

Ég leyfi mér að standa við þessa klausu. Það er mögulega fyrst á seinni hluta 20.aldar sem að ríkið byrjar að beita sér fyrir betri lífskjörum almenns fólks. Og það er einmitt þá sem að frjálshyggju-fuglabjargið byrjar, þ.e. um að meirihlutinn kúgi minnihlutan, velferðaríkið ali af sér aumingja og að ríkið sé klunnalegur risi sem að ekkert geti.

En merkilegt nokk, á 19.öld þegar Rockefeller-arnir, Morgan-arnir, Carnegie-arnir og hvað þeir heita, féngu massíva styrki frá ríkinu, styrjaldir voru háðar fyrir milljarða til að þóknast hagsmunum efri stéttana og herinn kallaður út til að berja niður almenning. Þá voru ekki margir frjálshyggjupésar á ferð að breiða út fagnaðarerindið.

Þannig að jú, ég held að það sé til glöggvunar að horfa á málin á stéttarlegu- og efnahagslegu ljósi, án þess þó að fara út í bókstafstrú.

..og b.t.w. að sjá uppgang Nazismann í stéttarlegu og efnahagslegu ljósi, er einnig til mikillar glöggvunar. Allaveganna betri en þessi Adolf "one man army" Hitler, who did it all by himself-útgáfa sem að virðist vera popular history.

En og aftur, massafín grein og betri umræður!
kv.
Frey

Aðalsteinn | 9.3.2005 kl. 18:29
Aðalsteinn

Það að ríkisstjórnin hafi ekki fallið þó að meirihluti hafi verið andvígur Íraksstríðinu er í sjálfu sér enginn áfellisdómur yfir lýðræðinu. Kjósendur hljóta að sjálfssögðu að forgangsraða og fæstir kjósendur setja utanríkismál í forgangsröð.

Það er lengi hægt að tína til galla lýðræðisins en ég sé ekki að við komumst langt með að láta galla þess nálgast galla þess að stórfyrirtækin hafi meira vald. Þau bera í raun ekki ábyrgð gagnvart neinum í kringum sig, geta flutt sig til að vild og fríað sig ábyrgð. Íslensk stjórnvöld t.d. geta ekki beinlínis bara farið eitthvert annað ef þeir verða þreyttir á íslenska lýðnum... eða eitthvað...

Sveinbjörn | 10.3.2005 kl. 11:35
Sveinbjörn

Freyr:

Það sem Alli segir er mjög góður punktur. Ef að Íraksmálið væri virkilega flestum hjartans mál, þá hefði núverandi ríkisstjórn ekki sigrað síðustu kosningar. Staðreyndin er sú að fólk hefur mesta tilhneigingu til að kjósa út ríkisstjórnir þegar efnahagurinn er í slæmum málum -- "when it hits your bottom line".

Hvernig sem það nú er, þá finnst mér menn oft misskilja hvað lýðræðið gengur út á. Það gengur *ekki* út á að sitja og bíða eftir að einhver flokkur birtist sem er manni sammála í einu og öllu. Þetta er fyrst og fremst refsikerfi -- þ.e.a.s. kerfi til að losna undan vanhæfum stjórnendum. Þetta er það sem gerir lýðræðið skárri kost heldur en, t.d. einræðisstjórn. Í síðustu kosningum töldu Íslendingar Sjálfstæðisflokkinn ekki hafa staðið sig það illa að stjórnarandstaðan var fýsilegri kostur. Svona er þetta nú bara...

Íslenskt lýðræði er að mínu mati mjög virkt og gott. Vel upplýst fólk deilir um málefni á almannavettvangi, kosningaþáttaka er ótrúlega góð og það eru stjórnmálaflokkar sem endurspegla stóran hluta af pólitíska spectruminu. Sú staðreynd að núverandi stjórnarfar endurspeglar ekki nákvæmlega mínar hugmyndir þykir mér ekki nægilega góður grundvöllur til þess að ráðast á "legitimacy" ríkisins...

Sveinbjörn | 10.3.2005 kl. 11:38
Sveinbjörn

Eitt í viðbót:

Ef við berum saman íslensk lýðræði og bandarískt, þá sjáum við strax hversu gott lýðræði Íslendingar búa við. Bandaríska ferlið er brandari: kosningaþáttaka er afar lág, stór hluti íbúanna hefur ekki kosningarétt, og í grundvallaratriðum eru bara til staðar tveir flokkar sem endurspegla í grundvallaratriðum sömu gildi og stjórnspeki.

Anonymous Coward | 14.3.2005 kl. 08:45
Anonymous Coward

I only speak english! my problem!