24.2.2005 kl. 05:11

B.A.-ritgerð

Jæja, nú er ég að leggja drögin að B.A.-ritgerð. Leiðbeinandi minn verður Þorsteinn Gylfason og ég er búinn að velja mér efnið: Sameiginlegir þættir Marxisma og nýfrjálshyggju, og gagnrýni á þá. Þetta þykir mér mjög áhugavert efni, ef satt skal segja, og ég hlakka til að fást við það. Reyndar er þetta efni mun stærra heldur en ég ræð við í einni 40-60 bls. ritgerð, og ég á eftir að velja mér hvaða atriði ég mun taka fyrir. Lítum á nokkra sameiginlega þætti þessara stjórnspekikenninga, í grófum dráttum:

1. Fullkomnunarkenningar

Báðar, í algengustu myndum sínum, setja fram einhvern einn hlut sem er öðrum æðri og ber að hámarka: í tilfelli Marxismans er þetta "ófirrt vinna" (e. unalienated labour), en í nýfrjálshyggjunni er þetta "frelsi". Þetta eru semsagt "fullkomnunarkenningar" (e. perfectionistic theories).

2. Rétturinn til afraksturs vinnu

Báðar halda fram algeri sjálfseign einstaklingins, og þ.a.l. rétt hans til alls afraksturs vinnu. Í tilfelli Marxista þá er kapitalistinn arðræningi sem misnotar hinn vinnandi mann, en í tilfelli nýfrjálshyggjunnar þá er það skattlagning og tekjudreyfing ríkisins sem er arðrán.

3. Efnishyggjukenningar

Báðar kenningar eru efnishyggjukenningar, þ.e.a.s. líta á manninn út frá stöðu hans sem framleiðandi vera, einhvers konar leikmaður í efnahagslegu spili.

4. Útópískar, öfgafullar

Báðar eru útópískar. Báðar kenningarnar boða öfgafulla breytingu frá hefðbundnu frjálslyndu markaðsvæddu velferðarríki. Marxisminn vill ríkisvæða öll atvinnutæki, en nýfrjálshyggjan vill markaðsvæða allt, þ.á.m. svo að segja alla starfsemi ríkisins. Viðkomandi breyting, samkvæmt þessum kenningum, er sögð skapa réttlátt, útópískt samfélag.

5. Rangar

Síðast en ekki síst, báðar kenningar hafa rangt fyrir sér. :D

Já, ég hlakka svo sannarlega til að takast á við þetta.


2 comments have been posted
Add Comment | RSS Feed

Freyr | 24.2.2005 kl. 12:34
Unknown User

Er það ekki full djörf forsenda að báðar kenningarnar séu rangar?

Eða ertu búinn að komast að niðurstöðu áður en þú byrjar að tækla viðfangsefnið?

Einar Örn | 24.2.2005 kl. 15:39
Einar Örn

Án þess að vita hvað Sveinbjörn hefur í hyggju, þá skildi ég þetta þannig að þetta væru einfaldlega punktar sem hann ætlaði að skoða, ekki forsendur/niðurstöður.

En þetta eru allt góðar og þarfar pælingar, og útkoman vafalítið áhugaverð.