29.1.2005 kl. 22:09

Svar við nýfrjálshyggjumanni

Friðbjörn Orri, höfundur greinarinnar "Menningarverðmæti á frjálsum markaði", hefur greinilega rekist á gagnrýnina í síðustu færslu minni hér og skrifaði svar á síðunni sinni. Mér þótti nokkrir punktar hans athyglisverðir og ætla að reyna að svara þeim hér. Mig langar þó fyrst að byrja á því að biðja hann afsökunar á að kalla hann "frjálshyggjurugludall", sem var mjög ómálefnalegt af mér. Hvað um það...

"Rök gegn lágmarksríkinu eru alltaf ofin rökum sem einkennast af því hvað einstaklingar á borð við Sveinbjörn vilja hafa í kringum sig og hvað ekki. Það í sjálfu sér eru einmitt rök fyrir lágmarksríkinu."

Lágmarksríkið (og þ.a.l. nýfrjálshyggjusinnar) gerir einnig ráð fyrir því að fólk vilji hafa ákveðna hluti, þ.e.a.s. að fólk sækist eftir lífi, frelsi og eignum. Þess vegna ætti ríkið að vernda þessa hluti. Fyrst ríkið er á annað borð að gera ráð fyrir að allir vilji ákveðna hluti, hví skyldi línan þá vera dregin við þetta þrennt? Hví ekki gera ráð fyrir því að allir vilji efnahagslegt öryggi? Heilbrigðiskerfi? Þjóðminjasöfn?

Við búum við lýðræðislegt stjórnskipulag þar sem (að nafninu til, a.m.k.) fulltrúar með umboð meirihluta þjóðarinnar fara með völdin. Undir slíku fyrirkomulagi er ómögulegt að forðast alla þvingun minnihlutahópa af meirihlutanum. Það er í höndum kjósenda að ákveða "hvað allir vilja". Aftur á móti ber þetta kerfi með ser þann kost að afhending valds frá einum hagsmunahópi til annars fer (almennt) fram með friðsamlegum hætti. Þetta kerfi hefur reynst afar vel, eins og velferð og auður íslensks samfélags ber vitni um. Það er mér hulin ráðgáta afhverju sumir sækjast eftir því að umsteypa því með það að vonum að koma á "réttlátri, útópískri frjálshyggjuparadís". Þannig hugsunarháttur minnir hvað helst á retórík Marxista.

"Þeir [menn] hafa hins vegar ekki lagalegan rétt til að þvinga aðra til eins né neins."

Lágmarksríkið sjálft beitir þvingunum til að viðhalda eignarétti og til að vernda líf og frelsi fólks. Án beitingu þvingana væri ómögulegt að búa við siðmenningu. Við mundum þá lifa í Hobbesísku "náttúruástandi", sem mundi þó ekki endast lengi, því að hópamyndun ætti sér stað. Ákveðinn hópur mundi endanlega reynast sterkastur og koma reglum sínum á með þvingunum. Þvinganir af einu tagi eða öðru eru óumflýjanlegar ef menn eiga að geta búið í samfélagi. Vandinn felst í því að greina hvers konar þvinganir eru réttlætanlegar og hverjar ekki, og eru menn mjög ósammála í þeim efnum.

Hugmyndafræði nýfrjálshyggjumanna felst fyrst og fremst í því að staðhæfa að algjört lágmark þvinganna sé réttlátasta ástandið. Yfirleitt er þetta rökstutt með tilvísun í frelsið sem "hin æðstu gæði". Með slíkri tilvísun skipar nýfrjálshyggjan sig í hópi með hugmyndafræðum á borð við Marxisma, þar sem ófráhverf vinna ("unalienated labour") eru "hin æðstu gæði". Slíkar kenningar innan stjórnmálaheimspekinnar eru kallaðar "perfectionistic theories" á ensku. Það sem einkennir þess konar kenningar er það að þær gera ráð fyrir því að skynsamur einstaklingur muni ávallt kjósa "hin æðstu gæði" kenningarinnar (hver svo sem þau kunna að vera) umfram allt annað.

