3.2.2005 kl. 04:01

Fyrr í dag sat ég í tíma hjá Sigríði Þorgeirsdóttur, "Hugmyndasaga 19. og 20. aldar". Umfjöllunarefni tímans var Marxismi, og umræðan snérist á ákveðnum tíma að trúarbrögðum, "ópíumi fólksins". Eitt sem Sigríður sagði vakti athygli mína: að aþeismi (þ.e.a.s. trúleysi) væri ákveðið form af trúarbrögðum í sjálfu sér, nefnilega trúin að Guð væri ekki til.

Með fullri virðingu fyrir Sigríði, þá er þessi athugasemd gömul og þreytt klisja sem fólk virðist aldrei þreytast af að láta út úr sér. Staðreynd málsins er sú að sönnunarbyrðin liggur hjá hinum trúuðu. Í sjálfu sér er enginn praktískur mismunur milli þess að vera "agnostic" (þ.e.a.s. manneskja sem ekki þykist vita neitt um þessi málefni) og að vera aþeisti, því svo framarlega sem ég fæ séð þá er núllstigið í öllum málum að trúa ekki.

Með öðrum orðum: aþeistinn er trúlaus því hann hefur ekki séð neinar vísbendingar um æðri máttarvöld. Sá sem er "agnostískur" hefur enga skoðun á málinu af sömu ástæðum. Þessi "enga skoðun" samsvarar í sjálfu sér höfnun í praxis. Hvort menn kjósa að kalla sig "aþeista" eða "agnostíska" er þá bara spurning um orðaval.

Það væri kannski vit í því að endurskilgreina þessa tvo flokka út frá félagslegu atferli: þá er aþeistinn sá sem beitir sér gegn trúarbrögðum í samfélaginu í kjölfar trúleysi síns, en "agnóstíkarinn" sá sem lætur sig engu varða um þessi málefni og lætur hina trúuðu vera.

Út frá þessari nýju skilgreiningu þá væri ég sennilega aþeisti...