Jæja, gott fólk. "Hell froze over" og Sveinbjörn Þórðarson skrifar á sínu ástkæra móðurmáli til tilbreytingar. Já, svona er þetta. Þótt enskan sé þægilegt mál á margan hátt (og hið prýðilegasta ritmál), þá verð ég að játa að það að tala hana til lengdar getur verið þreytandi, þá allra helst vegna þess að hún er svo hæg. Íslenskan er að miklu leiti töluð fremst í munninum (öll þessi hörðu err), sem gerir mönnum kleyft að tala hratt og skýrt, jafnvel á háværum skemmtistað. Hvað um það, þá rakst ég á eftirfarandi textabút í umræðu um Þjóðkirkjuna og rugludallana sem þar starfa:

"Það rennur mér til rifja að í nútímasamfélagi þar sem búið er að fletta dulúðinni af svo ótalmörgum hlutum, skuli gagnrýninni hugsun ekki vera gert hærra undir höfði en nú er. Í stað þess að hlúa að henni, uppfræða í krafti hennar og hampa á allan hátt er fjármagninu stöðugt veitt í að viðhalda gömlum hindurvitnum og heilli stétt manna haldið úti til að reyna að réttlæta hégiljurnar fyrir okkur hinum með vafasömum túlkunaraðferðum."

Og síðan:

"Væri ekki nær að koma á stofnunum gagnrýninnar hugsunar, þar sem fólk hefði stöðugan aðgang að fyrirlestrum og umræðum um heimsmyndina og gæti kynnt sér nýjustu hugmyndir þar að lútandi í stað þess að út um borg og bý séu kjólaklæddir töfralæknar að hampa einhverjum öndum og ástunda hvítagaldur, eins og ef við værum stödd aftur í kolsvartri forneskju?"

Þessi Birgir Baldursson sem ritaði þetta er maður að mínu skapi.

Það var haldin atkvæðagreiðsla hér í stúdentahúsnæðinu um daginn, og var þá kosið um alls kyns titla eins og "Myndarlegasti gaurinn", "Sætasta stúlkan", "Skemmtilegasta manneskjan", og svo framvegis. Ég kaus reyndar ekki, en þó hlaut ég verðlaun:

Já, ég var kosinn alki húsnæðisins. Mér þótti þó nokkuð viðeigandi að ég var sauðdrukkinn þegar ég tók við verðlaununum. En suss og svei! Þessir blessuðu Kanadabúar geta ekki drukkið fyrir fimmaura, ælandi og vælandi eins og kerlingar eftir örfáa bjóra. Og ég er álitinn alki fyrir það eitt að hafa heilbrigt víkingaþol?

Glöggir menn munu hafa séð að á verðlaunaplaggi þessu er nafnið mitt skrifað "Sven", en ég hef kynnt mig undir og svarað því nafni síðan ég kom út. Það er alveg handónýtt að reyna að kenna enskumælandi fólki að bera fram mitt tíu-stafa nafn (það endar alltaf sem "Swine-Bjoorne"), þannig að ég gríp bara gömlu góðu skandinavísku klisjuna: "Sven". Þetta er ágætis skipting frá því að ég bjó síðast í enskumælandi landi (nefnilega í Oxford 1996), en þá gekk ég undir nafninu "Bjorn". Nú hef ég prufað bæði nöfnin, og hefur Sven reynst auðveldari. Ég hlakka samt til að koma heim og endurheimta mitt rétta nafn, "Sveinbjörn".