Lítum aðeins nánar á frelsishugtakið. Svo virðist sem "frelsi", út af fyrir sig, sé fremur merkingarlaust. Frelsi er ávallt annaðhvort jákvætt, þ.e.a.s. "frelsi til einhvers", t.d. frelsi til að segja það sem manni finnst, frelsi til að ganga úti í náttúrunni, o.s.frv, eða neikvætt, þ.e.a.s. "frelsi frá einhverju", t.d. frá því að vera pyntur. Það er augljóst að ákveðnar tegundir af frelsi eru lítils virði, t.d. frelsið til að svelta. Aðrar tegundir frelsis eru í eðli sínu þannig að þær minnka heildarfrelsi til annara hluta, t.d. frelsi til að myrða fólk. Auðvelt er að hugsa sér dæmi þar sem einhver mundi kjósa aðra hluti fram yfir ákveðnar tegundir frelsis. Frelsi til að ráðstafa öllum tekjum sínum eins og maður vill er til dæmis lítils virði þegar maður er að svelta og þjást, og vel mætti hugsa sér að skynsamur einstaklingur mundi fórna slíku frelsi fyrir öryggi. Þetta er hugmyndafræðilegi grundvöllurinn fyrir velferðarríkinu.

"Það er einmitt þvert á móti ein fyrsta regla rökfræðinnar að þó allir segi það sama og einn sé á móti þarf það ekki að merkja að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér. Ég hvet Sveinbjörn til að lesa um rökfræðina betur. Verk Platons, Sókratesar o.fl. fara yfir þetta í smáatriðum."

Hvað svo sem Friðbjörn á við með að "hafa rétt fyrir sér", þá sýnir þessi setning hans fram á að hann hefur mjög grunnan (ef einhvern?) skilning á rökfræði sem fræðigrein. Rökfræði fæst ekki við félagslega eða sálfræðilega þætti, né við heilbrigða skynsemi ("common sense"). Rökfræði fæst við vensl tákna innan gefins kerfis. Notagildi hennar felst í að þýða röksemdafærslur settar fram í daglegu máli yfir í táknmál sem gerir beitingu reglna um þessi vensl möguleg. Rökfræðin segir svo sannarlega ekkert um kúgun meirihlutans eða hvað það sé að "hafa rétt fyrir sér". Síðan vil ég taka það fram að ég er vel kunnugur ritum Platóns (ekki Sókratesar, sem ritaði aldrei neitt), og þar kemur lítið sem ekkert fram um rökfræði eins og hún þekkist í dag. Frumherji rökfræðinnar var Aristóteles, lærisveinn Platóns í Akademíunni.

Við viljum að hófsemi sé gætt í beitingu valds gagnvart saklausu fólki. Er það barnsleg krafa? Er barnslegt að verja sig og sína gegn eignaupptöku og yfirgangi þeirra sem telja viðhorf sín öðrum æðri?

Nei, alls ekki. Þetta er eflaust ástæðan fyrir því að margir annars klárir menn aðhyllast þessari meingölluðu stjórnspekikenningu. Vissulega er frelsi ótrúlega mikilvæg gæði, og auðvitað ætti það að vera markmið manna að hámarka það. Aftur á móti má líta á efnahagslegt frelsi út frá "frelsisþversögninni" ("the paradox of freedom"). Að ofan minntist ég á "frelsið til að myrða fólk". Slíkt frelsi er takmarkað eða útilokað undir lágmarksríkinu því það leiðir í heildina til minna frelsis. Hinir hernaðarlega og líkamlega sterku gætu nefnilega kúgað þá sem minna mega sín. Aftur á móti þá lítur frjálshyggjan framhjá þeirri staðreynd að það er mögulegt að kúga menn og beita þá þvingunum á annan hátt heldur en með líkamlegu ofbeldi. Líkt og sterkur maður getur svipt hina veikburða frelsi getur hinn efnahagslega sterki svipt hina efnahagslega illa settu frelsi á samsvarandi hátt. Ef ég á allan matinn og aðrir menn eru sveltandi, þá get ég knúið þá til samninga sem þeir hefðu annars ekki samþykkt. Svarið við efnahagslegum þvingunum af þessu tagi verður að vera hið sama og svarið við líkamlegum þvingunum: líkamlegar þvinganir eru (fræðilega séð) útilokaðar með því að hafa lögreglusveitir, en efnahagslegar þvinganir eru útilokaðar með einhvers konar velferðarkerfi sem tryggir mönnum lágmarks efnahagslegt sjálfstæði. Í þessu samhengi vil ég benda á þessa tilvitnun úr riti Karls Poppers, "Hið opna samfélag og óvinir þess".

