25.2.2005 kl. 20:01

Ég hef nýlega gert mér grein fyrir því að hugsi ég mér að starfa í akademíska samfélagi Íslands þarf ég að betrumbæta íslenskuna mína, bæði skrifaða og talaða. Ég geri ráð fyrir því að mönnum sé kunnugt hversu enskuskotin mælta íslenskan mín á það til að verða, og hef ég nú í huga að bæta úr málum. Því hef ég það nú fyrir stafni að lesa fleiri íslenskar bækur, og er einmitt að lesa núna bók Þorsteins Gylfasonar, Tilraun um manninn. Þetta er eintak sem ég fékk hjá föður mínum og er frá 1970, með z-um og öllu (sem innskot, þá þykir mér hin argasta skömm að sá glæsilegi bókstafur hafi verið sneyddur úr málinu og kastað á brott líkt og vændiskonu með sárasótt. Málið er fagurra í prenti með z-um). Hvað um það, þá er Þorsteinn afbragðs stílisti, og skemmtilega grimmur þar að auki:

En nú bar svo við, á tímum tveggja byltinga vestan hafs og austan, að til varð í Þýzkalandi tegund svonefndrar heimspeki sem á sér enga líka í öðrum löndum. Segja má með nokkrum rétti að þessi þýzka heimspeki 19du aldar hafi æ síðan tröllriðið veröldinni sem var þó nógu hrjáð fyrir.

Já, greyið veröldin. Eins og hlutirnir hafi ekki verið nógu slæmir án þess að bæta þýzkri díalektískri heimspeki við...

Ég vil síðan leggja til að nýyrðinu "mannfræðislömmari" verði formlega bætt við hina íslenzku tungu. Nú eru menn eflaust forvitnir að vita hvað þetta orð þýðir. Það skal ég fræða ykkur um: Mannfræðislömmari er manneskja sem fylgist með svona "popular phenomena" eins og Ædólinu, og horfir á VH1 og cheesy en vinsæla sjónvarpsþætti, en segist ekki njóta þeirra heldur gera þetta "sem mannfræðilega tilraun" eða "af mannfræðilegum áhuga", setur sig sem sagt á einhvers konar akademískan háhest til að afsaka vúlgar ánægjuna sem hann fær af lýðsskrumsruslinu.


4 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Freyr | 26.2.2005 kl. 13:29
Freyr

Þetta er pælingarinnar virði. :)

Sindri | 27.2.2005 kl. 14:25
Sindri

Já ég er sammála þér með z-una. Það er flottur bókstafur og myndi án efa skreyta textann dálítið. En ef maður pælir í því þá er tilgangslaust að hafa sérbókstaf fyrir hljóð sem má tákna með öðrum stöfum í málinu. Þannig að z-unni hefur nú vart verið hent út eins og skítugri hóru með sárasótt. Hún var tekin út til að gera málið einfaldara. Ætli y verða ekki næst? Ég myndi persónulega vera á móti því, því þá myndi uppruni orðsins glatast smám saman.

Í sambandi við mannfræðislömmarann þá á ég nú til að falla undir þessa skilgreiningu. Það kemur fyrir að ég horfi á svona ógeðslega cheezy þætti til þess eins að fræðast aðeins um hina sírotnandi lágmenningu nútímans og lýðinn sem aðhyllist hana. Þá meina ég svona raunveruleikaþætti og alls kyns viðbjóð. Ég á það til að öskra: "Argh...ég þoli þetta ekki lengur. Þetta er ógeðslegt" og lem þá í borðið en held samt áfram að horfa. Það hefur jú visst afþreyingargildi út af fyrir sig að geta pirrað sig á ýmsu.

Sveinbjörn | 28.2.2005 kl. 15:43
Sveinbjörn

Sindri:

Þá ertu ekki mannfræðislömmari. Mannfræðislömmarinn nýtur þess virkilega að fylgjast með viðkomandi efni eins og það leggur sig, ekki til að gagnrýna eða hlæja derisively, en felur vúlgar hlið sína með því að þykjast vera að kynna sér það á fræðilegum forsendum.

Sindri | 28.2.2005 kl. 17:09
Sindri

Ok, gott að vita það. I´m safe, hehe.