Frjálshyggjurugludallur að nafninu Friðbjörn Orri Ketilsson hefur skrifað grein á vefnum sínum sem ber titilinn "Menningarverðmæti á frjálsum markaði". Þar færir Friðbjörn rök fyrir því að "menningarverðmæti" á borð við fornleifar og handrit Íslendinga ættu að vera seld á frjálsum markaði í stað þess að vera í varðveislu ríkisins. Ástæður hans fyrir þessari athyglisverðu skoðun, svo framarlega sem ég get greint, eru eftirfarandi:

A) Lágmarksríki sem verndar einungis líf, frelsi og eignarétt er réttlátt fyrirkomulag. Verndun ákveðinna verðmæta út frá tilfinningalegu mati stjórnmálamanna er ekki hluti af lágmarksríkinu.

B) Ekki eru allir sammála um að viðhald t.d. þjóðminjasafns skapi þjóðarímynd, og "það er fáránlegt að taka skoðanir fárra og þvinga alla til að taka þátt í kostnaði af slíkum skoðunum".

C) Það er rangt að álykta að slíkir munir fengju slæma meðferð ef þeir væru í einkaeign. Þvert á móti mundi sá sem greitt hefði fyrir muninn meta hann meira heldur en ríkisstarfsmenn sem hafa ekkert fjármagn bundið í muninum.

D) Einstaklingur sem ætti slíkan fornmun mundi nota hann til að þéna tekjur með því að selja aðgang að honum.

Punktur A er umfangsmikill, og þótt finna megi ýmisleg rök gegn þessu blessaða lágmarksríki nýfrjálshyggjusinna þá mun ég ekki fari í það núna. Í staðinn mun ég einbeita mér að því að hrekja eða allavega kasta skugga á punkta B, C og D.

Lítum á punkt B. Vissulega eru menn með mjög misjafnar skoðanir um hvað skapi "þjóðarímynd", hvað svo sem það kann nú að vera. Menn eiga það nú til að hafa mismunandi skoðanir á hinum ýmsu efnum, þ.á.m. um hvort að bjóða ætti landsmönnum upp á ókeypis menntun og heilbrigðisþjónustu greidda úr ríkiskassanum. Að lágmarksríkinu gefnu er auðvitað hægt að ráðast til atlögu á ýmislegt sem ríkið tekur sér fyrir hendur. Þetta er augljóst. En lykilorðið í þessari staðhæfingu er "fárra". Þykist Friðbjörn tala hér fyrir íslensku þjóðina? Mér virðist sem þorri Íslendinga séu nú bara býsna sáttir við það að hluti skattpeninga þeirra fari í að gera fornminjar, handrit og annan sameiginlegan menningararf aðgengilegan almenningi. Ef svo væri ekki þá mundu hinir ósáttu eflaust láta heyra í sér. Tökum dæmi. Ef stjórnmálamenn hér á landi legðust aftur á móti út kaup á "fyrsta gítarnum sem Bítlarnir eignuðust" fyrir peninga skattgreiðenda þá yrðu eflaust harðyrð mótmæli, en hér er verið að ræða um séríslenska muni sem snerta sögu lands og þjóðar.

Hvað punkt C snertir, þá er ég alveg sammála höfundi að það væri afar ólíklegt "að auðmaður kaupi Flateyjarbók og noti hana [...] 'sem klósettpappír'". Þó þykir mér málið alls ekki snúast um hvort fornmunir fái góða eða slæma meðferð í einkaeign miðað við ríkiseign. Það má þó með nokkuri vissu segja að fornleifafræðingar og sérfræðingar sem rannsaka og sjá um fornmuni fyrir hönd ríkisins (og þ.a.l. hins almenna skattborgara) séu vel í stakk búnir til að passa upp á þá. Þarna þykir mér frjálshyggjan falla í enn eitt skipti á fáránlega barnslegri mynd af þeim öflum sem knýja mannskepnuna áfram. Alltaf rekst maður á þennan homo economicus (þá kynlegu skepnu!), hinn skynsama mann sem hefur einvörðungu hámörkun efnislegra gæða sér að takmarki. Þetta líkan af mannlegri hegðun stenst einfaldlega ekki þolraun reynslunnar. Það eru til auðmenn sem meta einkasafn sitt svo mikið að þeir vilja ekki græða meira með því að gera það öðrum aðgengilegt gegn greiðslu. Á svipaðan hátt eru til fornleifafræðingar sem bera svo mikla virðingu fyrir þekkingar- og fræðslugildi fornmuna að þeir mundu ekki skemma þá eða láta þá grotna þó svo að þeir hljóti ekkert fjárhagslegt tjón af.

Af öllu því sem höfundur lætur út úr sér þykir mér þó punktur D hæpnastur. Þótt að auðmaður með verðmæta fornmuni og "menningararf" í eign sinni gæti vissulega haft tekjur af því að selja almenningi aðgang, þá eru til fjölmörg dæmi um ríka safnara sem draga að sér menningarverðmæti hvaðan að úr heiminum fyrir einkasafn sitt, sem ekki er opið almenningi eða fræðimönnum. Vandinn við slíkt fyrirkomulag felst einfaldlega í því að menningarverðmæti eru einstök. Það er bara ein Flateyjarbók (svo ég noti nú dæmi höfunar), og ekkert annað rit getur komið í stað hennar. Verðmæti bókarinnar er fólgið í því að ekki er hægt að skapa fleiri slíkar bækur, ólíkt flestöllum vörum á hinum almenna markaði. Hagfræðingar kalla slíkar vörur "einskorðaða vörutegund" ("exclusive commodity"). Þess vegna er verðmæti bókarinnar, sem og annara fornmuna, hámarkað með því að gera hana aðgengilega sem flestum. Því markmiði er náð ágætlega með því að láta ríkið reka söfn og hafa sérlærða fræðimenn í vinnu við umsjón þeirra. Fyrir mitt leiti þá sé ég ekki eftir krónu af mínum skattpeningum sem fer í þetta.