17.1.2005 kl. 17:40

Ég var að lesa ákveðna bloggsíðu núna áðan, og þar var hanskinn tekinn upp fyrir Derrida í kjölfari fjölmiðlaumfjöllunar við lát hans.

Ég veit í sjálfu sér ekkert rosalega mikið um karlinn, og hef ekki lesið nein af verkum hans. Aftur á móti þá var mér gefin bókin "Jaques Derrida" eftir Nicholas Royle fyrir u.þ.b. ári. Þessi bók, af kápunni að dæma, átti að "útskýra" meginhugmyndir heimspekingsins. Ég blaðaði í gegnum formálann og þótti það sem ég las vera bölvuð pseudo-intellectual þvæla.

Þess má geta að bandaríski heimspekingurinn Willard Van Orman Quine, ein af höfuðfígúrum í analýtískri heimspeki síðari hluta 20. aldar, senti bréf til Cambridge ásamt tuttugu öðrum þekktum heimspekingum í mótmælaskyni þegar Derrida hlaut heiðursdoktorsstöðu við háskólann. Bréfið inniheldur m.a. eftirfarandi athugasemd:

"Professor Derrida's work does not meet accepted academic standards of clarity and rigor"

Sjálfur hallast ég sterklega að engilsaxnesku analýtísku hefðinni í heimspeki, og hugsa að ef Willard Van Orman Quine geti ekkert vit lesið út úr Derrida þá sé það alveg tilgangslaust fyrir mig að reyna það. Jafnvel þótt eitthvað af viti sé í raun að finna í ritum hans þá er það efamál hvort það sé þess virði fyrir mig að reyna að grafa það upp.

Eitt af sorglegu staðreyndum nútímaheimspekinnar er að hún hefur "professionalíserast" líkt og flest fög. Í dag skrifa atvinnuheimspekingar að mestu leiti bara greinar í sérhæfð akademísk tímarit ætluð öðrum atvinnuheimspekingum, líkt og fræðimenn í "hörðu" vísindunum. Þeir sem eru ekki með heimspekimenntun að baki hefðu eflaust lítið upp úr því rýna í nýjasta eintakið af Mind. Er þetta óhjákvæmileg afleiðing sérfræðingasamfélagsins? Þetta er þróun sem hefur að mér skilst átt sér stað að mestu leiti á síðari hluta 20. aldar. Á 19. öld skrifuðu menn eins og Hegel og Nietzche (sem geta verið býsna tyrfnir) þó ekki einungis fyrir aðra heimspekinga heldur fyrir hinn akademíska heim í heild sinni. Phänomenologie des Geistes eftir Hegel, sem er án efa tyrfnasta rit sem ég hef nokkru sinni *reynt* að lesa, var ætlað fræðimönnum um allan heim, ekki bara atvinnuheimspekingum

Varla undra að hinn óbreytti maður út á götu hallist að því að heimspeki sé ekkert nema bölvað þvaður, andlegt runk hjá einhverjum menntasnobbum. Þetta er viðhorf sem ég rek mig sífellt á og þykir mjög miður...