Virði hluta fer ekki eftir því hversu mörgum er hægt að selja aðgang að honum. Virði hluta fer eftir því hvað aðrir eru reiðubúnir að greiða fyrir hann. Flateyjarbók er einstök. Á henni er skortur. Lögmál skortsins er eitthvað sem við frjálshyggjumenn viðurkenndum fyrstir manna og höldum enn á lofti. Við viljum draga úr skorti en ekki auka hann. Það er einmitt þess vegna sem frjáls markaður á að leysa úr þeim vanda sem felst í miðlun gæðanna í heimi skortsins. Það geta ekki allir átt Flateyjabók. Fyrir sumum hefur sú bók ekkert virði.

Óheppið orðaval hefur eflaust ollið því að Friðbjörn hefur misskilið hvað ég átti við þegar ég talaði um að hármarka virði Flateyjarbókar. Það sem ég átti við var að svo gæti gerst að Flateyjarbók félli í einkaeign og endaði uppi í safni einhvers ríks safnara þar sem hún væri almenningi og fræðimönnum ekki aðgengileg. Praktískt séð samsvarar þetta tortímingu bókarinnar fyrir þorra manna, þar sem bókin er þeim algerlega óaðgengileg, mögulega in perpetuity. Þetta er vandamál, því bókin er einskorðuð vörutegund ("exclusive commodity"). Notagildi bókarinnar er ekki hámörkuð undir þessum kringumstæðum. Þvert á móti, þá er það í algjöru lágmarki. Það mætti segja að allir sem sækjast eftir aðgang að Flateyjarbók líði þá "skort", að eigandanum undanteknum. Þarna virðist markaðurinn leiða til óskilvirkrar niðurstöðu. Þetta er ekki veikleiki í hugmyndafræði nýfrjálshyggjunar sem slíkrar heldur er þetta galli í markaðsbúskapi yfirhöfuð, líkt og einokunar- og hringamyndun í ákveðnum atvinnuvegum. Eitt af hlutverkum ríkisins er að lagfæra þær kringumstæður þar sem hinn frjálsi markaður bregst. Þess vegna er til "anti-trust" löggjöf til að koma i veg fyrir einokun og hringamyndum. Hví ekki þjóðminjasafn til að tryggja skilvirkni í notagildi fornmuna?

Að lokum vil ég benda á að flestar öfgakenndar hugmyndir eru gallaðar, og þá af yfirleitt sömu ástæðunni: þær hvíla á vafasömum frumspekilegum forsendum sem eru aldrei beinlínis viðurkenndar af talsmönnum hugmyndarinnar af ótta við að leiða í ljós þversagnir sem eru hugmyndinni eðlislægar. Hjá Marxistum eru þessar frumspekilegar forsendur söguhyggja Hegels og Platóns, og gildiskenning Marx. Hugmyndafræði frjálshyggjunnar á aftur á móti rætur sínar í frumspeki engilsaxneskrar heimspeki, þ.e.a.s. frumspeki atóma og tómarúms, sú trú að heimurinn samanstandi af "agentum" í hlutlausu tómarúmi. Samkvæmt frjálshyggjunni þá eru fólk eins konar atóm, og samfélagið hið hlutlausa tómarúm. Allt sem maður gerir hefur einungis áhrif á mann sjálfan. Einungis er hægt að hafa áhrif á aðra á "beinan" hátt, t.d. með því að stinga þá með hníf, eða eitthvað álíka. Þetta er bersýnilega rangt.